Þetta er besta leiðin sem ég hef fundið til þess að krækja mér í fría MIDI tóna á gemsann minn. En til þess að geta notað þessa leið þurfa bæði tölvan sem þú ætlar að nota og farsíminn að hafa annaðhvort infrared eða bluetooth. Það er líka hægt að kaupa snúru sem liggur úr tölvunni í símann og virkar þá svipað.
-Snúran, infrared kubburinn og bluetooth kubburinn kosta oftast í kring um 5000 kr. stykkið. Mér finnst það margborga sig þegar maður hugsar það þannig að þegar maður er búinn að kaupa eitt þessara hluta sem hentar best þá hefur maður aðgang að nánast ótakmörkuðu magni af hringitónum ókeypis, í stað þess að hafa aðgang að örfáum hringitónum sem kosta allir 99kr. stykkið.
ATH. að margar, ef ekki flestar fartölvur hafa innbyggt Bluetooth og/eða infrared, þannig að þá þarf maður ekki að kaupa slík stykki sér.
Aðferðin er samt sem áður talsvert flóknari en þegar maður kaupir tóninn.
Hérna er aðferðin:
1) Skelltu þér hingað á tölvunni þinni: http://www.musicrobot.com/
2) Sláðu inn leitarorð (ath. að þú verður að haka mismunandi við eftir því hvort þú sést að leita að hljómsveit/listamanni eða nafni á lagi) og ýttu á “Search”.
3) Næsta síða sýnir leitarniðurstöður. Ef þú leitaðir að hljómsveit/listamanni þá kemur fyrst síða með mögulegum nöfnum og þar á eftir kemur lagalisti (mismunandi útgáfur á mismunandi lögum). Smelltu á lagið í stærðinni sem þig langar í og þá kemur listi af vefsíðum sem að bjóða upp á lagið frítt í MIDI.
4) Smelltu á einhverja síðuna. Að líkindum fær maður auglýsingu í smettið í fyrstu tilraun, þá er bara að ýta á “Back” hnappinn á vafranum þínum og smella aftur á sama. Gangi allt að óskum ættirðu nú að finna þig á heimasíðu sem að býður upp á helling af MIDI tónum, þar á meðal þann sem þú sóttist eftir. Hér finnst mér best að gramsa svolítið, en ef þú ert ekkert forvitin um aðra tóna en þann sem þú leitaðir að ýttu þá á CTRL+F (Epli+F á Mac tölvum) og leitaðu að broti úr nafni lagsins.
5) Þegar lagið er fundið á síðunni geturðu annað hvort hægri-smellt (CTRL+Smella á Mac tölvum) á línkinn á það og valið “Save as…” eða bara smellt á lagið til að hlusta á það fyrst. -Ég mæli með því að þú búir til sérstaka MIDI möppu á skjáborðinu og vistir alla tónana þar svo þeir dreyfist ekki út um alla tölvu og týnist. Ef þú ert ekki að fíla tóninn geturðu alltaf bakkað og valið aðra útgáfu af honum af leitarsíðunni.
6) Tengdu tölvuna við símann þinn og sendu tóninn yfir á símann. Hvernig þetta fer fram fer allt eftir því hvernig síma þú ert með og hvaða tengileið þú velur. Bluetooth er einfaldast að mínu mati og er eins fyrir alla síma sem hafa bluetooth.
Kveiktu á bluetooth/infrared og veldu “Send File” þá ætti að koma upp gluggi þar sem þú velur hvað þú ætlar að senda. Veldu tóninn/tónana sem þú sóttir áðan og ýttu á OK. Tölvan ætti þá að leita að símanum og finna hann. Þegar tenging hefur náðst verðurðu að samþykkja á símanum að móttaka skránna. Tónninn ætti að þjóta inn og þú getur nú notað hann sem hringitón.
Svo fyrir lengra komna getur verið gott að krækja sér í MIDI tónlistarforrit, en þau fást ódýrt/frítt á netinu. Með þannig forriti geturðu klippt til hringitóninn og breytt honum eftir eigin höfði. Mjög hentugt ef tónninn er t.d. lengi að byrja að klippa bara framan af honum. Líka ef tónninn er allt lagið þá er hann í stærri kantinum og þá er gott að geta bara klippt aftan af honum og sparað þannig pláss á símanum ef skortur er á því.
Þeir sem hafa síðan gott tóneyra geta síðan samið sína eigin hringitóna með svona forriti sem er alltaf voða spes. :P
Svo er náttúrulega alltaf hægt að nota Wappið til þess að krækja sér í fría tóna (ath að 1MB niðurhal á vappi kostar oftast tæpar 1000kr. en MIDI tónar eru oftast um 7kb þannig að maður ætti að geta náð í yfir 100 tóna af þeirri stærð fyrir þúsundkallinn). En mér er farið að finnast erfitt að finna góðar fríar tónasíður á Wappinu þannig að ég fer hina leiðina.