Í fyrrinótt (ekki í nótt heldur nóttina á undan) dreymdi mig… Spes draum. Eða, reyndar ekki í fyrrinótt, heldur í svefninum mínum á milli 10 og 13.


Byrjaði þannig að fv. kærasta mín (sem ég enn elska og tala oft við og við erum varla bara vinir núna, höfum nú aldrei verið það) kom í heimsókn til mín… Við töluðum eitthvað saman og bara fínt, síðan fór hún fram og var bara allt í einu horfin. Ég prófaði að hringja í hana, en hún svaraði ekki, leitaði síðan um íbúðina (sem var einhver íbúð sem ég hef aldrei séð áður, en þó næstum alveg einsog mín) að henni, og fór loks inná baðherbergi.

Þar var rautt handklæði breitt yfir baðkarið, og var greinilega eitthvað þar undir. Ég fletti handklæðinu af hálfu baðkarinu og við mér blasti stelpan, alveg náhvít, með tunguna útúr sér og starandi augu, í stellingu sem engin lifandi vera gæti komið sér í nema að brjóta fjölmörg bein, og var greinilega steindauð.

Ég tók því karlmannlega, með píkuskræk og yfirliði, en þá stökk hún uppúr hinum endanum á baðkarinu og sagði að þetta hefði bara verið grín, og síðan lágum við bara þarna og höfðum það gott. Það var bara svona alveg einsog venjulega þegar við kúrum saman, ég neita ekki að smá kynferðisleg hlið kom á drauminn þarna, en síðan vorum við samt bara mestmegnis að kúra og þarna var draumurinn bara mjög fínn.

Síðan fórum við út, gengum mikið um og vorum af einhverjum ástæðum í einhverjum skógi, ákváðum síðan að renna okkur niður einhverja möl, ekki veit ég afhverju, og gengum bara um þarna líkt og ástfangið par og þannig.

Síðan þegar við erum að labba í áttina heim til mín, sjáum við gaur (sem ég kannaðist við í draumnum en man núna ekkert hver er) og stúlku sem er í úlpu og með hettu sem nær 100% í kringum hausinn á henni svo það sést ekkert í hár né andlit. Þá hleypur fv. kærastan mín í áttina heim til mín og segir eitthvað á borð við “Hún fær ekki að gera þetta!”, stingur hin af og ég reyni að hlaupa á eftir henni en þá kemur það mest pirrandi við drauma, þegar maður reynir að hlaupa en er allt í einu heeeeavy þungur og fer hægar en skjaldbaka, þannig að ég missi af henni líka. Ég reyni að húkka mér far heim til mín, er kominn inn í bíl… Og þá endar draumurinn.



Í nótt, eða á milli 10 og 12 núna rétt áðan réttara sagt, dreymdi mig svo annan draum. Ég var í heimsókn í bænum hennar (úti á landi, ég bý í rvk) og af einhverjum ástæðum gisti ég heima hjá henni en hún hjá vinkonu sinni. Síðan vorum við eitthvað úti, með fullt af öðru fólki, þangað til að allt í einu allir fara í mat… Ég fer í mat en uppgötva þá að ég er búinn að týna henni, og stuttu síðar er fólk sem á voðaerfitt með að segja mér eitthvað og ég verð skíthræddur um að hún sé dáin.

En þá er verið að segja að það sé einhver hættulegur morðingi laus, og að hún sé týnd en vinkona hennar hafi fundist dauð. Síðan sé ég þessa vinkonu hennar (sem er einnig kærasta besta vinar míns btw), og já, hún er greinilega steindauð. Ekki eins illa útleikin og fv. kærastan mín í fyrri draumnum, en samt… Já.

Síðan kemur fólk og gefur í skyn að hún sé morðinginn, en eftir stutta stund hætta allar slíkar spekúleringar. Síðan kemur aftur fólk, og er voðatregt á að segja mér eitthvað. Það dregst og dregst og dregst að segja mér hvað þetta er, og ég er orðinn skíthræddur um að hún (fv. kærastan mín fyrir þá sem muna ekki) sé dáin. Síðan, eftir endalausan tíma, fer faðir minn (sem ég veit ekkert hvað var að gera á Höfn, né skil ég hvernig sveitabærinn sem ég ólst uppá á Vesturlandi komst til Hafnar) með mig að leiði sem virðist staðsett í túnjaðrinum heima hjá mér í einhverjum kirkjugarði sem ég hef aldrei tekið eftir áður. Þegar við loksins komum á staðinn benti hann mér á leiði og ég hljóp að því, skíthræddur en varð samt að vita hvað stóð á því… Og þá stóð þar eitthvað nafn á því sem ég hef aldrei heyrt áður, og fyrir neðan stóð annaðhvort “frá Tékklandi” eða “frá Tékkóslóvakíu”. Þá veit ég að það er ekki búið að finna fv. kærustuna mína dauða, hún gæti verið á lífi, en hún er samt ennþá týnd… Og þá vakna ég.

Prófa þá að hringja í hana og heyra aðeins í henni, það hjálpaði svona eitthvað.

Annars… Merkja þessir draumar eitthvað?

Venjulega man ég ekki draumana mína, en síðustu viku hef ég munað 4 drauma um þessa fv. kærustu mína (sem ég samt held enn sambandi við og við erum varla bara vinir núna þó við séum ekki saman), þeir tveir fyrstu voru bara fínir en síðan á þriðjudaginn hef ég lítið getað talað við hana (nema í 4 mín á miðvikudag og 7mínútur áðan) þarsem vinkona hennar sem hún hittir afar sjaldan er í heimsókn, og seinustu tvær nætur hafa draumarnir verið svona…

Voðaspes…

Veit ekki hví ég skrifaði þetta hérna, fann víst einhverja þörf fyrir það.