Ég rakst á ansi skemmtilega grein inni á viðskiptavef Mbl.is þar sem talað var um að það væri farið að kreppa að hjá Vodafone í Bretlandi. Meðal þess sem Vodafone hyggst gera til að rétta úr kútnum er að leysa upp samstarfsfyrirtæki Vodafone og AT&T, Concert.

Þetta eru hræðilegar fréttir fyrir Íslandssíma því allt þeirra reiki í útlöndum er byggt á samningi við Concert. Reikið þeirra mun þó varla detta niður, en það er mjög líklegt að það verði flóknara í framkvæmd fyrir viðskiptavini Íslandssíma en áður. Það virðist vefjast nóg fyrir fólki að setja 1 á undan PIN númerinu þegar til útlanda er komið. Ég tel samt líklegt að amk einhver lönd detti út á meðan unnið er að nýjum samningum.

<B>Hérna er greinin:</B>
Viðskipti | Morgunblaðið | 4.7.2001 | 05:55

Kreppir að hjá Vodafone
Breska farsímafyrirtækið Vodafone er ekki aðeins illa stætt eins og mörg önnur farsímafyrirtæki vegna mikilla fjárfestinga í þriðju kynslóð farsíma. Skynsemin í yfirtökunni á þýska keppinautnum Mannesmann fyrir 113 milljónir punda, sem hélt fjármálaheiminum í spennu vikum saman meðan á ferlinu stóð, er líka í vaxandi mæli dregin í efa.

Um leið er samstarf BT og AT&T á Bandaríkjamarkaði að leysast upp, að sögn Financial Times. Báðar þessar hræringar eru enn eitt dæmið um erfiðleika símafyrirtækjanna, sem þar til í fyrra virtust ekki eiga neitt nema glæsta framtíð í vændum. Í þeim geira vara menn við að jafnofmetnar og vonirnar hafi verið sé heldur ekki ástæða til að draga upp of dökka mynd.


Rétt ákvörðun að kaupa Mannesmann
Hið þýska Mannesmann var farið að seilast mjög inn á breska símamarkaðinn og stefndi í að taka yfir Orange, harðan keppinaut Vodafone á heimamarkaðnum breska. Ýmsir álíta því að Vodafone hafi ekki átt annarra kosta völ en taka yfir Mannesmann. Staðreyndin er þó sú að málin horfa öðru vísi við nú og svo virðist sem yfirtakan á Mannesmann og önnur kaup Vodafone á útþenslutímanum hái nú fyrirtækinu.

Yfirtakan jók reyndar ekki á skuldir Vodafone, eins og fyrirtækjakaup BT og annarra símafyrirtækja gerðu, heldur notaði Vodafone hátt skráð hlutabréf sín til kaupanna og hluthafar tóku á sig þynningu hlutabréfanna gegn því sem þá virtust góðar horfur. En við breyttar aðstæður horfa málin öðru vísi við, því bæði hafa hlutabréfin fallið og einnig eru ýmsar fjármálastofnanir sem tóku bréf á sínum tíma til að fjármagna kaupin, farin að selja þau á fremur tregum markaði.

Forstöðumenn Vodafone halda þó fast við að yfirtakan hafi verið rétt aðgerð og Vodafone hafi ekki greitt of mikið fyrir Mannesmann.

Concert var samstarf BT og AT&T í Bandaríkjunum, en hefur aldrei uppfyllt þær vonir, sem voru gerðar til þess þegar það fór af stað fyrir þremur árum. Nú stefnir í að Concert verði leyst upp og sagt að tapið í mars og næstu þrjá mánuði á undan hafi numið 89 milljónum punda.

Fyrirtækin tvö höfðu vonast eftir samlegðaráhrifum í þjónustu við stóra viðskiptavini í London og New York, en þær áætlanir gengu aldrei eftir.

London. Morgunblaðið.