Fyrstu lærisveinar
35Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans. 36Hann sér Jesú á gangi og segir: “Sjá, Guðs lamb.” 37Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.
38Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: “Hvers leitið þið?”
Þeir svara: “Rabbí (það þýðir meistari), hvar dvelst þú?”
39Hann segir: “Komið og sjáið.” Þeir komu og sáu, hvar hann dvaldist, og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.
40Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs. 41Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: “Við höfum fundið Messías!” (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.) 42Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: “Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas” (Pétur, það þýðir klettur).
43Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: “Fylg þú mér!” 44Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur. 45Filippus fann Natanael og sagði við hann: “Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs.”
46Natanael sagði: “Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?”
Filippus svaraði: “Kom þú og sjá.”
47Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: “Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í.”
48Natanael spyr: “Hvaðan þekkir þú mig?”
Jesús svarar: “Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig.”
49Þá segir Natanael: “Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels.”
50Jesús spyr hann: “Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ,Ég sá þig undir fíkjutrénu'? Þú munt sjá það, sem þessu er meira.” 51Og hann segir við hann: “Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn.”
Hæ ég heiti Geir og ég er frændi.