—-
Kennimark Kölska er bók samansett af tveimur ritum frá 17. öld. Hið fyrra sem kallast Character bestiæ var skrifað af Páli Björnssyni úr Selárdal. Hann var menntaður sýslumannssonur og var talinn vera í hópi lærðustu Íslendinga á 17. öld. Hann var vígður til Selárdalsþinga árið 1645 og hélt það kall til dauðadags 1706. Páll giftist Helgu Halldórsdóttur sem veiktist af sérkennilegum sjúkdómi og var göldrum kennt um. Hjónin ákærðu Jón Leifsson fyrir galdra og var hann sekur fundinn og brenndur 1669. Hinsvegar náði frúin ekki fullum bata þótt Jón hafi verið brenndur og varð það til að sjö menn og ein kona voru brennd fyrir galdra á næstu árum. Character bestiæ var samin 1674 þegar galdraógnirnar stóðu sem hæst.
Daði Jónsson er talinn hafa skrifað seinna ritið sem upphaflega var nefnt Einföld declaration en er hér nefnd Um Galdra. Hann var trésmiður að mennt en fékk svo sýslumannsembætti 1663. Hann var giftur Margréti Pétursdóttur og áttu þau þrjú börn. Daði drukknaði er Höfðaskip fórst fyrir Langanesi 1682.
Ritin eru gefin út saman af Ísafoldarprentsmiðju HF árið 1976 og sá Lýður Björnsson um útgáfuna.
Character bestiæ er vítt rit þar sem Páll fer út í hinar ýmsu tegundir af galdri, hjátrú og öðru af álíka ónáttúru. Það sem fer ekki milli mála í gegnum ritið er sú skoðun Páls að allur galdur er af djöflinum kominn.
Í fyrstu köflum ritsins fer hann út í það að útskýra leturgerð og hinar íslensku rúnir sem þekktar voru til galdurs. Þrátt fyrr að Páll hafi ekki mikið álit og nánast fyrirlýtur þvílíkan djöflahátt þá býr hann yfir mikilli vitneskju þegar það kemur að fjölkyngi. Hann bendir samt staðfastlega á að galdur sé í raun og veru ekki til heldu eru þetta allt gjörðir djöfulsins. Eins og sagt er í ritinu: „En sérhvör má vita það rúnir í sjálfu sér hafa ekkert fjölkyngi og engan kraft nema vegna þess samneytis, er galdramenn gjöra við djöfulinn.“ Hann fer einnig í gífurlegum smáatriðum út í hugmyndir um galdramenn og vitnar í gamla testamentið þar sem mikið er talað um þessa útsendara djöfulsins. En með því útskýrir hann ýmsar tegundir galdurs og galdramanna, allt frá spámönnum, völvum til tungukrafts (sem er sennilega það sem við tölum vanalega um sem orðagaldur). Hann bendir einnig góðfúslega á að enginn galdramaður eða kona geti beygt undir sig djöfullinn heldur sé djöfulinn aðeins að spila með þau og leyfa þeim að halda svo meðan það er í raun hann sem heldur í taumana. Svo heldur hann áfram að tala um ýmsar tegundir af galdri með nákvæmum skrifum rétt eins og með rúnirnar í fyrri köflum. Allt frá hinum klassísku lýsingum af nornum sem sjóða börn og borða þau til 10 tegunda af spádómsaðferðum.
Páll tekur þó nokkra kafla í það að ræða um djöfullinn, óheyrilegu dýrkunina sem honum fylgdi og gjörðir hans. Hann heldur sig ekki aðeins við biblíuna heldur bendir hann á það hvernig djöfullinn kemur fram í ýmsum öðrum trúarbrögðum svosem grískri goðafræði. Hann vitnar einnig í biblíusögur og grískar sögur þegar hann talar um uppruna galdra og læri þess, eins og galdrabók sem Raziel nokkur fallinn engill átti að hafa fært mönnunum.
