Hér er málið: ég er í svolítilli trúarlegri flækju og ég var að vonast til þess að einhver hér gæti deilt með mér skoðunum sínum um þetta mál. Ég ákvað að setja þetta hingað til að ná að setja ef ekki nema smá af hugsunum mínum niður á ,,blað“ og pæla í þeim og svo er það sú staðreynd að ég hef engann til að tala við um þessi mál í fullri alvöru.
Ég er kristin manneskja, var alin upp í kristni, skírð og fermd og allt það en undanfarið hef ég farið að efast um trúna. Ég á erfiðara og erfiðara með að trúa á Guð, Jesú, biblíuna og allt það. Það er ekki fræðilegur möguleiki fyrir okkur í dag að vita hvort þetta sé satt eða ekki. Einhvers staðar sá ég að Jesú átti að hafa sagt ,,Blessaðir eru þeir sem sjá ekki en trúa samt” eða eitthvað í þá áttina, en það er einfaldlega of erfitt.
Á tímabili ákvað ég að hætta að trúa, gjörsamlega, á allt. Þá tvo daga sem það entist fannst mér ég virkilega vera ,,ein".
Þar sem ég veit ekkert hverju ég á að trúa fannst mér réttast að snúa aftur til kristninnar en ég trúi nú á minn eigin hátt.
Ég hef reynt að lesa mér til um trúmál eins mikið og ég get þar sem ég hef greinilega mikla þörf fyrir að trúa á <i>eitthvað</i> og hef lesið um búddatrú og finnst það eilítið göfugra heldur en kristni, hef lesið mér til um wicca trú og tók því frekar alvarlega á tímabili… og fleira, en aldrei hefur mér tekist að finna mína trú.
Ég væri til í að heyra ykkar sögur, á hvað þið trúið og ef þið hafið skipt um trú, hvernig fóruð þið að því? Ef ég jafnvel íhuga það finnst mér ég vera að snúa baki við Guði, því hann gæti allt eins verið til. Þið sjáið kannski vandamálið…
Eins og ég segi eru allar skoðanir (eða spurningar, þetta er frekar óljóst, erfitt að útskýra þetta) vel þegnar… ekki vera feimin.