Ég heyri oft vini og kunningja kvarta yfir því að hafa verið vaktir upp um miðja nótt við símhringingu í GSM síma. Þá eru einhverjir blindfullir vinir og félagar að hringja og athuga hvort viðkomandi sé í bænum.
Ég hef heyrt ýmsar ástæður fyrir því af hverju fólk gerir þetta:
“Ég nota símann sem vekjarklukku´
”Ég er svo mikilvægur /væg“
”Ég hef kveikt ef það skyldi koma upp neyðartilvik!“
”Ég veit það ekki"
Það skemmtilega er að það er hægt að hafa slökkt á öllum GSM símum (nema Motorola) á nóttinni og samt pípir vekjaraklukkan! Ef þú trúir mér ekki skaltu bara prófa!
Heimasíminn er verndaður af þeirri siðareglu að maður hringir helst ekki í þá mikið eftir ellefu að kvöldi, en það er GSM síminn hinsvegar ekki. Hinsvegar er hringt í heimasíma í algerum neyðartilfellum.
Svo leiðum við hugann að geislunarþættinum. Það hefur ekki verið sannað að GSM símar valdi skaðlegri geislun, en það breytir því ekki að það er allt í lagi að draga úr óþarfa geislun af völdum GSM síma, sérstaklega í þeim tilfellum sem þeir eru notaðir sem vekjarklukkur, þá eru þeir venjulega hafðir á náttborðinu, eða nálægt rúminu.
Þetta er enn eitt dæmið um það hversu miklir sveitamenn við erum í umgengi við GSM síma. Önnur dæmi eru hversu óhikað við notum símana í rigningu, gleymum því að slökkva á hringingunni þegar við förum í bíó, kirkju og í leikhús og lesum aldrei leiðarvísinn um símana sem við erum að nota!
Mitt mottó er: Ég hef slökkt á símanum á sama tíma og það er slökkt á mér.