Mig vantar, eins og marga hér, góð ráð.

Þegar ég var lítil var alltaf kallað á mig en við fengum síðar vitneskju um að það væri bróðir mömmu minnar sem er látinn. Ég hef alla ævi talað mikið við hann, næstum því eins og að tala við sjálfa mig, en ég fann alltaf eins og ég hefði tengsl, og get ekki útskýrt það betur. Þá var langamma mín skyggn og hafði ég alltaf á tilfinningunni að ég myndi sjá framliðna og það gerðist fyrst þegar ég var 10 ára. Ekkert óeðlilegt, maðurinn gekk einfaldlega framhjá mér og niður stigann heima. Þetta var sá sem hafði búið þarna á undan okkur og hefur eflaust verið að athuga með okkur. Mér þótti þetta nokkuð eðlilegt og var ekkert skelkuð, alls ekki. Þegar ég var 13 ára lést bekkjarbróðir minn með sviplegum hætti en ég þekkti hann mjög lítið. Skömmu síðar fór mamma á miðilsfund og hann kom, það var eitthvað sem hann þurfti að segja mér. Hún áttaði sig hins vegar ekki á því hver þetta væri og það kom því aldrei fram hvað.
Fyrir stuttu kynntist ég afar andlega hæfileikaríkum jafnaldra mínum sem opnaði augun mín fyrir þessum hlutum. Ég fór til heilara og hef síðan þroskast smátt og smátt. Draumar mínir segja mér hluti um fólk sem ég ætti ekki að vita en reynast sannir, bæði merkilegir og ómerkilegir. Ég hef líka beðið um tákn og tel mig hafa fengið nokkur þó ég hafi varann á og vilji forðast það að oftúlka svona hluti.
Ég veit að ég á langan veg fyrir höndum, að þroskast meira og efla þessa hæfileika, ef hæfileika má kalla. Stundum finnst mér ég vera hálftýnd, að ég viti ekki hvernig ég eigi að bera mig að þessu, hvernig ég eigi að fara að. Þó að langamma hafi verið miðill hafa foreldrar mínir aldrei rætt þessa hluti og ég kem því eiginlega af fjöllum. Ef einhver getur veitt mér góð ráð, hvort eða hvernig ég eigi að þróa hæfileikana, þá væri það mjög vel þegið. Ég hafði líka hugsað mér að fara til miðils, en gengur hægt að finna góðan sem tekur ekki fjóra mánuði að komast til. Getur einhver bent mér á ágætan miðil?