Þetta byrjaði fyrst þegar ég var 9 ára. Ég var búin að vera veik lengi með lungnabólgu og heilsan flakkaði svona upp og niður. En loks fannst mér ég vera alveg nógu frísk og dreif mig í skólann. Tveimur nóttum síðar var blindbilur úti og ég var uppi í rúmi að reyna að sofna þegar allt í einu lýsist upp herbergið og ég sé svartklæddan mann standa við rúmgaflinn horfandi beint í augun á mér. Hann hélt hendinni út og gerði krossmark yfir mér og sagði. \“Þú verður að fara varlega\”. Eins og geta má var ég skjálfandi af hræðslu en reyndi að telja mér trú um að þetta væru bara einhverjar ofsjónir. Daginn eftir veiktist ég af heilahimnubólgu. Þegar ég loks kom uppá spítala var hitinn farinn yfir 40 stigin, nýrun að hætta að starfa og ég með óráði. Læknarnir sögðu mömmu og pabba að ég myndi ekki lifa þetta af. En einmitt þegar hjartað var að hætta að slá sá ég þennan mann aftur. Hann stóð nú yfir mér og sagði við mig: það er ekki komið að þér. Við það ákvað ég að ætla sko ekkert að fara úr þessum heimi strax og fyrir einhvert kraftaverk þá náði ég fullum bata á 2 vikum eftir þetta.
Síðan var ég alveg hætt að spá í þessum manni og þessu öllu þangað til í nóvember síðastliðinn. Ég var eins og síðast upp í rúmi þegar herbegrið lýstist upp og maðurinn stóð aftur við rúmgaflinn. Hann horfði í augun á mér og sagði: \“Veslingurinn, nú byrjar þetta aftur\”. Eins og síðast fékk ég heilahimnubólgu á ný en mun hættulegri gerð í þetta skiptið og fúkkalyfin sýndust ekki vera að bera neinn árangur. En allan tímann meðan læknarnir voru að stússast í að halda mér á lífi stóð þessi maður við hliðina á mér og hélt um hönd mína. Ég náði ekki fullum bata eftir síðari heilahimnubólguna en var talin heppin að lifa hana af.
Þegar ég kom heim ákvað ég að athuga hver þessi maður er. Fór til ömmu minnar og lýsti manninum og sagði henni frá þessu. Þá kemur í ljós að þessi maður er fornafi minn sem var prestur og fór á milli húsa til að sitja yfir veiku fólki. En einn daginn þegar hann var á leið milli húsa varð hann úti.