His Dark Materials Þetta er ritgerð um His Dark Materials/Myrkraefnaþríleikinn sem ég skrifaði fyrir skólann (ég lagaði hana samt smá fyrir grein). Það eru einhverjir Spoilerar í þessu, svo að ef þú hefur ekki lesið bækurnar og ætlar að gera það ráðlegg ég þér að fara varlega í þetta.
Njótið!


**********

Inngangur

Myrkraefnaþríleikurinn eftir Philip Pullman samanstendur af bókunum „Gyllti áttavitinn“ (The Golden Compass/Northern Lights), „Lúmski hnífurinn“ (The Subtle Knife) og „Skugga sjónaukinn“ (The Amber Spyglass). Þær voru gefnar út á árunum 1995, 1997 og 2000 í Bandaríkjunum. Anna Heiða Pálsdóttir þýddi bækurnar á Íslensku.




Myrkraefnaþríleikurinn

Gyllti áttavitinn
Gyllti áttavitinn fjallar um Lýru, unga stúlku sem býr í Jórdan háskólanum í öðrum heimi. Hún er munaðarlaus og leikur sér með besta vini sínum, Roger, og nokkrum krökkum í nágreninu við að ráðast inná svæði Sígyptanna (eins konar blanda af sígaunum og Egyptum (Gyptians)) og stríða þeim. Í heimi Lýru eiga allir fylgjur (daemons). Fylgjur eru partar af sál manneskjunnar í dýralíki sem fylgir manneskjunum hvert sem þær fara. Þegar menn eru börn geta fylgjur sífellt breytt um ham, en þegar menn fullorðnast taka þær á sig eina mynd og festast í þeim ham að eilífu. Fylgja Lýru heitir Pantalæmon.

Einn daginn er Lýra að skoða betri stofuna í Jórdan í leyfisleysi og verður þar vitni af leynilegum fundi sem Asríel lávarður, frændi hennar, heldur. Asríel lávarður talar um „Duft“ (sem Lýra veit ekki hvað er) og sýnir fræðimönnum Jórdan mynd af landkönnuði, Stanislavius Grumman, á Norðurslóðum (eins konar Norðurpóll, en þó byggilegur). Á myndinni sjást Norðurljós fyrir aftan Grumman, en í Norðurljósunum virðist sjást í borg. Asríel lávarður fullyrðir að þetta sé annar heimur og ætlar að reyna að komast til botns í þessu leyndarmáli.

Stuttu seinna byrja börn að hverfa um allan heim. Lýru verður ekki til setunnar boðið þegar besta vini hennar (Roger) er rænt af Öflurunum sem standa að þessum barnshvörfum. Stuttu seinna er Lýra tekin í fóstur af hinni dularfullu frú Coulter og kemst að því að hún stendur fyrir ógeðfelldum tilraunum á börnum og hefur látið ísbirni á Svalbarða taka Asríel lávarð til fanga. Lýra strýkur frá Coulter til sígyptanna og fær þá til að hjálpa sér við að fara á Norðurslóðir til að bjarga börnunum og Asríel lávarði. Sígyptarnir fallast á það og upphefst þá æsispennandi atburðarás þar sem Lýra verður viðskila við hópinn á Norðurslóðum og þarf að bjarga börnunum sjálf, en einnig sjálfri sér. Henni til hjálpar hefur hún gyllta áttavitann, sannleiksvita sem hún ein getur lesið af, en skólastjóri Jórdan gaf henni hann áður en hún fór til frú Coulter.

Lúmski hnífurinn
Lýra er komin inn í annan heim, besti vinur hennar er dáinn og Asríel lávarður, sem er í rauninni faðir hennar, hefur svikið hana. Hún hittir Will, dreng á sama aldri og hún, sem hefur rápað inn í aðra veröld eftir að hafa óvart orðið manni að bana. Þau fara inn í heim Wills (heiminn okkar) þar sem Lýra hittir vísindamanninn Mary Malone og segir henni frá sannleiksvitanum og Dufti (sem er kallað Skuggar í þessum heimi). Mary Malone finnur leið til að tala við Skugga og segja þeir henni að þeir séu englar og hún þurfi að finna Lýru aftur og hjálpa henni að komast að ætlunarverki Asríels lávarðar. Lýra og Will þurfa hinsvegar að lifa af í Citegazze heiminum þar sem frú Coulter leitar stöðugt að Lýru og kemst Will yfir Lúmska hnífinn, það eina sem „Vofurnar“ eru hræddar við. Með Lúmska hnífnum getur Will skorið í gegnum allt, jafnvel á milli heima og þá hefst leitin að Asríel lávarði fyrir alvöru.

