Tekið af bt.is
Venjulegur sími víkur fyrir farsímanum
Venjulegur sími tengdur við svokallaða fastlínu má muna fífil sinn fegurri. Sífellt fleiri setja hann til hliðar. Farsíminn er að yfirtaka hlutverk þessara venjulegu fastlínusíma, að minnsta kosti á norskum heimilum – og örugglega víðar! Á síðustu þremur árum hafa að sögn Aftenposten 200 þúsund heimili og fyrirtæki sagt upp samningum um fastlínuslíma, 10% notenda hafa á stuttum tíma sagt skilið við gamla símann sinn. Nú hafa 3,7 milljónir Norðmanna farsíma en 2,2. milljónir fastlínusíma
Myndavélafarsímar bannaðir í búningsklefum
Nýjustu gerðir farsíma með innbyggum myndavélum verða bannaðar í búningsklefum í Ástralíu í hundruð líkamsræktarstöðva, sundlauga og íþróttahalla af ótta við að gluggagægjar misnoti nýjustu farsímatæknina, eins og selgir í Netútgáfu Sydney Morning Herald. Stjórnendur á slíkum stöðum hafa verið varaðir við því að undirförulir einstaklingar geti tekið upp stafrænar myndir, komið þeim í tölvur og jafnvel út á Netið. Áður hafa yfirvöld í bresku borginni Boston gripið til ámóta banns gegn nýju myndavélafarsímunum.
Farsímarnir orðnir of flóknir?
Nýjustu gerðir farsíma með alls kyns möguleikum geta verið dálítið erfið þraut fyrir börn og unglinga en alger martröð fyrir fullorðna sem vilja einfaldari farsíma og færri möguleika. Þetta er að minnsta kosti niðurstaða rannsóknar vísindamanna við háskólann í Aachen í Þýskalandi sem spurði 900 einstaklinga í ýmsum aldri. Rannsóknin leiddi í ljós að margir möguleikar sem nútíma farsímar bjóða upp á virka ruglingslegir og fráhrindrandi í augum flestra fullorðinna sem líktu lýstu reynslu sinni við göngu inn í völunarhús þar sem hver leiðarvísirinn tæki við af öðrum með lélegum leiðbeiningum. Einkum var það fólk á aldrinum 45-60 ára sem virtist eiga í mestu vandamálum með farsímana.
Farsímaþjónusta á hverju götuhorni
Farsímaþjónusta er í mikilli uppsveiflu í vesturhluta Afríku þrátt fyrir óstöðugleika og stríð í þessum heimshluta. Þjónustan er hvorki af hálfu hins opinbera né farsímafyrirtækja í einkaeign heldur hafa einstaklingar sem eignast hafa farsíma sett upp einkaþjónustu á götuhornum borga. Þar standa þeir sjálfir eins og lifandi tíkallasímar og bjóða fólki að hringja í farsímann gegn ákveðnu gjaldi. Einnig er hægt að kaupa SMS skeytasendingu – sem kallast “texto” - og jafnvel Netaðgang gegnum farsímann hjá þeim sem eiga fullkomnustu farsímana. Mikil samkeppni er á þessum sérstaka markaði, ekki aðeins milli þeirra einstaklinga sem bjóða þjónustuna, heldur líka á milli franskra og bandarískra farsímafyrirtækja sem reka farsímakerfin.
Farsíminn sem krítarkort
Finnski farsímarisinn Nokia og krítarkortafyrirtækið MasterCard hafa ýtt úr vör tilraunaverkefni um nýja kynslóð farsímatækni sem gerir farsímanotendum kleift að nota símann sem krítarkort, að því er talsmenn fyrirtækjanna hafa greint frá. Nokia hefur dreift fimm hundruð nýjum símum búnum þessari sérstöku greiðslutækni í Irving í Texas þar sem höfuðstöðvar Nokia eru í Bandaríkjunum. Tilraunatímabilið stendur yfir í sex til átta mánuði.
