Belgísk ekkja varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu á dögunum að farsími nýlátins eiginmanns hennar hringdi við útför mannsins. Farsíminn hafði fyrir handvömm lent ofan í kistunni. Útfararstjórinn var fljótur til, opnaði kistuna og fjarlægði símann, að því er segir í frétt dagblaðsins Het Laatste Nieuws. Útfarstjórinn baðst margfaldlega afsökunar en það var hann sem ákvað að setja gatslitinn leðurjakka mannsins í líkkistuna og tók ekki eftir símanum í einum vasanna. Hringingin sem barst úr kistunni yfir kirkjugesti var aðvörunartónn til merkis um að rafhlaðan væri að tæmast.