Inngangur

Um árabil ritaði ég greinar um andleg mál, fyrir utan ýmislegt annað, sem birtist í blöðum og tímaritum, og þar á meðal á þessum vef. Ég er menntaður rithöfundur, sálfræðingur og dulspekingur. Ég stundaði jóga í tæplega þrjátíu ár sem ég nam á Indlandi og víða um heim. Mér fannst vanta tengingu við mína eigin kristnu trúararfleifð svo ég hélt áfram leitinni þar til ég fann “týnda hlekkinn”.

Nú stunda ég einkum sambland af hugleiðslu, fyrirbænum og áköllum til árs og friðar í reglu minni Keepers of the Flame Fraternity (Bræðralag ljósbera). Hún var stofnuð af “greifanum” og andlega meistaranum Saint Germain, sem þýðir hinn helgi bróðir. Hann er m.a. þekktur á fyrri öldum sem einn af stofnendum rósakross- og frímúrarareglna í Evrópu, og síðar í Bandaríkjunum með öðru sniði. Ég mun fljótlega birta grein um hann.

Fyrsta greinin í þessum greinaflokki gefur tóninn því hún fjallar um meinta dvöl Jesú Krists á Indlandi, Tíbet og víðar þar sem hann fékk umfangsmikla skólun í búddískum og hindúískum fræðum, þ.á.m. jóga, áður en hann hóf að breiða út fagnaðarerindið í Palestínu.

Þar á eftir mun ég birta úrval af lítillega endurskoðuðum greinum, sem birst hafa á þessum vef og víðar um sambland af kristinni (gnóstískri) og austurlenskri dulhyggju með guðspekilegu ívafi, ekki síst vegna nýrrar kynslóðar lesenda ásamt öðrum til upprifjunar. Það tel ég einnig vera mikilvægt vegna samhengis þess sem á eftir kemur. Ég bendi jafnframt á að með því að fletta upp í greinasafni mínu á þessum vef má finna úrval af greinum um annað dulspekilegt efni í hæsta gæðaflokki.

Ef greinarnar falla í góðan jarðveg mun ég halda ótrauður áfram þar sem frá var horfið (sbr. dæmisagan um sáðmanninn í 4. kafla Markúsarguðspjalls). Ég hvet þar af leiðandi lesendur eindregið til að koma með málefnalegar athugasemdir, fyrispurnir og gangrýni svo að frjóar umræður geti myndast.



Æviár Jesú á Austurlöndum

Ýmsar sögusagnir og getgátur eru á kreiki um hvað á daga Jesú hefur drifið sem ekki er fjallað um í Nýja testamentinu. Almennt er hann talinn hafa verið “föðurbetrungur” og smíðalærlingur sem vart hleypti heimdragann eftir heimkomuna frá Egyptalandi. Óstaðfestar fregnir greina frá því að hann hafi verið ötull við að tileinka sér þá trúarspeki sem þekkt var á hans tímum. Sagt er að hann hafi kynnst trúarreglu Essea, sem voru trúræknir gyðingar, nánar tiltekið nasíreum sem ekki allir vita að hann er kenndur við. Hann kvað hafa verið vígður inn í launhelgar í Karnak og Luxor á Egyptalandi. Munnmælasögur segja að á barnsaldri hafi Jesús dvalið um hríð á meðal keltneskra drúída á Bretlandseyjum. Frændi hans Jósef frá Arímaþeu átti að hafa stundað þar tinviðskipti við Breta. Um þetta leyti voru fjörutíu drúídaháskólar á Bretlandi þar sem sextíu þúsund nemendur af háum stigum lögðu stund á nám ásamt sonum tiginna manna hvaðanæva að úr Evrópu. Glastonbury var mikilvæg andleg miðstöð fyrir drúídasiði. María guðsmóðir á að hafa ferðast til Fatíma í Lourdes, Írlands og Bretlands eftir krossfestingu Jesú til að undirbúa jarðveginn fyrir hinn nýja sið. Ferðir hennar tengjast sögnunum um Arthúr konung, seiðprestinn Merlín og riddara hringborðsins sem leituðu hins heilaga kaleiks síðustu kvöldmáltíðarinnar sem hún á að hafa haft með sér (ýmsar túlkanir eru til á þeirri goðsögn, sbr. bókin, Da Vinci lykillinn eftir Dan Brown). Samkvæmt Joseph Smith, spámanni Mormóna, birtist Jesús afkomendum Ísraelsmanna í Bandaríkjunum eftir upprisuna.

Þrálátar munnmælasögur greina frá dvöl Jesú á Austurlöndum. Mikla athygli vakti þegar rússneski fréttamaðurinn Nicolas Notovitch kvaðst árið 1887 hafa komist yfir fornfáleg handrit í Hímis sem er afskekktur klausturstaður Ladakh sem áður nefndist Litla Tíbet. Skjölin greindu frá því hvað Jesús hafðist að á “árunum þöglu” á milli þrettán ára aldurs og þrítugs. Ritin eru kennd við dýrlinginn Issa eins og Jesús var nefndur á þessum slóðum. Þeim ber í stórum dráttum saman við frásagnir guðspjallanna um starf Jesú í Palestínu og sögu Gyðinga samkvæmt Gamla testamentinu. Fyrstu frásagnirnar skráðu Indverjar, sem kynntust Jesú, þremur eða fjórum árum eftir krossfestinguna. Yngstu ritin voru frá 2. öld e.Kr. Frá Indlandi voru ritin flutt til Nepals og skráð á palí og að lokum flutt til Tíbets og þýdd á tíbetsku.

