Búist er við að 491 milljón farsíma verði seld á árinu, en það eru 86 milljón fleiri símar heldur en voru seldir á liðnu ári, að því er fram kemur í skýrslu greiningarfyrirtækisins ARC Group um söluhorfur á farsímum og tækninýjungar á þeim vettvangi. Fyrirtækið heldur því fram að flestir farsímar verði seldir í GSM-kerfinu, eða 313,3 milljónir en ríflega 75 milljónir farsíma verði seldar í CDMA-kerfinu. Þá vekur athygli að gert sé ráð fyrir að hálf milljón þriðju kynslóðar símar verði seldir á árinu 2001.
Kemur fram í skýrslunni að drungi hafi hvílt yfir farsímaiðnaðinum síðustu sex mánuði en nú sjái fyrirtæki til sólar á ný, ekki síst með GPRS, sem veitir sítengingu við Vefinn, en hvert símafyrirtækið af öðru hefur hleypt slíkri þjónustu af stokkunum. ARC gerir ráð fyrir að sala á símtækjum verði blómleg á þriðja og fjóra fjórðungi ársins í samanburði við litla sölu á fyrstu mánuðum ársins.
Af www.mbl.is – GSM að eilífu ;)