Það hafa verið hér áður greinar um hvort sálir og/eða látnir geti vitjað manns. Ég er þeirra skoðunar að svo sé.

Ein eldri kona sem ég þekkti, hún var góð vinkona ömmu minnar og fjölskylda þessarar konu hefur alla tíð verið gott vinafólk ættar minnar. Snemma á síðasta ári frétti ég að þessi kona væri með krabbamein og hún væri í geisla og efnameðferð gegn því. Mér þótti þetta leitt en spáði ekkert frekar í þessu, aðallega þar sem að ég hafði lítil samskipti við hana.
Svo í ágúst á síðasta ári, þá hitti ég þessa konu í áttræðisafmæli ömmu minnar. Hún virtist við góða heilsu og ég vissi ekki betur en að geisla og efnameðferðin virkaði alveg ágætlega hjá henni.

Í byrjun desember á síðasta ári, þá dreymdi mig að ég var staddur á gamalli stoppustöð hér í Hafnarfirði (á móti nýja Iðnskólanum) og mér til mikillar undrunar og þá stóð þessi kona við hliðina á mér og við vorum að spjalla saman. Allt í einu segir hún við mig; ,,Jæja, núna á ég stutt eftir”. Við ræddum eitthvað aðeins áfram og svo lauk draumnum og ég hrökk upp af honum. Mér þótti þessi draumur undarlegur þar sem að ég vissi ekki betur en að hún væri við ágætis heilsu. Strax daginn eftir ákvað ég að forvitnast um það hvernig þessari konu liði. Þá frétti ég það að hún lá fársjúk heima hjá sér og það var talið að núna væri að styttast í þetta hjá henni.
Tæpum þremur vikum seinna dó hún.

Þarna þótti mér augljóst að hún hefur viljað láta vita af sér að það væri stutt í að hún myndi yfirgefa þennan heim. Af hverju lét hún mig vita? Ég veit það í raun og veru ekki, en kannski hef ég verið mjög móttækilegur á þessu tímabili og henni hefur því þótt auðvelt að vitja mín.

Þessi draumur sýndi mér að sálir geta vitjað manns þótt að sjálfur ,,persónuleikinn” viti ekki af því. Enda að mínu áliti er sálin allir þeir persónuleikar sem maður hefur nokkurn tímann lifað sem og meira til. Sá sem maður er hér á jörðinni á þessum tíma er einungis hluti af sálu manns ef svo má orða.

Jæja, ég læt þessu þá lokið í bili, en ég er núna að byrja á því skrifa nokkrar greinar sem munu fjalla um hinar ýmsu hliðar Dulspeki og kem ég til með að birta þær hér.

Kveðja,
Íva