Mig dreymdi áhugaverðan draum í sumar, nánar tiltekið árla morguns þann 28. júní. Ég var ein heima hjá mér (eða þ.e.a.s. hjá foreldrum mínum). Ég gekk inn í herbergi foreldra minna og opnaði dyrnar sem liggja út í garð og horfði út yfir garðinn. Í stað runna, trjáa og matjurtargarða var endalaus sjór svo langt sem augað eygði. Sjórinn var lygn og fallegur, ég horfði ofan í hann og sá að hann var hreinn. Sem ég stóð þarna kom eldri maður siglandi á árabáti. Hann lagði bátnum og þar sem ég var viss um að hann væri kominn að vitja föður míns bauð ég honum inn. Undir eins fann ég að þessi maður var vingjarnlegur og hafði þægilegt viðmót. Þegar inn var komið sá ég hvar stóð borð á svefnherbergisgólfinu. Á borðinu var flúraður, silfurlitaður antík standur/borð sem á voru þrjár flöskur/karöflur, sem voru líka flúraðar. Ein þeirra var tóm, önnur full af vatni og sú þriðja var full af víni. Á borðinu voru líka ávextir, vínber og fleira. Var ég mjög fegin því að hafa eitthvað til að bjóða þessum gesti þar sem ég var viss um að hann var ekkert á förum; einnig virtist hann heldur ekkert sérstaklega vera að bíða eftir föður mínum, allavega spurði hann ekkert um hann.
Þarna endaði draumurinn og ég vaknaði. Mér leið mjög vel þegar ég vaknaði og fannst ég vera örugg.
Getur einhver ráðið þennan draum fyrir mig?
I´m a daydreamer and a daydream believer