Kóperaði þetta af kirkjunetinu:
Mormónar.
Hreyfingin heitir fullu nafni “Kirkja Jesú Krists, hinna síðari daga heilögu”, og segir nafnið nokkuð til um innihaldið og boðskapinn. Þetta er hreyfing sem samkvæmt nafninu vill kenna sig við Jesú Krist, en eins og hann er túlkaður á síðari tímum af nýjum spámönnum. Hreyfingin vill því teljast kirkjudeild, en er ekki samþykkt af heimskirkjunni sem slík, þar sem boðskapur hennar byggir ekki á játningim kirkjunnar og Biblíunni einvörðungu, heldur á sértækum boðskap. Nafn safnaðarins sýnir líka að mormónar trúa því að við lifum á hinum síðustu tímum, að heimurinn sé við dyr dómsdags.
Stofnandi og andlegur faðir Mormóna var Bandaríkjamaðurinn Joseph Smith (1805-44). Hann taldi sig hafa fengið opinberun frá Guði sem hjálpaði honum að miðla helgiriti hreyfingarinnar til mannanna, Mormónsbók, sem átti að hafa glatast fyrrum. Er Mormonsbókin eins konar viðbætir við Biblíuna að mati mormóna. Joseph Smith gaf Mormónsbók út árið 1830. Sagði hann að texti hennar væri þýðing á texta sem hann á yfirskilvitlegan hátt hefði fengið að lesa af gulltöflum. Mormónsbók segir frá því að indíánar Norður-Ameríku séu ættingjar ísraelsmenna er höfðu flutt til Ameríku í fornöld. Jesús átti að hafa birst þessum týnda kynstofni áður en hann steig upp til himna og flutt þeim boðsakp sinn.
Vegna átaka við alríkisstjórnina í U.S.A. og deilur um innihald trúarinnar, urðu mormónar að flýja vestur á bóginn og stofnuðu þeir Salt Lake City i Utah fylki árið 1847. Varð það griðarland kirkju mormóna. Hafði Joseph Smith verið myrtur árið 1844 ásamt bróður sínum og sýnir það kanski best trúarofstækið sem ríkti á þessum árum vestur í Bandaríkjunum. Það var Brigham Young sem tók við hreyfingunni og leiddi hana vestur til Utah. Deilur héldu áfram við alríkisstjónina, m.a. vegna þess að mormónar boðuðu fjölkvæni, sem var bannað í Bandaríkjunum. Fjölkvæni var hafnað af hreyfingunni árið 1890 og eftir það hafa mormónar lagt sig eftir því að vera fyrirmyndar borgarar hins bandaríska samfélags. Í dag hefur hreyfingin mikil áhrif í USA og er mjög auðug.
Draumurinn um hagvöxst, ríkidæmi og einstaklingshyggju á sér ríka stoð í mormónismanum. Mikil áhersla er lögð á hefðbundnar fjölskyldudyggðir, íþróttir, tónlist og menntun.
Má segja að mormónstrú sé einskonar amerísk paradísar trúarbrögð, byggð á ameríska draumnum . Kenning mormónismans um að Jesús Kristur hafi opinberast frumbyggjum í Ameríku er talin sanna að Ameríka sé frá örófi alda fyrirheitna landið. Mun Jesús samkvæmt kenningunni ætla sér að stofna paradís á jörðu einmitt í Ameríku þegar hann kemur aftur, nánar tiltekið í Jackson County í Missouri.
Áður en Joseph Smith var myrtur hafði hann byrjað að segja frá sýnum og spádómum sem hann sagði að Guð hefði birt sér. Með þessum spádómum leiddi hann hreyfingu sína lengra og lengra frá hefðbundinni kristinni trú, t.d. hvað varðar eðli Guðs sem hann taldi að ætti sér efnislegan líkama. Þegar maðurinn deyr flytur hann með sér reynslu sína og þekkingu yfir í næsta líf. Æðsta takmark mormóns er nefnilega það að verða guð einhverntíman á öðru tilverustigi. Hver manneskja getur þannig orðið guð. Til eru fjölmargir guðir sem hver og einn ræður yfir sinni veröld. Sá guð sem mormónar tilbiðja er því aðeins guð þessa heims. Til þess að verða guð, verður maðurinn að trúa boðkap mormónismans, gefa tíund til hreyfingarinnar , halda siðaboðin og standast það próf sem jarðlífið er talið vera. Áður en eilífðin tekur við mun þúsund ára ríkið renna upp. Þá snýr jesús aftur og mun mannkyn allt lúta vilja guðs.
Helgihald í musterum mormónismans er manninum nauðsynlegt til þess að verða guð. Mormónar hafa byggt ein 50 musteri í heiminum, hið stærsta í Utah. Þar er hægtað skíra látna til trúarinnar í gegnum aðra, hvort sem ættingjar eru fyrir hendi eða ekki og hafa ólíklegustu persónur veraldarsögunnar verið skírðar þannig. Fleiri launhelgar fram í musterunum. Það er t.d. skilyrði þess að maður geti orðið guð að hann sé giftur í musteri mormóna.
Fyrir utan Mormónsbók hafa mormónar önnur trúarrit sem aðskilja sig frá hinni kristnu kenningu. Telja þeir að kirkjurnar hafi afbakað hinn rétta boðskap. Í bókinni “kenningin og sáttmálinn” getur að lesa spádóma Smiths og annarra leiðtoga hreyfingarinnar . “Dýrmæta perlan” er annað slíkt trúarrit sem aðeins þeir viðurkenna.
Leiðtogi mormóna kallast forseti og er gjarnan hylltur sem spámaður. Orð hans hafa sama vægi og þeir spádómar sem eru skráðir í ritningum mormóna og í raun er hann einskonar miðill guðs inn í veröldina. Mikil áhersla er einnig lögð á trúboð innan hreyfingarinnar og ungir mormónar gefa tvö ár af lífi sínu til þess að ferðast um heiminn og boða öðrum mormónstrú.