Eftir það fer hann að ræða ýmsar mismunandi ónáttúrur úr hinum ýmsu sögusögnum svosem incubum, hálfguði, satyros og fjölkunnuga faróa. Hann fjallar stuttlega um mörg af þessum fyrirbærum og fjallar að lokum lítillega um álfafólk.
Seinna ritið eftir Daða Jónsson, Um Galdra er heldur styttra. Hann fer aðeins meira inn á varnir manna gegn göldrum sem kemur ekki fram í riti Páls. Í fyrsta kaflanum fjallar hann um ýmsa hjátrú, sem hann setur í raun fram sem staðreyndir, sem eiga að vinna á móti galdri. Til dæmis má nefna að kvistar af ólífutré, brennisteinn og steinar á við jaspis og kórall átti að virka sem vörn gegn djöflum og galdri. Hann nefnir ekki aðeins varnir sem notaðar hafa verið hér á landi heldur einnig í mörgum öðrum löndum Evrópu.
Í seinni köflum talar hann um það að fólk ætti að forðast það að leita hjálpar og lækningar hjá fjölkunnugu fólki því að það er herfileg synd. Hann nefnir það hvernig fjölkunnugir eru að vanbrúka heilagt orð með galdralækningum sínum og hefur mörg dæmi um þessi mál. Eins og hann segir „Djöflarnir lækna ei öðru vísi en að gefa upp að kvelja þá, þeir hafa byrjað að kvelja, og að þeirra lækningar séu falskar“. Hann talar um að það sé oft djöfullinn sem gerir mennina veika til þess að þeir fari að dýrka hann í von um hjálp og lausn á þeirra málum. Í áframhaldi fjallar hann um nokkrar sögur um galdralækningar.
Loks fer hann í nokkur atriði eins og að ræða innsigli Salómons og Beelzebub og er þetta svipað til fyrra ritsins þar sem hann stiklar á nokkrum ótengdum fyrirbærum. Nema auðvitað að Salómons innsigli er vel þekktur verndargripur sem verndar fólk ekki aðeins gegn hinu illa heldur gegn óhappi einnig. Út frá innsiglinu er talað um rótina Mandragora sem er þekkt galdrarót og sagt frá með nákvæmni hvernig skal ná þessari rót. Eftir það talar hann lítillega um særingar og stormgaldra.
Þessi bók og þessi rit eru ekki þau auðlesnustu rit sem má finna en enda eru þau rituð á 17. öld. Kaflarnir eru nokkuð á þvers og kruss og hefðu mátt vera betur settir upp og farið er yfir einstaklega mikið efni. En þrátt fyrir að bókin sé ekkert sérstaklega auðlesin er gífurlega mikið magn af upplýsingum um galdra á 17. öld þar að geyma. Ekki aðeins galdra og trú á íslandi heldur út um alla Evrópu. Bókin er full af smáatriðum þegar það kemur að göldrum og djöflaverkum, hvernig einstaka galdrar voru framdir, hvað var notað til þeirra og margar tegundir af sama galdri taldar upp. Þrátt fyrir gífurlegt djöflatal í þessari bók, sem sýnir nú bara hugmyndir manna á þessum tímum, þá er hún uppfull af fróðleik sem er í raun merkilegt að þessir menn hafa búið yfir. Ef til vill var þetta almennari vitneskja á þeim tíma en það er í dag, en því er ekki hægt að neita að Páll úr Selárdal skrifar í ótrúlegum smáatriðum. Ef til vill hefur það eitthvað með það að gera hvað hann ofsótti marga galdramenn og hefur því án efa vitað ýmislegt um þessi málefni.
Ég mæli með því að lesa þessa bók ef viðkomandi er tilbúinn að leggjast yfir bók sem er ekki skrifuð til skemmtunar heldur til að upplýsa fólk um þann djöfullega galdur sem átti sér stað í samfélaginu á þessum tíma.
kveðja Ameza