5. Rætur kristinnar trúar
Inngangur
Eftirfarandi grein fjallar um táknræna merkingu sköpunarsögunnar sem ég birti til hagræðingar í þremur hlutum. Greinin er framhald af greinaflokki sem ég var byrjaður á sem fjallar um rætur kristninnar. Aðrar nýlegar greinar eftir mig fjalla ekki beint um þennan málaflokk en þær eru samt góðar sem ítarefni. Þar er m.a. komið inn á áleitnar spurningar sem vísindahyggju- og efahyggjufólk veltir fyrir sér. Mælt er með því að lesendur kynni sér a.m.k. áður birtar greinar um rætur kristninnar þó þessi grein sé sjálfstæð og standi fyrir sínu. Til glöggvunar tel ég þær upp hér að neðan:
1. Þöglu árin í ævi Jesú.
2. Fyrirheitna landið - misskilningur eða sólstingur semitískra þjóða.
3. Babýlonsk áhrif innan gyðingdóms og kristninnar.
4. Hverjir voru essenar?
1. Mósebók
Kristin heimsmynd og lífssýn hefur í aldanna rás byggt á frásögn fyrstu Mósebókar um sköpun heimsins og mannsins að mér vitandi. Samkvæmt fyrri útgáfu sköpunarsögunnar skapaði Guð heiminn og síðan jurtir, skepnur og menn á sjö dögum fyrir rúmum sex þúsund árum framreiknuðum (1M 1.1-4). Í spádómsbókunum kemur fram að Guð muni að lokum eyða heiminum, sennilega í náinni framtíð, og skapa nýjan himin og jörð þar sem hinir sáluhólpnu lifa að eilífu.
Alkirkjuráðið og Lútherska heimssambandið hefur í raun aldrei komið með afgerandi endurskoðun á viðteknum skilningi kristninnar á sköpunarsögunni þrátt fyrir að hann stangast á við niðurstöður vísindanna um milljarða ára þróun heimsins og lífveranna. Jafnvel hinn íhaldsami páfadómur hefur látið í veðri vaka að sætta verði andstæð sjónarmið trúar og vísinda. Eflaust myndi slíkt uppgjör ógna einingu kirkjunnar þar sem “rétttrúarfólk” heldur til streitu bókstaflegri túlkun á heimsmynd Biblíunnar. Það beitir jafnvel “vísindalegum rökum” til þess að véfengja niðurstöður vísindanna, samanber bók Harolds Coffins, “Óvæntar staðreyndir um sögu jarðar”. Þó það sé ekki einhlítt hvernig túlka megi margræðan texta sköpunarsögunnar má finna dæmi um viðleitni til nútímalegrar guðfræðilegrar túlkunar á sköpunarsögunni, samanber athyglisverðar greinar eftir guðfræðingana Sigurð Pálsson og Gunnar Kristjánsson úr bókinni Grundvöllurinn er Kristur, Salt, 1978.
Tvískinungurinn og togstreitan á milli vísinda og kristni hefur líklega stuðlað að sálarlegum klofningi og firringu vestrænnar menningar öðru fremur. Þetta hefur vafalaust skapað tortryggni, efasemdir, meinhæðni og tómlæti í hugum þenkjandi manna í afstöðunni til trúmála og leitt til óverðskuldaðrar trúar á framfaramátt vísindanna. Guðstrú hefur verið lögð að jöfnu við bókstafstrú á sköpunarsögu Biblíunnar. Nútíma vísindi með þróunarkenninguna að bakhjalli hafa hins vegar verið lögð að jöfnu við efnis- og efahyggju.
Goðsagnaheimur sköpunarsögunnar
Sköpunarsaga Biblíunnar á sér margar hliðstæður við goðsögur og átrúnað “ósiðmenntaðra” ættbálka frumbyggja. Lengi vel litu þess vegna félagsvísindamenn og ýmsir mennngarvitar á goðsöguna sem leifar frumstæðs átrúnaðar og hindurvitni sem nútímamenning væri vaxin upp úr. Kristnum mönnum þykir skiljanlega súrt í broti að fallast á að Guðs orð hljóti slíkan dóm.
