Fyrir um það bil ári síðan datt held ég engum í hug að það verði til GSM sími sem er 88 grömm og getur geymt ígildi geisladisks af tónlist á MP3 formi. Í dag höfum við Siemens SL45 sem gerir einmitt þetta. Að vísu þarf maður að fjárfesta í stærra minniskorti, en hvað um það.
Núna er spennandi að velta fyrir sér hvernig símarnir eftir ár munu líta út. Í lok þessa mánaðar verður CeBIT sýningin haldin í Hannover í þýzkalandi. Þar munu allir þeir farsímaframleiðendur sem eitthvað hafa að segja kynna nýjustu símana sína.
Draumasíminn minn myndi vera með þægilegu valmyndakerfi, (Siemens SL45 er ekkert verri en Nokia, fyrir utan að þeir nota önnur hugtök, t.d. Vibrate = Trembler) MP3 spilara, GPRS og Bluetooth.
Útlitslega séð myndi ég vilja sjá stærri skjá, án þess að hann verði varta á símanum (sjá 7110) helst með blárri lýsingu!
Hvað gerir svo þetta framtíðardót?
GPRS: Eykur gagnahraðann í GSM kerfinu allt að fimmfalt frá því sem nú er. Mesti mögulegi gagnahraði í dag verður um það bil 48 kb/sek, um það bil 40 kb/sek nothæf. GPRS er auk þess pakkatenging, svipað og ADSL. Þannig að þú greiðir ekki fyrir tímann sem þú ert tengd/ur heldur gagnamagnið. (Þetta fer samt eftir gjaldskrá farsímafyrirtækis)
Bluetooth: Þráðlaus opinn gagnaflutningsstaðall. Gerir okkur kleift að tengja saman tæki eins og GSM síma, ferðatölvur, þráðlaust headsett omfl. Hægt er að blanda saman tækjum frá ýmsum framleiðendum, headsett frá Ericsson, sími frá Nokia og PCMCIA kort í ferðatölvuna frá Motorola.
Þetta er hröð útlistun á því sem við eigum eftir að sjá í sumar.
Hvernig líst þér á?