Árið 1894 gaf Notovitch Issahandritin út. Bókin nefndist “Hin óþekkta ævi Jesú Krists”. Nokkrir velmetnir fræðingar og landkönnuðir fylgdu ferðalýsingu Notovithchar og staðfestu fund hans. Eftir að kínverskir kommúnistar lögðu undir sig Tíbet hafa handritin horfið sporlaust og ekkert til þeirra spurst.

Samkvæmt þessum handritum slóst Jesús í för með indverskum verslunarleiðangri til Indlands þegar hann var á fjórtánda ári. Þar lagði hann stund á vedísk fræði hindúapresta við Gangesfljót og síðar búddhísk fræði í Nepal og Tíbet þar til að hann var orðinn fullnuma. Issa læknaði sjúka og boðaði fagnaðarerindið á einfaldan og skýran hátt. Hann deildi á geistleg yfirvöld fyrir hræsni, falskenningar, skurðguðadýrkun og dauða bókstafstrú. Hann braut erfðastéttalögin á Indlandi með því að bera hag lítilmagnans fyrir brjósti og kenndi að lögin urðu til mannsins vegna en ekki vegna laganna. Maðurinn gæti snúið sér beint til Guðs og þyrfti ekki á falskenningum prestanna að halda sem kúguðu þá. Issa lofsamaði konur og kallaði þær mæður alheimsins. Alþýðan elskaði og dáði þennan dýrling en geistleg og veraldleg yfirvöld óttuðust hann og ofsóttu (Issa handritin eru til í íslenskri þýðingu sem síðar verða birt á þessum vefi). Ýmsar óskráðar og skráðar helgisagnir á Austurlöndum bera sögunum um Issa vitni. Eftir að hann kom aftur til sögunnar í Palestínu tók hann óspillt til málanna: “Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins” (Mt 24.27).


Hugleiðingar

Einkum hafa frjálslyndir nýguðfræðingar kappkostað að rannsaka sögulega þróun kristindómsins með hliðsjón af andlegum straumum í samtíð Jesú. Ýmsar niðurstöður þeirra hafa mætt andstöðu og tortryggni íhaldssamari guðfræðinga. Kirkjuleg yfirvöld virtust óttast að ef viðurkennt yrði að stórfelldra heiðinna áhrifa hefði gætt á kristindóm yrðu bornar brigður á óviðjafnanlegan frelsunarboðskap og guðdómleika Krists. Því skal engan undra þó að fullyrðingar um dvöl Jesú á Austurlöndum og tengsl gyðingdóms og kristinnar trúar við austurlensk trúarbrögð kunni að virka framandi.

Þessi handritafundur er ein af mörgum vísbendingum sem gefa til kynna að rætur kristninnar liggi mun dýpra og víðar en almennt hefur verið álitið. Sagan um vitringana frá Austurlöndum er þar á meðal (sjá Mt 2.1,2).

Kristur viðurkenndi lögmálskenningar Gyðinga, sem hann hafði undraverðan skilning á frá tólf ára aldri (sjá Lk 2.46-47). Hann sagðist ekki vera kominn til að afnema þau heldur uppfylla (sjá Mt 5.17).

"Sá sem var ljós heimsins – bestur allra mannssona – hlýtur einnig að vera uppfylling allra trúarbragða heimsins, lifandi dæmi þess sem koma skyldi og sem vænst var … einnig út frá öðrum kennisetningum og trúariðkunum en okkar eigin
Elizabeth C. Prophet. 1984 , s. 363.

Þar sem Kristur hafði tileinkað sér allt það besta úr öðrum trúarbrögðum gat hann með sanni sagt: “farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum” (Mt 28.19).

Kirkjuyfirvöld virðast hafa í tímans rás leynt eða ljóst hoggið á þessar fornu austurlensku rætur kristindómsins sem fagnaðarerindi Krists hóf upp í æðra veldi. Lausnin á hugsanlegum tilvistarvanda kristninnar felst að mínu mati í að kirkjan tæki til greina vel rökstuddar rannsóknir á uppruna kristindomsins. Þá er von til að kirkjan megi endurvekja glæsta menningararfleifð kristninnar og gera kristindóminn að uppfyllingu allra trúarbragða. Fjölmargir sem aðhyllast dulspeki, nýaldarhyggju, austræn og önnur trúarbrögð en kristni ættu þá að geta meðtekið fagnaðarerindið heils hugar.


Heimildir

Elizabeth C. Prophet. The Lost Years of Jesus. Documentary evidence of Jesus' 17-year journey to the East. Summit University Press. 1984, 1987. (Bókina er hægt að panta á www.tsl.org. Einnig eru til bækur eftir höfund í versluninni Betra Líf í Kringlunni)

Holgen Kersten. Jesus Lived in India. Hin unknown life before & after the crucifixion. Element. 1994.