Langtímarannsókn: 46% geta ekki lifað án farsímans
Mikilvægi farsímans kemur skýrt fram í niðurstöðum breskrar langtímarannsóknar og 46% á aldrinum 25-34 telja sig ekki geta lifað án farsímans. Vísindamenn hafa staðfest með þessari rannsókn að farsíminn er orðinn ómissandi við stjórnun einkalífs og tilfinningalífs, eins og fram kemur í frétt BBC. Í rannsókninni var sjónum sérstaklega beint að áhrifum farsímans á tilfinningalíf eigandans og til dæmis í ljós að 46% höfðu notað farsímann til að komast í betra skap eða til að skemmta sér eða vinum. Enn fleiri, eða 55%, höfðu nota farsímann til að bægja frá leiða.
Fyrsta 3ju kynslóðar farsímanetið á Norðurlöndum tekið í gagnið í dag
Svíar ríða á vaðið og taka í gagnið fyrsta þriðju kynslóðar farsímanetið (UMTS) í dag. Sænskir farsímanotendur verða þó að bíða til 10. júní áður en þeir eiga þess kost að nýta sér farsímanetið, að sögn norska Netmiðilsins Digi. Sænska farsímafyrirtækið 3 (kallaðist áður Hi3G) starfrækir þessa nýju þjónustu en systurfélög þess reka fyrir sambærileg farsímanet á Englandi og Ítalíu. Sala á farsímum byggðum á 3ju kynslóðar tækninni hefst í Svíþjóð 10. júní og fyrst um sinn verða aðeins á boðstólum tvær gerðir síma frá Nec: e808 og 808.
Fjárhættuspil með farsímanum
Nú geta menn einfaldlega gleymt spilavítum og veðmongurum, að minnsta kosti Evrópubúar því þeir eiga þess kost að svala þörfinni fyrir fjárhættuspil hvar og hvenær sem er - með farsímanum. “M-gamblin” kallast fyrirbærið og hefur verið til staðar um hríð með WAP tækninni en nú býðst farsímanotendum betri tækni með meiri hraða. Fram kemur í AP frétt að í Hollandi, Svíþjóð, Þýskalandi, Bretlandi og Austurríki geti farsímanotendur nú keypt lottómiða, veðjað á úrslit íþróttaleikja og margt annað með farsímanum. Sambærileg þjónusta hefur nýverið hafist i Asíulöndum.
Farsímaúr á markað í næstu viku
Sala á armbandsúri sem jafnframt er farsími hefst 7. maí á sérstakri vefsíðu, www.wristomo.com en þessi nýjasti farsími hefur einmitt fengið nafnið Wristomo. Framleiðandinn er japanska farsímafyrirtækið DoCoMo og áformar að selja farsímaúrið eingöngu á Netinu. Í frétt Wireless Week segir að Wristomo sé 113 gramma vatnsþétt úr með gagnaflutningshraðanum 64 kb/ps. Hægt er að fletta upp á tilteknum vefsíðum með úrinu, segir í fréttinni.
SMS þaggar niður í Siemens farsímum
Tvær gerðir Siemens farsímar hafa orðið ónothæfir af völdum SMS skeyta sem læsa hugbúnaði símans, að því er fyrirtækið hefur viðurkennt. Í frétt CNET segir að Siemens 35 farsímarnir verði ónothæfar þegar reynt er að senda SMS skeyti og Siemens 45 verði líka fyrir áhrifum en unnt sé að “endurlífga” þá síðar. Báðar gerðir þessara síma eru eingöngu seldar í Evrópu. Á spjallrásum hefur verið látið að því liggja að DOS árás (denial-of-service) sé um að kenna en þeirri tilgátu hefur verið hafnað.
