Það gerðist nokkuð heima hjá mér, draugagangur eða eitthvað.
Þetta dreymdi mig fyrir nokkrum mánuðum:
Ég var að horfa í spegil. Þar var einhver gömul kona í síðum hvítum kjól fyrir aftan mig . Ég leit fyrir aftan mig. Þar var enginn. Ég leit aftur í spegilinn. Þar var þessi kona.
Þetta var draumurinn.
Alltaf þegar ég kem til ömmu og afa sé ég mynd af konu. Það er konan í draumnum. Það er langamma.
Mánuði seinna vorum ég og bróðir minn að bóna bílinn hans. Mamma og pabbi voru á Akranesi þetta kvöld. Það byrjaði að rigna svo að við þurftum að fara inn í bílskúr. Þá þurfti bróðir minn aðeins að skreppa inn að ná í ljóskastara, því það var ekki mikið ljós inni í bílskúr. Ég var eftir í bílskúrnum. Allt í einu opnaðist bílskúrshurðin. Ég hljóp inn og sagði bróður mínum frá þessu. Hann sagði að þetta væri allt í lagi, kom með mér inn og lokaði hurðinni. Nokkru seinna gerðist þetta aftur. Við fórum inn og náðum í biblíuna. Hann las eitthvað úr henni og setti hana á hilluna. Allt í einu datt biblían niður af hillunni. Svo opnaðist hurðin aftur. Við lokuðum traustlega og við keyrðum niður á Essó og bónuðum bílinn þar. Þegar við komum aftur var hurðin opin…
Í bílnum á leiðinni sagði bróðir minn mér frá atviki sem gerðist fyrir nokkrum árum í húsinu okkar. Hundurinn okkar gelti eitthvað út í loftið. Svo byrjaði hann að hlaupa niður stigann og þegar hann var kominn niður setti hann lappirnar niður og nákvæmlega þá brotnaði peran inni á baði(baðherbergið er sko niðri).