Hins vegar hafa mannfræðingar og sálgreinendur, á borð við Malinowsky, Jung og Campbell hafið á ný goðsagnir, þjóðsögur, sagnaminni og ævintýri til vegs og virðingar. Þeir álíta að goðsögur birti myndræn og lifandi minni og tákn djúpstæðrar visku sem spretti úr sameiginlegri undirvitund mannsins. Viskan tjái sig í gegnum táknmyndir í draumum, vitrunum, innblæstri og leiðsluástandi seiðmanna og spásagnamanna. Goðsögum megi líkja við söng eða ljóð sem hafi sína eigin innri merkingu sem höfða til tilfinninga og innsæis utan við svið almennrar skynsemi. Í tengslum við goðsöguna fái hverdagsleg fyrirbæri og umhverfisáhrif djúpa og óræða merkingu sem lýsi því ólýsanlega. Malinowsky segir að í augum innfæddra Kyrrahafseyjaskeggja séu goðsögurnar sönnun þess að til sé stórfenglegri og mikilvægari veruleiki sem stjórni lífi, starfi og örlögum mannsskepnunnar – og öllu lífi á himni og jörðu.
Jesús hafði lag á því að koma dýpri sannindum til skila með dæmisögum og líkingum: “Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum” (Mk 4.11) Vissulega ruglar skynsamt kristið fólk ekki saman vísindum annars vegar og myndlíkingum og dæmisögum trúarinnar hins vegar. Sköpunarsagan og Biblían í heild birta í raun djúpvitur sannindi sem hafa verið leynd og innsigluð “þar til að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana og þekkingin mun aukast” (Dn 12.4). “Því að jörðin mun verða full af þekkingu á dýrð Drottins eins og djúp sjávarins vötnum hulið” (Hb 2.14). “Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt” (Lk 12.2-3).
Þekkingin á leyndardómum Biblíunnar sem opinberast við endalokin vísar ekki til heimsenda eða ragnaraka. Hér er átt við “fæðingarhríðir” sem framundan eru við lok 2000 ára tímabils Fiskaaldarinnar, merki kristninnar, sem markar upphafs nýja tímans, þ.e. gullaldartímabils sem kennt er við Vatnsberamerkið.
Þróunarkenning vísindanna og dulspekinnar
Þróunarkenning Darwins á sammerkt með dulvísundunum að líta á að efnisheimurinn og lífverurnar hafi þróast á milljörðum árum í samræmi við náttúrulögmálin sem eru alls staðar að verki. Þótt frumspekilegar ályktanir liggi utan við svið raunvísindanna kemur það ekki í veg fyrir “trú þróunarsinna” að vitundin sé afrakstur efnabreytinga í anda efnis- og vísindahyggjunnar og því ekki þörf fyrir guðfræðilegar skýringar. Í dulhyggju er ekki gerður slíkur greinarmunur á efni og anda þar sem um tvær hliðar á sama peningi sé að ræða. Hin fleygu orð hughyggjunar um að andinn sé ofar eða æðra efninu hafa því tvíræða merkingu.
Í kristinni trú er Guð skapari heimsins aðgreindur frá sköpunarverki sínu líkt og smiðurinn frá byggingarverki sínu. Það er hið sígilda tvíhyggjusjónarmið sem ég kom inn á í síðustu grein minni um tvíhyggju og heildarhyggju. Í dulhyggju og algyðistrú er byggingarverkið hluti af smiðnum sjálfum sem er allt í öllu. Sálin í sköpunarverkinu er ein en birtist í mörgu.
