“Opið bréf” til Gillisnilla (sjá athugasemdir Gillisnilla í síðustu grein minni: Getur trúin verið holl og góð ef hún er aðeins blekking?):
Ég er sammála þér að þó maður trúi á tilvist hins óútskýranlega, eða amk útiloki ekki tilvist þess, þá sé það enginn mælikvarði á trúhneigð manna, sbr. þótt ég tryði á tilvist drauga væri ekki þar með sagt að ég tignaði þá eða tilbiði. Jafnvel harðsvíruðustu raunhyggjumenn trúa á tilvist hins óútskýranlega en það sé í raun vísindalegt viðfangsefni sem með tíð og tíma finnist lausn á, amk fræðilega séð.
Þú ert samkvæmur sjálfum þér í því að þú færð þig ekki til að trúa á hið “yfirnáttúrulega” ef þér finnst innst inni að það sé ekki satt. Maður finnur næstum til með þér því þú neitar því ekki að hinir trúuðu fái einhvern vinning (“kick”) út á það en það sé of dýru verði keypt þar sem þú “veist” undir niðri að aðeins sé um blekkingu að ræða. Blekking getur aldrei verið sönn og því í andstöðu við þá fullyrðingu trúaðra að trúin sé vitnisburður á Sannleikanum með stóru S-i. Þú ert því í raun “sanntrúaðri” en hinir trúuðu þar sem þú neitar trú sem ekki er samkvæm sjálfri sér.
Reyndar tek ég undir með þér að trú hinna trúuðu sé blekking en þá verð ég líka að taka fram að sama megi segja um raunveruleikaskyn okkar hinna, sama hversu vísindalega þenkjandi við erum vegna þess að skynfæri okkar eru svo takmörkuð að við nemum ekki nema brot af þeim orkubylgjum eða ögnum sem alheimurinn er samansettur úr, sbr. litaskynjun okkar nemur ekki nema hluta af kvarðanum sem ljós er mælt á. Sem dæmi eru flest dýr næmari en við hvað þef- og heyrnarskyn varðar. Vísindatæki okkar eru ekki nema framlenging á skynfærum okkar en jafnvel þau geta ekki afhjúpað blekkinguna nema að takmörkuðu leyti (þau eru góð eins langt og þau ná). Blekking okkar er fólgin í því að við tökum þann heim sem við skynjum sem gefinn og rauverulegan en ekki það sem hann raunverulega er, aðeins brotabrot af heildinni. Við lifum sem sagt öll í blekkingu meira eða minna.
Austurlensk trúspeki kallar raunar heim okkar maya, þ.e. blekkingu eða tálsýn og eru vestrænir heimspekingar eins og Berkerley og Kant á sama máli. Ein af æfingum sem t.d. zen búddamenn og gnani jógaiðkendur stunda er að minna sig í sífellu á að heimurinn okkar sé tálsýn. Þú verður þá að játa að það sé ekki einkennandi fyrir allt andlega þenkjandi fólk að gefa sig á vald blekkingarinnar eins og þú virðist halda.
Er þá í raun nokkur munur á hinni “blindu trú” trúmannsins á goðsagnakennar verur og trú okkar á “haldfestu” efnisheimsins (hann ku vera 99.9…% tómarúm og það sem eftir er öreindir sem ekki einu sinni er hægt að staðsetja eða greina frá ljósbylgjum). Ætti þá ekki hin sanna trú efnishyggjumannsins að vera fólgin í því að þrátt fyrir að vísindin okkar staðfesti að heimurinn sé að mestu leyti tómarúm (ginnungargap?) þá sé til eitthvað sem heitir “áþreifanlegur” raunveruleiki?
Til að öllu réttlæti sé fullnægt þá er heimurinn okkar sem við skynjum afstæður sannleikur þar sem hann er að vissu leyti samkvæmur sjálfu sér og hann hefur ótvírætt notagildi fyrir okkur eins og hann er, sbr. “sykurpilluáhrifin” (e. placebo effect) sem þú minntist á í svari þínu í síðustu grein minni hér á undan. Hvernig heimurinn er í sjálfu sér (“an sich” eins og Kant orðaði það) getum við aldrei með okkar ófullkomnu skynjunum komist að, heldur aðeins hvernig heimurinn er eins og hann snýr að mér (“an mich”), þ.e. að hverjum og einum fyrir sig því ólíklegt er að tveir einstaklingar séu til sem skynja heiminn á nákvæmlega sama hátt) því öll erum við sjálfstæðir einstaklingar, ekki satt.
Þú nefnir að það sé brot á Arkimidesarlögmáli að maður geti gengið á vatni, að ógleymdu þyngdarlögmálinu hans Newtons. Þú segir að það sanni að t.d. kristin trú sé byggð á sandi, þ.e. fölsk. Reyndar gerði Jesú skv. guðspjöllunum lítið úr meintum kraftaverkum sínum vegna þess að þau væru ekki mælikvarði á hið sanna, fagra og fullkomna heldur frekar til þess fallin að leiða fólk afvega. Til er saga um fakír sem þjálfaði sig í að ná valdi á einu af “siddhí-unum” (s.k. yfirnáttúrulegir hæfileikar) sem jógar eru sagðir geta náð valdi á, í þessu tilviki að geta gengið á vatni. Þegar Búddha heyrði það fannst honum lítið til þess koma og benti loddaranum á að hann hefði getað sparað sér ómakið og látið ferja sig yfir vatnið eða gengið yfir brúna fyrirhafnarlaust fyrir smápening. Spurning hvort að svífa um í loftinu, sem “lengra komið” fólk í hjá Innhverfri íhugun kvað stunda sé raunverulega brot á náttúrulögmálunum (kannski bara sjónhverfingar og loddaraskapur) eða hvort að til séu lítt könnuð náttúrulögmál sem upphefji áðurnefnd lögmál læt ég þér og öðrum lseendum eftir að íhuga.
Nú mætti halda að ég sé með þessu að gefa í skyn ég sé algjör afstæðishyggjumaður. Það myndi þýða að sama hversu vitlaus sú trú er sem maður aðhyllist þá eigi hún jafn mikinn rétt á sér sem sá heimur sem hvert og eitt okkar “trúir” að hann lifi í því allt sé blekking þegar allt kemur til alls. Það er fjarri sanni vegna þess að þó að trúin samkvæmt skilgreiningu höndli “yfirnáttúruleg” sannindi þá mega kenningar hennar ekki stríða gegn almennri skynsemi og þekkingu sem upplýstir nútímamenn hafa að mínu viti. Því miður fullnægir að mínu mati hefðbundin kristin trú ekki þeim mælikvarða. Ég hef kynnst ýmsu skynsamlega þenkjandi trúðu fólki sem viðurkennir þetta leynt eða ljóst þó það neiti ekki megininntaki trúarinnar sem er væntanlega hafið upp yfir trúarbókastafinn.
Tilgangur minn með að skrifa greinaflokk um rætur kristninnar sem ég var byrjaður á er í raun hugleiðingar mínar hvernig kristin trú hafi fjarlægst uppruna sínum sem gerir hana framandi og illskiljanlega fyrir margt leitandi fólk sem ekki síst er að finna á þessum dulspekivef. En fyrst og fremst er sannleikann að finna innra með hverjum og einum en ekki samkvæmt fyrirmælum og kenningum trúarbragða eða annarra hugmyndakerfa svo því sé haldið til haga.
Meira um þetta og annað síðar þegar ég hef lokið af útúrdúrunum mínum sem mér fannst vera við hæfi að skjóta inn.