Tæplega 40% telja að ritmálinu stafi hætta af SMS
Tæplega fjórir af hverjum tíu – eða 37% - telja að íslenska ritmálinu stafi hætta af SMS skeytastílnum. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar á heimasíðu ATV og gefur sterka vísbendingu um að ritmáli stafi raunveruleg ógn af styttingum sem notaðar eru í SMS skeytum. Rúmlega helmingur svarenda, 52.9%, telur reyndar að hættan sé ekki fyrir hendi og 10.1% svara “veit ekki”. Eins og fram hefur komið í fréttum hér á heimasíðunni vilja skoskir kennarar spyrna við fæti vegna áhrifa SMS á ritmál unglinga í skoskum skólum en þrettán ára stúlka skilaði til dæmis á dögunum heilli ritgerð skrifaðri í SMS stílnum.
Snjallsímar segja eigendur of önnum kafna til að svara símtali
Snjallsími mun einn góðan veðurdag geta skynjað að eigandinn er of önnum kafinn til að láta trufla sig og biður því þann sem hringir að skilja eftir skilaboð. Í Reutersfrétt segir að vísindamenn við Carnegí Mellon háskólann í Pennsylvaníu séu að vinna að þróun slíkrar tækni þar sem örsmáir hljóðnemar, myndavélar og skynjarar segi til það hvort viðkomandi á of annríkt til að svara í síma. Ásláttur á lyklaborð, lokaðar skrifstofudyr, samtal eða tiltekinn tími dags gætu verið hugsanleg tákn um annríkið.
Farsími fyrir kvikmyndir
Nýr farsími, að hálfu leyti spilari fyrir ýmiss konar stafrænt efni og að hálfu leyti farsími, kemur á markað síðar á árinu. Síminn er meðal annars með 1,8” harðan disk fyrir 10 og 20Gb. Í frétt ePressunnar í Danmörku segir að farsíminn muni einfaldlega gera allt sem lýtur að margmiðlun, spila tónlist, sýna ljósmyndir og síðast en ekki síst verður hægt að sýna kvikmyndir í MPEG 4 sniði. Fyrirtækið sem framleiðir símann heitir Benq og haft er eftir sölustjóra þess í danska Netmiðlinum að síminn verði með nýja stýrikerfi Microsoft, Media To Go, sem enn ókomið á markað. Harði diskurinn er sömu gerðar og sá sem er að finna í iPod spilara Apple.
Stolnir farsímar gerðir óvirkir
Þúsundir stolinna eða týndra farsíma hafa verið gerðir ónothæfir af farsímafyrirtækjum í Bretlandi en um er að ræða nýja baráttuaðferð til að stemma stigu við sívaxandi stuldi á farsímum. Alls hafa farsímafyrirtækin gert um 440 þúsund farsíma óvirka, að því er fram kemur á Netmiðlinum Ananova. Öll farsímafyrirtækin skiptast á upplýsingum um glataða farsíma og vista þær í sameiginlegum gagnagrunni. Með þessu móti er unnt að loka algerlega fyrir símana, jafnvel þótt skipt sé um SIM kort. Þá hafa farsímafyrirtækin tilkynnt um sameiginlegt símanúmer sem farsímanotendur geta hringt í glatist síminn – og þá er hann samstundis gerður óvirkur. Herferðin hefur verið ítarlega kynnt undir slagorðinu: “Stolen phones don´t work any more”.
Leikjastríð milli Nokia og Nintendo
Um hríð hefur verið kyrrlátt að kalla á markaði með smátölvur fyrir leiki en Nintendo hefur nánast setið eitt fyrirtækja að þeim markaði með GameBoy og GameBoy Advance. Farsímarisinn finnski, Nokia, kynnti hins vegar fyrir nokkru nýja gerð farsíma, N-Gage, sem ætlað er að höggva skörð í þennan markað en um er að ræða samruna farsíma og leikjatölvu sem vakið hefur mikla athygli. Vitað var að stjórnendur Nindento myndu ekki sitja auðum höndum og nú hefur fyrirtækið kynnt áfrom um næstu kynslóðar Game Boy, sem kallast SP. Útáfudagur er 4. apríl.
SonyEricsson P800 einn sá besti!