Efnisheimurinn myndaðist smám saman úr stigvaxandi umbreytingum, sundurgreiningu og samþjöppun andans eða anda-efnisins sem er eitt og hið sama (á sanskrít kallað samkarya). Þegar ákveðnu stigi er náð birtist anda-efnið á efnissviðinu eins og við þekkjum það. Eftir það snýst anda-efnis þróunin við þannig að nú verður það efnis-andi sem snýr aftur til uppruna síns, þ.e. allífisins (á sanskrít kallað pratisamkarya). Það gerist með því að við rétt skilyrði verður efnið kveikjan að lífi sem þróunarlíffræðin hefur útlistað ítarlega á sinn hátt. Með tíð og tíma þróast svo efnis-andinn (lífið) í sífellt margbreytilegri og flóknari (þróaðri) lífverur á efnissviðinu. Efnis-andinn færist þar með sífellt meir í átt að uppruna sínum. Yfir allri þróuninni vakir hinn eilífi, óskipti og óbreytanlegi andi hreinn og tær.
Þrátt fyrir það birtist heimsandinn eins og hér að framan hefur verið greint bæði í hinum ytri veruleika í náttúrunni og í öllum lífverum. Hvernig andinn geti jafnframt verið einn og óskiptur en samt sem áður margklofinn og síbreytilegur og á ýmsum birtingarstigum efnisins er ráðgáta sem vestræn rökhyggja getur ekki útskýrt. Það helgast af því að skv. skilgreiningu getur A ekki bæði verið A og jafnframt ekki A. Í austrænni heimspeki er þó gert ráð fyrir slíkri mótsögn. Í síðustu greininni minni um tvíhyggju og einingarhyggju leitast ég við með samlíkingum við nútíma eðlisfræði að lýsa þessari gátu sem valdið hefur miklum heilabrotum.
Með túlkun kristinnar dulhyggju á sköpunarsögunni má orða þróun lífsins sem svo að andinn gæði efninu smám saman meiri sál (aukið lífmagn) með Orði sínu (Kristi) og birtir í því eigindir guðlegs eðlis síns, sbr. 1M 2.7: “Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leir jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál”. Lífið þróaðist í efninu úr steinaríkinu yfir í lífræn efnasambönd, einfrumunga og fjölfrumunga, plöntu- og dýraríkið sem samsvarar lýsingu fyrstu Mósebókar (1M 1.1-4) sem vitnað var til í byrjun greinarinnar. Þess ber að minnast að hjá Guði er hver dagur sem þúsund ár eins og fram kemur í þjóðsöngnum. Hver hinna sjö daga í sköpun Guðs á sér skýringu í dulspekilegum fræðum sem komið verður inn á í síðari greinum.
Maðurinn kom fram á jarðsviðið þegar efnið var orðið hæft starfstæki fyrir mannkynið sem beið síns vitjunartíma í móðurskauti guðdómsins. Hliðstætt kenningunni um margra milljóna ára þróun lífveranna þarf hver maður margar jarðvistir til að sálin geti náð fullkomnun og þroska til að sameinast uppruna sínum.
Með aukinni sjálfsvitund hefur maðurinn sífellt meiri ábyrgð á framþróun sinni. Hann lýkur síendurteknum jarðvistum sínum að endingu með upprisu sálarinnar úr viðjum efnisheimsins sem rennur saman við anda Guðs fyrir meðalgöngu Krists. Visnú í hindúasið og Dharma í búddhasið samsvarar kristshugtakinu sem er eitt og hið sama. Með upprisunni birtist maðurinn að fullu í mynd Guðs sem hann er skapaður í (sjá 1M 26-27). Í upprisunni endurfæðist maðurinn (barn Guðs) sem sonur eða dóttir Guðs þegar hann verður eitt í Kristi.
Þorri mannkyns á eftir að ganga í gegnum upprisuna engu síður en Jesús Kristur, Búddha eða aðrir dýrlingar ólíkra trúarbragða sem hafa náð hinu æðsta þróunarstigi sálarinnar í efninu (efnis-andans). Það er hin æðsta manndómsvígsla sem reynir hvað mest á þolrifin. Þessir upprisnu meistarar mynda innra helgivald sólkerfisins, Hvíta bræðralagið, í þjónustu við lífið sem ég fjalla betur um síðar.
