Þetta er ekki innri ró og friður. Þú gætir alveg eins sagt að innri friður væri að reykja fullt af ópíumi og liggja í móki.
Auðvitað geta allir slakað á uppi í rúmi á nóttunni, en það er ekki það sem er átt við með innri ró og frið. Ef þú hefur náð innri ró læturðu ekkert mótlæti á þig fá í daglegu lífi og eltist ekki við hluti sem þú heldur að veiti þér hamingju. Ekkert truflar þig og þú sérð heiminn nákvæmlega eins og hann er, hvorki góður né vondur. Allt bara er, og þú getur glaðst yfir því.
Fólk getur kannski fengið nasasjón af þessu í hugleiðslu, en ef menn ná algjöru samadhi/nirvana/zen/gnosis held ég að það sé frekar erfitt að lifa eðlilegu lífi eftir það. Ég held að það sé ekki sniðugt að öðlast innri frið fyrr en eftir kannski fimmtugt eða sextugt. Innri ró getur nefnilega verið dead-boring. Það er ekkert nýtt og engar framfarir í innri ró, hún hefur verið eins í mörg þúsund ár og verður alltaf eins. Þegar þú áttar þig á sannindunum er það algjör klisja sem allir þekkja og enginn nennir að hlusta á, enda eru þau algjörlega óskiljanleg fyrir þá sem hafa ekki upplifað þau.
Leyndardómurinn á bak við innri ró er að “lifa í núinu”. “Að finna sjálfan sig er að finna að það er ekkert sjálf” og “allt er eitt”. Hver kannast ekki við þessar klisjur? Innri ró er að upplifa þessar klisjur af öllum lífs og sálar kröftum. OK, gott og blessað. En hvað svo?