SonyEricsson P800 snjallsíminn getur spilað MP3, hreyfimyndir og tekið myndir og þetta er aðeins brotabrot af því sem hann getur. P800 síminn sameinar kosti lófatölvu og farsíma. Hann hefur snertiskjá og er hægt að skrifa texta inn í hann á þrjá mismunandi vegu, með handskrift sem skilur íslensku, lyklaborði og 12 stafa takkaborði eins og á venjulegum farsíma. Hann hefur rauf fyrir Sony Memory Stick DUO minniskort sem eru smækkuð útgáfa Memory stick minniskortanna frá Sony, en Memory Stick DUO verða fáanleg bráðlega með 64 MB og 128 MB minni. Eins og góðri lófatölvu sæmir fylgir P800 sérstakur borðstandur með tengi fyrir hleðslutæki og tölvu. Þá er hægt að “samkeyra” dagbók, símaskrá, tasks og tölvupóst úr Outlook og Lotus Notes upplýsingakerfum inn í P800 símann. Hann getur sent og móttekið MMS skilaboð, tölvupóst og SMS, hann hefur 4096 lita skjá og getur ekki aðeins skoðað WAP síður því hann getur einnig opnað flestar vefsíður af venjulegri gerð. Þú getur kynnt þér kosti P800 á http://sonyericsson.com/P800.
Nokia sendir frá sér leikjatölvusíma
Finnska farsímafyrirtækið Nokia gefur nk. fimmtudag út fyrsta tækið sem sameinar kosti farsíma og leikjatölvu. Leikjatölvusíminn nýi ber heitið N-Gage. Þá kemur einnig í ljós hvaða leikir standa notendum N-Gage til boða og með hvaða leikjaframleiðendum hefur verið starfað.
Þegar leikjatölvusímann bar fyrst á góma í nóvember sl. upplýsti Nokia að meðal annarra hafi verið unnið að þróun símans í samstarfi við Sega tölvuleikjafyrirtækið. Sega þróar leiki fyrir símann og verða þeir fáanlegir á lausum minniskubbum sem Nokia dreifir.
N-Gage tölvuleikjasíminn verður með litaskjá, byggir á grunni Nokia 60 línunnar og notast við Symbian stýrikerfið.
Svo er bara að sjá hvort leikjasíminn nær sér á strik. Nýleg könnun greiningarfyrirtækisins IDC í Asíu hlýtur þó að auka á bjartsýni Nokia, en í henni kom fram að meðal Internetnotenda í sex Asíulöndum er meiri áhugi á leikjum en verslun á Netinu.
Mikið verður nú gaman þegar hann kemur, ætli leiðbeiningabæklingurinn verði ekki þrefallt stærri?
Tíkallasímar í útrýmingahættu!
Um áratugaskeið var tíkallasíma að finna á öðru hverju götuhorni stórborga víðast hvar í heiminum. Þetta tækniundur síns tíma er nú í alvarlegri útrýmingarhættu, tíkallasímarnir orðnir einhvers konar tæknilegar risaeðlur, sem týna tölunni með hverjum deginum sem líður. Farsímarnir hafa leyst þá af hólmi. Í frétt ABC fréttastofunnar segir að bandarísk símafyrirtæki hafi fjarlægt 800 þúsund slíka síma frá því um miðjan síðasta áratug. Innan við tvær milljónir síma standi enn uppi. Í fréttinni kemur reyndar fram að ólíklegt sé að tíkallasímarnir hverfi með öllu – þegar engin inneign er á farsímanum eða hann óhlaðinn gæti verið gott að grípa til þeirra.
Hringitónar góð búbót fyrir tónlistarmenn
Síhringjandi eintóna stef úr farsímum – svokallaðir hringitónar – sem fjölmargir farsímanotendur hafa sett í símana sína eru að verða mikil gullkista tónlistarmanna og samtaka þeirra. Samkvæmt nýrri skýrslu Media Group í London, sem birt var í gær, nam heildarumfang þessara viðskipta á síðasta ári um sjö hundruð milljónum dala eða jafnvel að allt að milljarði - með öðrum orðum 60-85 milljörðum íslenskra króna. Höfundar og samtök þeirra fengu í sinn hlut um sex milljarða íslenskra króna á síðasta ári – 58% meira en árið á undan. Í Reutersfrétt segir að þetta sé sennilega eina grein tónlistariðnaðarins sem blómstar um þessar mundir!
