Oft hef ég heyrt því fleygt að djöfullinn væri faðir lyginnar.
Jafnoft hef ég spurt hver er móðirin? Hver fæðir lygina ef djöfullinn býr hana til?
Hvenær verður lygin lygi? Þegar hún er sögð eða þegar einhver trúir henni? Ef að ég til dæmis segði þér eitthvað sem ég vissi að væri lygi og þú mundir ekki trúa mér, væri það sem ég sagði þá bara ekki marklaus orð? En ef þú hinsvegar tryðir því sem ég sagði, væri þá ekki lygin fædd? m.ö.o. orðin fleyg?
Væri ekki rökrétt að segja þá að trúin væri móðir lyginnar?
Hugsið ykkur ef þessi heilagi andi sem kom og barnaði Maríu Mey hafi kannski ekki verið svo heilagur eftir allt saman, að þetta hafi í raun og veru verið faðir lyginnar, djöfullinn sjálfur.
Væri það ekki fullkomnun lyginnar?
Þorri alls mannkyns lifði í algjörri blekkingu þar sem lygin og trúgirni mannsins hafa verið ofin saman og myndað hið fullkomna vopn í baráttu hins illa gegn hinu góða. Það er ekki fyrr en eftir krist að trúarstríðin byrja af þvílíku hatri sem við þekkjum, og síðan þá hafa sprottið upp og eru enn að koma fram allskonar sértrúarsöfnuðir sem útbreiða sama “fagnaðar-erindinu” sem gæti allt eins verið vopnið sem hið illa kom af stað til að sigra hið góða.
Kannski er það ástæðan fyrir því að Drottinn vinnur ekki eins mikið með okkur mönnunum eins og sagt er frá í gamla testamentinu, við höfum lokað okkur inni í okkar eigin fullkomna blekkingavef og erum nú orðin svo stór hluti af lyginni að lygin er orðin trúin, afkvæmið er farið að stjórna.
Hugsið ykkur bara…