Skugga sjónaukinn
Lýru hefur verið rænt af frú Coulter og Will er aleinn í Citegazze heiminum. Hann hittir tvo engla sem reyna að hjálpa honum við að finna Lýru þar sem frú Coulter heldur henni sofandi í helli. Saman þurfa þau svo að fara til lands hinna framliðnu til að frelsa alla, þar á meðal besta vin Lýru, Roger!
Á meðan er Asríel lávarður að undirbúa stríðið við Alföður og ætlar hann sér að útrýma honum í eitt skipti fyrir öll. Dr. Mary Malone hittir Múlefa, skrýtin dýr sem hafa sitt eigið tungumál og menningu, og kirkjan ræður leigumorðingja til að drepa Lýru.
Allt þetta fléttast svo saman í lokaorrustuna gegn Himnaríki þar sem örlög alls heimsins eru ráðin…


Persónurnar í bókunum

Lýra
Lýra er önnur aðalpersóna bókanna. Foreldrar hennar eru frú Coulter og Asríel lávarður og fylgjan hennar heitir Pantalaimon og getur breytt um ham. Lýra er 12 ára þegar besta vini hennar er rænt og hún þarf að yfirgefa Jórdan háskóla sem hún hefur búið í allt sitt líf til að bjarga vini sínum og frænda (föður) sínum, Asríel lávarði. Lýra er með ljóst hár og blá augu, nokkuð lítil miðað við aldur og er fjörug og úrræðagóð.

Will
Will er besti vinur Lýru (eftir að Roger deyr) og er frá okkar heimi. Hann kemur fyrst fram í Lúmska hnífnum eftir að hafa ráfað inn í annan heim. Pabbi Wills er John Parry, maður sem margir halda að sé dáinn, og móðir hans (nafn er ekki tekið fram) er ekki heil á geði. Eftir að Will drepur óvart mann sem reyndi að fá mömmu hans til að ljóstra upp mikilvægum upplýsingum um John Parry, flýr Will í annan heim. Þar hittir hann Lýru og á eftir að spila stórt hlutverk í lokabardaganum. Will er hörkulegur með dökkt hár og sterk augu sem erfitt er að horfa í. Hann er hugrakkur og áræðinn og gefst ekki upp þó á móti blási. Will fær fylgju eftir að hafa farið til heims hinna framliðnu og er hún í kattarlíki.

Asríel lávarður
Asríel lávarður er frændi Lýru, en seinna í bókunum kemur í ljós að hann er pabbi hennar. Útliti Asríels er ekki lýst í bókunum. Asríel er bæði góður og vondur, hann drepur besta vin Lýru en ræður niðurlögum alvaldsins. Asríel lávarður rannsakar Duft mikið í byrjun bókanna og stýrir árásinni á alvaldið. Fylgjan hans er snæhlébarði.



Frú Coulter
Frú Coulter er móðir Lýru, kaldlynd og miskunnarlaus. Hún myrðir og pínir til að koma sínu fram en elskar Lýru þó mjög heitt. Hún rænir besta vini Lýru ásamt öðrum börnum og gerir ógeðfelldar tilraunir á þeim til að finna leið til að komast á milli heima. Marissa Coulter er ljóshærð og falleg og henni er lýst þannig að það sér erfitt að neita henni um neitt. Fylgja Coulter er gylltur api.

Serafína Pekkala
Serafína Pekkala er norn og góðvinur Lýru, hún spilar einnig stórt hlutverk í lokabardaganum. Hún er mjög venjuleg norn, dökkhærð með úfið hár og fylgjan hennar getur farið eins langt frá henni og hún vill. Fylgja Serafínu er fugl.

Lee Scoersby
Lee Scoersby er mín uppáhalds persóna í bókunum. Hann er gamall loftfarsstjóri og hermaður frá Texas sem kemur Lýru í föðurstað. Hann deyr í annarri bókinni við að bjarga Lýru frá hermönnum, en drepur þá alla í leiðinni. Fylgjan hans er hérinn Hester.

Aðrar mikilvægar persónur eru: Jórekur Byrnsson, John Faa, Farder Coram, Mary Malone, John Parry, Ruta Skadi, Baruk og Baltamos.

Umhverfi og tími

Sagan gerist í mörgum heimum á árabilinu 1990 til 2000. Hún byrjar í heimi Lýru sem er dálítið langt á eftir í menningunni, bílarnir gamlir, ekkert rafmagn og fleira. Önnur bókin gerist í tveim heimum. Okkar heimi og Citegazze heiminum. Citegazze heimurinn inniheldur aðallega spillt börn þar sem „Vofurnar“, sem nærast á Dufti, sjúga sálina úr fullorðnum (J.K. Rowling, höfundur Harry Potter bókanna hefur fengið innblástur af þeim). Þriðja bókin gerist svo í mörgum heimum, heimi framliðinna, himnaríki o.fl. Í lok sögunnar er Lýra komin aftur í gamla heiminn sinn.




Lokaorð

Myrkraefnaþríleikurinn er einhver besti bókaflokkur sem ég hef lesið! Engir gallar á sögunni, persónusköpunin frábær og umfjöllunarefnið mjög áhugavert!
Bókin var upphaflega skrifuð fyrir börn, en inniheldur grófar og ítarlegar ofbeldislýsingar svo hún er alls ekki fyrir ung börn. Hún er jafnframt mjög flókin og þung.
Frábærar bækur sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara!