Hvað á þetta svo sem að sanna, og hvað í ósköpunum er efasemdarmönnum ætlað að afsanna?
Er mönnum ætlað að afsanna að amma þín hafi upplifað eitthvað? Það er bara því miður ekki ein einasta leið til þess. Stundum er hægt að sýna fram á að fólk ljúgi (eins og ef það segist hafa séð kött nágrannans úti í garði á einhverjum tímapunkti, þegar raunin er að kötturinn hafi verið inni eða á Kattholti þann dag), og stundum er hægt að sýna fram á að fólki hafi missýnst (þegar kötturinn var í raun rotta). Hins vegar á þetta ekki nærri því alltaf við. Til dæmis er ekki ein einasta leið fyrir mig að sanna að það sé tölva fyrir framan mig, hvað þá að sanna að ég sé t.d. þyrstur eða með tannpínu. Þaðan af síður get ég (eða hver sem er, ef því er að skipta) sannað að þú sért með tannpínu, jafnvel þegar þú ert sárkvalinn. Hvernig í ósköpunum er þá hægt að ætlast til að einhver sanni (eða afsanni) að það sem amma þín segir að hafi gerst, hafi í raun og veru gerst? Getur þú sannað að þetta hafi gerst?
Og hvað eiga menn að útskýra? Hvernig þetta gæti gerst? Það er hægt að gefa þó nokkrar kenningar. Sú sem liggur beinast við, og er sú sem flestir efasemdarmenn myndu gefa, væri sú að amma þín hefði ímyndað sér þetta allt saman eftir að hafa frétt af andláti afa þíns: Andlát taka oft mjög á fólk og svo virðist sem menn séu afskaplega færir í að létta á spennu og áfalli af þessu tagi með ýmsum leiðum - þetta er þá það sem á ensku kallast “defence mechanism” og ég hef ekki hugmynd um hvað íslenskir sálfræðingar og geðlæknar kalla: Til að auðvelda sér að komast yfir þetta ímyndaði amma þín sér þetta og taldi sér svo trú um að þetta hefði gerst áður en hún fékk fréttirnar. Kaldlyndari menn og þeir sem þjást af of mikilli efahyggju (og væru jafnvel það sem kallast “cynics” eða “cynical”) gætu jafnvel sagt að þetta sé allt saman lygi.
Hins vegar er óþarfi að ganga svo langt (auk þess sem að það er dónaskapur að saka fólk um lygar án þess að hafa einhver áreiðanleg sönnunargögn um að svo sé). Önnur kenning, og sú sem mér þykir mun líklegri er á þann veg að menn einfaldlega hafa þennan eiginleika eða hæfileika, að birtast annars staðar. Þótt vísindi í dag geti ekki útskýrt þetta, þá er ekki þar með sagt að vísindi muni aldrei geta útskýrt þetta. Hvernig þetta virkar hef ég ekki hugmynd um, en það skiptir bara engu máli. Fyrir fimmhundruð árum, eða fimmtán hundruð árum gátu vísindi ekki útskýrt margt af því sem þau geta útskýrt í dag, og stundum bjuggu menn til ansi skrautlegar kenningar (svo nokkur dæmi séu tekin: Til að útskýra hvernig börn yrðu til ímynduðu sumir sér að í sæðisfrumum væru agnarlitlar manneskjur sem síðan stækkuðu og urðu að börnum - sumir þóttust jafnvel sjá þessi smámenni (homunculus) í frumunum. Til að útskýra hvers vegna hlutir féllu niður gerðu menn einfaldlega ráð fyrir því að í sumt efni (vatn og jörð) hefði einfaldlega þann eiginleika að leita niður á við, og til að útskýra hvers vegna sólin og stjörnurnar virtust snúast í kringum jörðina bjuggu menn til hugmyndir um himinhvelin og efni sem er eðlislægt að hreyfast í hringi).
Svo sýnir það ósköp lítið að notendur huga.is geti ekki sannað eða afsannað eitthvað. Ég get ekki sannað að reikistjörnur snúist í kringum sólina eftir sporbaugum og ég get ekki sannað e=mc(2). Ég get ekki einusinni sannað pýþagórasarregluna. En þótt ég geti ekki sannað þá ágætu reglu, þá er það engin sönnun fyrir því að ég hafi rangt fyrir mér þegar ég held henni fram eða beiti henni.<br><br>Þorsteinn.