Hringja og henda GSM sími!
Bandaríska tæknifyrirtækið Hop-on hefur hafið sölu á einnota farsímum, sem eru ekki stærri en krítarkort og búa yfir 60 mínútna taltíma. Um er að ræða fyrstu tegundina af einnota farsímum, að sögn nettavisen.no.
Þá kemur fram á heimasíðu Hop-on að hægt sé að fjárfesta í svokölluðu spjallkorti til þess að gera notendum mögulegt að tala enn lengur í símann, sem styður CDMA-og GSM-farsímakerfi. Slíkt kort kostar um 500 krónur. Einnig segir að með símanum, sem kostar um fjögur þúsund krónur, fylgi rafhlaða sem hægt er að hlaða og hleðslutæki.
Ennfremur fylgir Hop-on-farsímanum heyrnartæki/hljóðnemi fyrir handfrjálsa notkun. Hægt er að endurvinna farsímann að notkun lokinni, að sögn Hop-on.
Heimildir: MBL.is
Mikið hagnýtt gildi farsímamyndavéla
í lok október voru eigendur farsímamyndavéla í Japan orðnir tíu milljónir talsins samkvæmt samtölu áskrifenda hjá stærstu farsímafyrirtækjum landsins. Í ljós hefur komið að farsímamyndavélar hafa mikið hagnýtt gildi og fyrirtæki og stofnanir nýta sér þessa nýjung í vaxandi mæli. Tekin eru m.a. dæmi um gildi farsímamyndavéla á vettvangi þar sem slys hefur orðið og sérfræðingar eru fjarri. Þá er unnt að senda myndir með farsímanum beint til sérfræðings sem metur eftir myndinni hvernig bregðast skuli við á slysstað. Einnig er bent á gildi slíkra síma fyrir sölumenn og aðra í viðskiptalífinu.
Mikil ásókn í farsíma með myndavélum
Japanski farsímarisinn NTT DoCoMo hefur selt þrjár milljónir farsíma með myndavélum frá því slíkir símar komu á markað í júní. Farsímamarkaðurinn var orðinn mettur í Japan sem víðar en með tilkomu farsíma með myndavélum hefur þessi markaður heldur betur tekið við sér eins og sölutölurnar bera með sér. Nú eru um 7% áskrifenda japanska fyrirtækisins komnir með slíka síma en 42 milljónir manna nýta sér þjónustu NTT DoCoMo, stærsta farsímafyrirtækis landsins. Þessi nýja tækni gefur notendum kost á því að taka myndir og senda þér með tölvupósti gegnum símann.
Heimildir: ATV
Farsímafyrirtæki rannsaka áhrif farsímanotkunar á heilsufar
Fjögur japönsk farsímafyrirtæki hafa brugðist við vaxandi áhyggjum af áhrifum farsímanotkunar á heilsufar með því að taka höndum saman um viðamikla fjögurra ára rannsókn á hugsanlegum líffræðilegum áhrifum af völdum útvarpsbylgja. Fram kemur í Reutersfrétt að fulltrúi alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar hafi á síðasta ári opinberlega sagt að ekki væri hægt að útiloka tengsl á milli farsímanotkunar og krabbameins án frekari rannsókna. Fyrirtækin fjögur eru NTT DoCoMo, J-Phone, KDDI og Tu-ka Cellular Tokyo.
