Hvernig er það, hefur einhver upplifað sig í e.k. æðra “yfirnáttúrulegu” ástandi, ferðast út úr líkamanum, skynjað heiminn í nýju ljósi eða fundið fyrir nálægð við æðsta leyndardóm alheimsins? Nei, ég er ekki bilaður og ég er ekki að meina eiturlyfjatengdar upplifanir, en eitthvað í líkingu við það með “náttúrulegum” aðferðum. Kannist þið við að hægt sé að komast í slíkt ástand með einhvers konar hugleiðslu og íhugun, jafnvel dáleiðslu? Eða verður fólk að vera með einhverja meðfædda náðargáfu til þess að geta upplifað svona hluti?
Nú er ég lítið fróður um dulspeki ýmiss konar, og hef satt að segja litla trú á henni, en ég trúi að hægt sé að útvíkka skynjun okkar á heiminum með því að örva líkama og sál á réttan hátt og ná stjórn á því. Ég styð að nokkru leyti kenningar Aldous Huxley og Sigmund Freud, þ.e. ég tel að andlegar upplifanir séu ákveðið ferli í heilanum sem hægt sé að virkja með ýmsum (misvarasömum) hætti. Það skýrir kannski hvers vegna sýnir töfralækna, kristilegra spámanna og fólks sem telur sig brottnumið af geimverum eru eins svipaðar og raun ber vitni. Þannig að það þýðir ekkert að koma með ræðu um orkustöðvar og kristalla, ég trúi ekki á slíkt. En það væri gaman að heyra hvað rökvíst dulspeki- og/eða jógafólk hefur um málið að segja.