Manndómsvígsla mannkynsins
Sérstaða Jesú á meðal annarra uppstiginna dýrlinga og andlegra meistara austurins er hin mikla fórn sem hann tók á sig á krossinum vegna sundrungar (ath. orðsifjatengslin við synd) mannkynsins. Þá stóð mannkynið á mótum tveggja tíma líkt og nú og var krossfestingin táknræn fyrir fæðingarhríð hins komandi 2000 ára tímabils fiskialdarinnar.
Slík vígsluathöfn sem mannkynið og sólkerfið á sinn hátt gengur í gegnum með reglulegu millibili á sér stað í lífi hvers og eins manns á mismunandi skeiðum ævinnar. Í ýmsum einföldum samfélögum þurfa til dæmis ungmenni að þreyta þolraunir sem vottun eða staðfesting þess að viðkomandi sé kominn í tölu fullorðinna. Það er upprunalega hugmyndin á bak við manndómsvígslu unglinga sem markast með fermingunni. Ferming er eiginlega staðfesting á að viðkomandi hafi fullorðnast með kynþroskanum. Í kristinni trú vísar fermingin nánar tiltekið til staðfestingar á skírninni því með kynþroska fullorðinsáranna sé ungmenninu fært um að taka meðvitaða ákvörðun um trú sína, þ.e. að viðkomandi ætli að vinna með þróunaröflunum í átt að samruna sínum við allífið sem allt líf stefnir að. Það gefur til kynna að slíkt þróun sé ekki sjálfgefin, sbr. hugtakið öfugþróun. Maðurinn er með öðrum orðum sinnar eigin gæfu smiður, þ.e. gæddur frjálsum vilja sem takmarkast af því að hann verður að sæta afleiðingum gerða sinna sem er í fullu samræmi við orsaka og afleiðinga lögmál náttúrunnar. Ég fjalla betur um það síðar varðandi endurgjalds- (karma-) og endurholdgunarkenninguna með tilvísun í Biblíuna.
Lokavígsla hvers manns er “krossfesting holdsins”, sem táknar sigur andans yfir efninu. Þá rís viðkomandi frá “dauða”. Hann er m.ö.o. laus undan kvöðum eða viðjum efnisheimsins á okkar tilverustigi (myndhöggvarinn Einar Jónsson lýsir því á mjög myndrænan hátt). Þar með hafa þeir náð lokaprófinu eða hæsta þróunar- eða þroskastigi sem hægt er að ná í jarðnesku lífi. Við tekur eilíf sæla, vitundar- og viskuþroski í ríki andans, þ.e. Sat, Chit, Anandam, skv. vedaritum Indverja, sbr. “í húsi föðurins eru margar vistarverur” (Jh 14.2). Sá andaheimur skiptist einnig á sinn hátt í efnis-anda í hærri áttund (æðri vídd) en okkar jarðneska líf. Sá heimur er á engan hátt undanskilinn náttúrulögmálunum frekar en okkar heimur, sbr. hið gamla spakmæli alkemistanna (fornu gullgerðarlistamannanna) að hið efra er sem hið neðra (e. as above, so below), þ.e. svo á himni sem á jörðu eins og það er orðað í faðir vorinu.
Engan enda sér fyrir Þróuninni sem heldur stöðugt áfram í eilífri hringrás sköpunar og eyðingar alheimsins þar sem hver sköpun samsvarar andadrætti Brahmans eins og það er orðað í vedunum.
Í næsta hluta verður haldið áfram með sköpunarsöguna, nánar tiltekið hlutverk dóttur Guðs, konunnar sem ímynd Móðurguðjunnar eins og hún birtist í Evu og Maríu guðsmóður og Quan Yin gyðju búddhatrúarmanna. Þar er og einnig að finna ítarleg heimildaskrá.