Mig langaði að skella mér á fund hjá spámiðli, enda ýmsar breytingar í lífi mínu þessa dagana. Ég hringdi upp í Sálarrannsóknafélagið í Reykjavík og bað um tíma hjá besta spámiðlinum þeirra. Áður en þessi frásögn heldur lengra langar mig að benda á að ég er mikill efasemdamaður, og ég tek öllu með fyrirvara þó svo að ég sé ekki alveg lokaður á hin ýmsu dulrænu mál. Hvað um það, Ég fékk tíma hjá Ólafi Hraundal spámiðli og talnaspekingi. Ég mætti þangað örlítið kvíðinn ef þetta yrði bara tóm tjara og vandræðalegt. En fljótlega eftir að hann byrjaði að tala um mig, fortíð mína og nútíð þá kom heldur betur á mig. Það hefði mátt halda að maðurinn væri fjölskyldumeðlimur minn. Hann lýsti ekki bara mér heldur fjölskyldumeðlimum og samskiptum okkar. Hann spáði svo auðvitað í framtíðina og á það allt eftir að koma í ljós. Hann vissi t.d. að ég hafi verið að koma frá útlöndum og hafi dvalist á tveimur mjög ólíkum stöðum í mismunandi löndum og á öðrum þeirra hafi verið gaman en á hinum ekki. Auk þess talaði hann um að ég væri í námi og það væru einhverjar sérstakar breytingar á því eins og að ég væri að skipta um skóla (sem var rétt) svo sagði hann að ég mundi ekki ljúka náminu hérna heima heldur í Bandaríkjunum (sem er einmitt það sem mig langar að gera). Hann lýsti mér sem manneskju sem þoldi ekki stöðnun og þyrfti alltaf að vera að gera nýja og nýja hluti og ögra sjálfum mér, mér fannst ansi merkilegt að hann skyldi hafa komið með þetta karakter einkenni því þetta er eitthvað sem ég tel sjálfan mig ekki bera með mér, ef svo má að orði komast.
Til að binda enda á þetta vil ég endilega mæla með þessum manni ef ykkur langar að komast til spámiðils sem er ekki að hafa ykkur að háði og spotti.