Ég sá frétt í gærkvöldi um að NTT DoCoMo í Japan ætli að opna fyrsta þriðju kynslóðar farsímakerfið í næsta mánuði. Þetta eru stórtíðindi og það verður gaman að sjá hvernig þeim gengur!
Það sem hamlar því að opna þriðjukynslóðar farsímakerfi í dag er fyrst og fremst símarnir… og þá helst skortur á almennilegum símum. Vandamálin sem steðja að þriðju kynslóðinni eru mörg og loða flest við símana. Það að troða öllum þeim fídusum sem þriðjukynslóðar sími á að búa yfir í síma sem kemst fyrir í vasa er ekkert lítið mál. Rafhlöður nútímans eru eru ekki nógu öflugar til að knýja þá öflugu örgjörva sem þörf verður á, auk þess sem litaskjáir nota gríðarlega mikla orku. En það eru nokkrar leiðir sem hægt er að fara við hönnun á nýjum símum:
1. Stór sími, sem inniheldur allt það sem nota á. Dæmi um þetta er Sagem WA9050 og Nokia Communicator
2. Nettur sími, og “lófatölva” sem tengist honum þráðlaust fyrir vídeó og tölvupóst og Internet. Þetta sjáum við gerast þegar lófatölvur með Bluetooth koma á markaðinn
3. Sími í mörgum hlutum, t.d. sér headsett, úr og lófatölva sem allt tengist svo með þráðlausri tækni, til dæmis Bluetooth. Þetta er meiri framtíðarmúsík.
Hvað verður ofan á verður að koma í ljós. En farsíminn eins og við þekkjum hann í dag á eftir að taka gífurlegum breytingum. Hver veit, kannski verður hægt að fá farsíma innbyggðan í gleraugu eftir 5 - 10 ár!