Nokia 6210. Fyrir tæpum tveimur árum ákvað ég að ganga í hinn sívaxandi hóp GSM eigenda. Fyrir valinu varð Nokia 6110. Ég valdi hann framyfir 5110 vegna aukinna möguleika. Dagbókin var og er stórkostleg.

Í desember síðastliðnum ákvað ég að gefa sjálfum mér jólagjöf fyrir að hafa verið svona góður á árinu. :) Fyrir valinu varð Nokia 6210. Af hverju 6210? Að mínu mati var hann eina rökrétta skrefið frá 6110 símanum. Gott að losna við loftnetið og takkaborðið hélt sömu klassísku uppsetningunni. Sú besta sem ég hef komist í tæri við. Skjárinn er stór og skýr. Það sé ég best þegar ég horfi á skjáinn á 5110/6110/3210/3310, þeir eru alltíeinu orðnir voðalega litlir og dimmir.
Svo hefur stýríkerfi símans verið íslenskað. í fyrstu átti ég erfitt með að venjast því að þurfa að fara inn í “sérsnið” en ekki “profiles” til að skipta um hringitón. En það vandist ótrúlega fljótt og kann ég vel að meta þá staðreynd að síminn minn talar sama tungumál og ég.
Stærðin á honum skemmir heldur ekki fyrir. Hægt er að nota alla aukahluti sem passa á 5110/6110 með þessum síma, þarmeðtaldar rafhlöður, og er síminn því svipaður að hæð og fyrrnefndir símar, nema loftnetið vantar. Fyrir mitt leyti er það hæfileg hæð. Hann hefur samt grennst þokkalega miðað við bróður sinn 6110, en hann fer vel í hendi.

En hann er ekki gallalaus, greyið. Stærsti gallinn er að ég held sá að hann er lengi að fara inn í allar valmyndir. Þá meina ég lengi miðað við td. 6110. Ég veit ekki alveg hvað veldur því.
Ef þið eruð mikið fyrir að senda og skoða “myndirnar” sem gengið hafa milli 5110/6110/3210/3310 er þetta ekki mjög hentugur sími. Þar sem skjárinn er stærri rúmar hann fleiri línur, auk þess sem hann virðist draga öll stafabil frá brún skjásins til baka, svo myndirnar liggja allar við vinstri brún skjásins. Hefur samt ekki háð mér neitt að ráði.

En á heildina litið er þessi sími mjög góður kostur, og mæli ég eindregið með honum.

vamanos