Tunglfundirnir eru þannig upp settir að það er yfirleitt alltaf einhver einn (stundum 1-3 saman) með fyrirlestur um eitthvað ákveðið efni sem er þá þema þess fundar. Það er þá yfirleitt einhver sem er sérfróður um það eða hefur kynnt sér það sérstaklega. Síðan mega fundargestir spyrja fyrirlesarann og hverja aðra um efnið og í raun og veru eru frjálsar umræður í kringum fyrirlestrana yfirleitt og alger óþarfi að vera feiminn. Eftir fyrirlesturinn leiðast umræðurnar oft út í spjall um dulspeki og magíu almennt.
Það er ekkert aldurstakmark á tunglfundi og allir mega koma. Sá yngsti sem hefur komið var 14 ára og sá elsti að ég held yfir sextugt. Flestir eru þó á bilinu 18-30 ára. Fundargjald er 500 krónur og er það fyrir húsnæði og veitingum. Við borgum yfirleitt ekki fyrir fyrirlesarana okkar, þrátt fyrir alla þá vinnu sem fer í að undirbúa og haldan þessa fyrirlestra.
Þessir fundir eru hugsaðir þannig að maður fari þarna og hitti fólk og bæði læri af öðrum og miðli sinni eigin reynslu til þeirra sem minna vita. Við erum flest sérfróð hvert á sínu sviði (og sumir á mörgum og aðrir byrjendur) og með þessum fundum erum við einfaldlega að nýta okkur þekkingu annarra til að læra meira sem og að kynnast fleira fólki á svipaðri bylgjulengd.
Dæmi um fundarefni sem tekin hafa verið fyrir eru tarot, kabbalah, siðfræði í magíu, Wicca, Thelema, Enochian, særingar og bölbænir, rúnir, stjörnuspeki, gullgerðarlist, launhelgar og lokuð félög, kertagaldrar, galdrar almennt o.s.frv.
Umsjónarmenn tunglfundanna þetta árið eru Nishanti og ég, svo ef það vakna upp fleiri spurningar þá er öllum velkomið að hafa samband.
Kv. divaa