@GSal Heimildir: ATV
Karlar tala meira en konur í farsíma
Ljóst er að farsíminn hefur breytt heiminum svo mikið að nú tala karlar meira í síma en konur – segir í Netútgáfu Politiken í dag þar sem vísað er í breska rannsókn greiningarfyrirtækisins ICM. Rannsóknin leiddi í ljós að karlar tala í síma - bæði venjulega síma og farsíma – samtals í 66 mínútur á degi hverjum. Áður en farsíminn varð þetta óskaplega þarfaþing sem hann er í dag töluðu karlar fimmtungi minna í síma, eða í 53 mínútur samtals að jafnaði á dag. Meðal kvenna er þessu öfugt farið, þær tala nú minna í síma en áður. Tölurnar frá ICM sýna að konur tala 13% minna í síma nú en þegar best lét, voru áður í símanum 63 mínútur daglega en eru nú aðeins 55 mínútur. Um helgar hafa konurnar þó vinninginn fram yfir karlana. Sjö af hverjum tíu Bretum eru með farsíma í vasanum.
@GSal Heimildir: ATV
Leiðir til að sporna við GSM þjófnaði!
Bresk fórnarlömb farsímaþjófa geta með einu símtali gert símana óvirka og komið þannig í veg fyrir að þeir nýtist þjófunum. Öll bresku farsímafyrirtækin taka þátt í þessu átaki gegn þessu sívaxandi vandamáli en stolnir símar verða einfaldlega ekki gjaldgengir í farsímakerfum í Bretlandi eftir að eigandinn tilkynnir um þjófnað. Þá verða þeir gagnlausir líkt og krítarkort sem tilkynnt eru glötuð. Sérstakt númer fylgir hverjum farsíma, svokallað IMEI númer, sem geymt verður í sérstökum gagnagrunni. Þegar tilkynnt er um þjófnað á síma með tilteknu númeri verður síminn ónothæfur.
@GSal Heimildir:Ananova
Mark! – Myndbrot í símann eftir augnablik!
Knattspyrnuunnendum á Ítalíu gefst nú kostur á að kaupa nýja farsímaþjónustu sem felst í því að fá send mörk úr ítalska boltanum beint í símann. Tæknin er byggt á margmiðlunarstaðlinum MMS – næstu kynslóðar SMS – en það er ítalska farsímafyrirtækið Tim sem markaðssetur þessa nýjung. Skömmu eftir að mark er skorað í leik stórliðanna Inter, Lazio, Roma og Torino á Ítalíu geta notendur séð myndbrot af markinu í símanum. Tilraunir voru gerðar í Svíþjóð meðan heimsmeistarakeppnin stóð yfir með slíka MMS-þjónustu, að því er segir í Netmiðlinum Nyteknik.
Fyrsti þriðju kynslóðar GSM sími Nokia
Finnski farsímaframleiðandinn Nokia kynnti fyrsta þriðju kynslóðar farsíma sinn í dag en sala á honum hefst á næsta ári. Nokia 6650 GSM síminn nýji er búinn litaskjá og stafrænni myndavél og getur sent boð sem innihalda hljóðskrár og myndir þar á meðal stuttar hreyfimyndir.
Sérfræðingar voru ekki hrifnir af símanum og var helsta gagnrýnin sú að talsvert vantaði upp á til að væntingar sem gerðar hafa verið til síma af þessu tagi mundu skila sér sem og þá hefði bandaríski farsímaframleiðandinn Motorola kynnti síma með svipaðan búnað síðastliðið vor.
Því er mér spurt: er Nokia að klikka?????????
Endurunnir GSM símar
Breskt fyrirtæki hóf í dag endurvinnslu á farsímum en árlega er fleygt um fimmtán milljónum farsíma og fylgihlutum þeirra í Bretlandi. Evrópusambandið gaf á sínum tíma út tilskipun þess efnis að framleiðendur farsíma og dreifingarfyrirtæki væru ábyrg fyrir að taka við og endurvinna gamla farsíma frá og með árinu 2004. Í AP-frétt er haft eftir talsmanni fyrirtækisins Shields Evironmental, sem stýrir endurvinnslu farsímanna, að árlega séu grafin í jörð fimmtán hundruð tonn af hættulegum efnum sem tengjast endurnýjun farsíma.