Ævintýralegir konfektmolar - Strange Candy Það er komið rúmlega hálft ár síðan síðast var send inn grein á þetta áhugamál og finnst mér kominn tími á nýja. Það væri gaman ef þessi grein kveikti neistann hjá fleirum til að láta ljós sitt skína.


Mér þykir vert að benda dyggum ævintýrabókmenntalesendum á smásagnasafið Strange Candy eftir Laurell K. Hamilton.

Í safninu er að finna 14 smásögur eftir bandaríska höfundinn Laurell K. Hamilton sem er þekkt fyrir bókaflokka sína um vampírubanann Anítu Blake og einkaspæjarann og álfaprinsessuna Merry Gentry. Allar sögurnar eru í flokki ævintýrabókmennta.

Flestar sögurnar hafa verið birtar áður í smásagnasöfnum eða tímaritum en ég efa að margir íslenskir lesendur hafi haft tækifæri til að lesa þær áður. Eitthvað er um kunnuglegar persónur og heima fyrir lesendur Hamilton. Tvær sögur eru um Anítu Blake og ein saga að auki gerist í þeim heimi sem hún býr í, þótt engin af persónum bókaflokksins komi við sögu. Nokkrar sögur gerast í ævintýraheimi sem Hamilton skapaði fyrir fyrstu skáldsögu sína Nightseer.
Að öðru leyti eru sögunar ákaflega fjölbreyttar. Fyrir koma galdramannafjölskyldur, hamskiptingar, sverð sem krefjast blóðfórnar, óvenjuleg ofurhetja, sæskrímsli og margt fleira ævintýralegt. Í safninu má finna blóð, hrylling, bardaga upp á líf og dauða og dulúð en líka húmor. Hverri sögu fylgja inngangsorð eftir Hamilton þar sem hún segir frá tilurð sögunnar eða hvernig gekk að fá hana birta. Þetta finnst mér mjög athyglisvert og skemmtilegt

Fyrir aðdáendur Anítu Blake er athyglisvert að lesa smásöguna sem Aníta varð til í, Those Who Seek Forgiveness. Sagan er algjörlega sjálfstæð og veitir engar nýjar upplýsingar um persónuna en mér fannst gaman að sjá úr hverju 20 bóka sería varð til. Hin sagan um Anítu, The Girl Who Was Infatuated With Death, er ný og á að gerast á milli Obsidian Butterfly og Narcissus in Chains. Sagan er skemmtileg en en hefur tvo stóra galla fyrir aðdáendur bókaflokksins. Í fyrsta lagi passar hún ekki inn í tímaröðina eftir því sem kemur fram í Narcissus in Chains og í öðru lagi er Aníta eiginlega komin úr karakter í lok sögunnar.

Í hverri einustu sögu fannst mér Hamilton ná að búa til trúanlegan heim, alveg sama hvaða ótrúlegu hlutir fyrirfinnast þar. Mér finnst líka skemmtilegar pælingar hennar um hvernig hið ævintýralega hefði áhrif á okkar venjulega líf ef það væri til. Í A Scarcity of Lake Monsters eru til sæskrímsli í ætt við Loch Ness skrímslið til. Þar er sagt frá samskiptum skrímslisins og vísindamannanna sem rannsaka það. Í Selling Houses veltir hún fyrir sér hvernig það hefur áhrif á störf fasteignasala ef vampírur lifa fyrir opnum tjöldum við hlið annars fólks. Í House of Wizards beinir hún sjónum að því hvernig venjulegt heimilishald gegnur fyrir sig í fjölskyldu af galdramönnum.

Mér fannst allar sögurnar athyglisverðar og eini veiki punkturinn nýja Anítu sagan vegna þeirra galla sem ég nefndi ofar. Ég hafði einna mest gaman af A Lust of Cupids og A Clean Sweep sem báðar stíla inn á húmor. Af alvarlegri sögum stendur A Token for Celandine helst uppúr.

Þegar öllu er á botninn hvolft er Strange Candy nákvæmlega það sem titillinn lofar, konfektkassi af skrítnum en gómsætum molum.

Því miður virðist ekkert bókasafn landsins státa af eintaki en áhugasamir ættu að geta keypt bókina í Nexus, Eymundsson eða í gegnum Amazon eða þesskonar síður. Hún er stundum seld með stuttu skáldsögunni Micah úr Anítu Blake bókaröðinni.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.