Eitt það leiðinlegasta sem ég lendi í er þegar ég fer í bíó og þarf að hlusta á einhverja leiðinlega símhringingu á mest spennandi punktinum í myndinni.
Það er nefnilega þannig að þeir sem hringja eru ótrúlega naskir að finna akkúrat “ranga” tímann til þess, og það eru margir sem hreinlega gleyma að slökkva á hringingunni (Eða hreinlega slökkva á símanum… til hvers eru talhólf?). En það sem fer mest í pirrurnar á mér er þegar síminn fær að hringja heillengi áður en honum er svarað. Versta dæmið um þetta var þegar einhver SMS perri var SMSast í sætaröðinni fyrir aftan mig. Það er allt í lagi mín vegna að fólk sé að SMS perrast í bíó, en þá er líka allt í lagi að stilla á titring og slökkva á hljóðinu… en það hafði þessi ágæti herra maður ekki gert. Fyrir hlé var ég búinn að telja 10 SMS Píp (Hefur einhver heyrt SMS tóninn Special í Nokia símunum?) og ég var mikið að pæla í að gefa honum restina af poppinu mínu. En ég held að hann hafi séð reiðiaugnaráðið sem ég og afgangurinn af fólkinu í salnum, enda heyrðist ekki meira í símanum hans út myndina.
Ég hef oft verið að velta fyrir mér hvað olli því að maðurinn stillti ekki bara á Silent, hvort hann kunni það ekki, eða hefur raunverulega ekki fattað að hann væri í bíó og fólkið sem var samankomið í salnum var ekki þar til að hlusta á SMS píp.
Boðskapurinn í þessari sögu er: Slökktu á hringingunni í farsímanum þínum þegar þú vilt ekki láta trufla þig eða þar sem hún gæti truflað aðra. Sjúkrahús, bíó, leikhús og fínir veitingastaðir eru góð dæmi um slíka staði.
Kannt þú að stilla á Silent?