Meðalsímreikningur viðskiptavina Símans mun hækka um 2,4-3,1% frá 1. ágúst, en þá hyggst fyrirtækið hækka verðskrá sína í fastlínu- og farsímaþjónustu. Breytingin er tilkomin vegna hækkunar á rekstrarkostnaði sem að stórum hluta stafar af lækkun á gengi íslensku krónunnar, að því er fram kemur í tilkynningu frá Símanum. Segir að stjórn Símans hafi ákveðið að bregðast við þessum breytingum á tvennan hátt; annars vegar með lækkun rekstrarkostnaðar, sem er sögð hafa skilað verulegum árangri, og hins vegar með hækkun á einstökum liðum þjónustu fyrirtækisins.
102 króna hækkun á mánuði að meðaltali
Meðalsímreikningur heimila í talsímaþjónustu mun því hækka um 102 krónur á mánuði, eða úr 4.333 krónum í 4.435 krónur. Í breytingunum felst að í almenna kerfinu hækkar dagtaxti um sex aura, úr 1,50 krónum í 1,56 krónur, eða um 4%. Kvöld-, nætur- og helgartaxti hækkar um sjö aura úr 0,78 aurum í 0,85 aura eða um 9%. Upphafsgjald símtala í almenna kerfinu hækkar um 25 aura, úr 3,20 krónum í 3,45 krónur, eða um 7,8%. Fastagjald helst óbreytt. “Afsláttur í sparnaðarleiðinni Vinir & vandamenn innanlands hækkar úr 10% í 15% og afsláttur í sparnaðarleiðinni Vinir & vandamenn Internet breytist þannig að í stað stighækkandi afsláttar sem mestur var 20% eftir 30 mínútur verður fastur 20% afsláttur gefinn eftir 10 mínútur. Niðurstaða breytinganna er að meðalsímreikningur heimila hækkar um 2,4%.”
GSM-þjónustan hækkar um 110 krónur á mánuði
Meðalsímreikningur GSM-þjónustu hækkar við þessa breytingu um 110 krónur á mánuði eða úr 3.585 krónum í 3.695 krónur. Fram kemur að verðskrá farsímakerfisins breytist á þann veg að í stað 10 sekúndna upphafsgjalds kemur föst upphæð, ein króna innan sama kerfis og tvær krónur milli kerfa. Þetta á bæði við um GSM- og NMT-kerfin. Afsláttur í sparnaðarleiðinni Vinir og vandamenn GSM hækkar jafnframt úr 10% í 15%. Þessar breytingar hafa þau áhrif að meðalsímareikningur í GSM hækkar um 3,1%. Breyting þessi nær ekki til viðskiptavina fyrirframgreiddrar GSM-þjónustu Símans (Frelsi).
Ísland lægst innan OECD þrátt fyrir hækkun
Heiðrún Jónsdóttir, forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála Símans, segir að þrátt fyrir þessar hækkanir séu talsímagjöld á Íslandi enn sem áður langlægst innan OECD-landa og fjórðungi lægri en í því landi sem næst kemur, sem sé Svíþjóð. “Þegar litið er til meðalfarsímakostnaðar OECD-landanna er Ísland einnig lægst, en næsta land er Finland.”
******************************************************************************************