Þetta er ritgerð sem ég gerði núna í vetur í íslensku. Ég vil taka fram að ritgerðin er mín eign og að ritstuldur er bannaður á Huga. Ég lét heimildirnar fylgja hérna með svo þeir sem vilja geti lesið sér meira til um málið.
Draumatrú Íslendinga
Inngangur
Íslendingar hafa ætíð verið stoltir af þjóðerni sínu, tungu og öðrum þjóðareinkennum. Sérstaklega þó sagnahefð sinni og þjóðsögum. Ætla mætti að nútíma Íslendingur áliti gömlu þjóðtrúna vera samansafn af kreddum og bábiljum sem gaman er að hafa upp á punt og lesa um í bókum. Við gerð þessarar ritgerðar kom heldur betur annað í ljós.
Íslenska þjóðtrúin lifir góðu lífi enn og birtist í mörgum myndum. Sú tegund þjóðtrúnnar sem stendur þjóðinni næst er draumatrúin en hún hefur hefur lifað af byltingu iðnaðar, tækni og vísinda. Hér á eftir verður aðallega fjallað um draumatákn og draumasiði Íslendinga og rannsóknir á þessu efni. Auk þessa er freistandi að spyrja hvort draumatrúin hér sé frábrugðin draumatrú annarra þjóða.
Draumatrú og draumasiðir Íslendinga
Draumar hafa frá upphafi verið mikilvægur partur af menningu okkar hér á Fróni. Rannsóknir hafa sýnt að Íslendingar séu almennt hjátrúarfyllri en flestar aðrar þjóðir og þar kemur draumatrúin sterk inn. Allt frá tímum íslendingasagna má finna sagnir um drauma sem höfðu gífurleg áhrif á líf manna og réðu jafnvel örlögum þeirra. Sem dæmi má nefna hina frægu drauma Guðrúnar Ósvífursdóttur þar sem draumarnir stóðu fyrir verðandi eiginmönnum hennar. Þrátt fyrir að liðin séu þúsund ár síðan Guðrún var uppi hefur lítið breyst.
Samkvæmt íslenskri könnun sem gerð var nýlega, telja rúm áttatíu prósent þjóðarinnar möguleika á því að draumar geti haft ýmis forspárgildi. Þar kemur einnig fram að fjöldi þeirra íslendinga sem trúa á drauma staðið í stað síðustu fjörutíu árin, auk þess sem að aldur þátttakenda virðist ekki skipta máli. Enginn marktækur munur var á þeirri trú meðal yngra og eldra fólks né heldur búsetu þess. Þéttbýlisfólk trúir alveg jafnmikið á drauma og þeir sem búa til sveita. Draumatrúin virðist ætla að halda velli í nútímasamfélagi íslendinga þrátt fyrir hraðar breytingar á lífsháttum okkar. (Símon, þjóðfræðingur, 2007)
Ýmiskonar hjátrú má tengja draumum manna hérna á Íslandi. Í gegnum aldirnar hefur fólk nýtt sér mátt töfra, náttúrusteina og villtra jurta til að hafa áhrif á drauma sína. Sérstakir dagar voru einnig taldir henta betur til draumfara en aðrir. Um þetta skrifar Símon Jón Jóhannsson í formála sínum í Stóru Draumaráðningabókinni.
„ [...] Á Jónsmessunótt gátu menn einig náð sér í svokallað draumagras. Vökva átti það í helgu víni, leggja á leiði nýdáins manns og láta það vera í þrjár nætur. Þá átti aftur að taka það og setja in í Biblíuna hjá 63. Davíðssálmi og geyma það enn í þrjár nætur. Síðan átti að geyma draumagrasið í hveiti og hvítum dúk en leggja það undir hægri vanga áður en menn fóru að sofa og þannig dreymdi þá það sem þá langaði að vita.“
Íslendingar hafa löngum lagt mikið upp úr því að ráða drauma sína og miklar hefðir hafa skapast í kringum það. Hægt er að túlka draumatákn á ýmsa vegu og merking draums ræðst yfirleitt af persónulegum högum dreymanda. Þrátt fyrir það má finna ýmsar sambærilegar merkingar um heim allan eins og til dæmis tilfinninguna fyrir því að detta eða fljúga sem er mjög algeng. (Draumsetrið Skuggsjá, 2007)
Hér á landi má reyndar finna nokkur sér íslensk draumatákn. Það að dreyma hvítar kindur er talið vera fyrir snjókomu og draumar um álfkonur eru taldir til heilla fyrir dreymandann.
Draumar eru oft á tíðum nátengdir trú Íslendinga á fyrirboða og dulrænum atvikum. Mörg dæmi eru um að fólk hafi dreymt fyrir jarðhræringum, skipsskaða og jafnvel dauða ástvina sinna. Þekkt fyrirbæri er að látnir vitji nafns þegar von er á nýjum fjölskyldumeðlim. Þjóðtrúin segir að betra sé að verða við beiðni þeirra og nefna barnið eftir þeim, annað er talið geta leitt til mikillar ógæfu fyrir barnið. Sömu sögu er að segja um fyrirboðana sem skipa stórann sess í draumatrúnni og fólk leitast við því að fara eftir því sem það dreymir. Telji menn draum sinn vera fyrirboða ber þeim að fara eftir því sem þá dreymdi og margir vilja jafnvel meina að slíkir draumar geti bjargað mannslífum. Fyrirboðar þrífast vel innan sjómannastéttarinnar og hafa alla tíð gert. Mikið er um að sjómenn fari algjörlega eftir orðum draumspakra manna þegar kemur að afla og dyntóttu veðri. Þetta kemur glögglega fram í erindi Hlífar Gylfadóttur; Sjómenn og Hjátrú.
„Hvort að vertíðin yrði góð eða slæm var oft metið eftir draumum sjómanna. Afladraumar og svo draumar sem að hver og einn átti fyrir sig og túlkaði sjálfur. Almennir afladraumar voru til dæmis: Bátur í brimi, að dreyma net sitt eða önur veiðarfæri grautfúin og ónýt, mikil lús, að dreyma bátinn vera að sökkva undan sér eða að dreyma grjót.“
Rannsóknir á draumatrú
Upp úr aldamótunum 1900, fóru menn að gera ýmsar athuganir á dulrænum fyrirbærum. Sú frægasta er án efa fyrsta sálfræðirannsóknin sem var gerð hér á landi. Ágúst H.Bjarnason heimspekiprófessor við Háskóla Íslands og Guðmundur Finnbogason kollegi hans stóðu fyrir rannsókninni sem var gerð á draumspökum manni sem kallaður var Drauma-Jói og bjó á Langanesi. Fylgst var með Drauma-Jóa í svefni og rætt við fólk sem leitaði til hans með drauma sína og vandamál. Ágúst og Guðmundur lögðu spurningar fyrir Drauma-Jóa meðan hann svaf. Svaraði Drauma-Jói þá upp úr svefni eða rakti drauma sína að morgni og kom þá með svör við spurningum þeirra félaga. (Draumasetrið Skuggsjá, 2007)
Síðari tíma rannsóknir leitast við að útiloka það að draumar geti falið í sér spádóma eða fyrirboða. Miðað við nútíma þekkingu og rannsóknir á svefni , auk kenninga fræðimanna eru draumar ekki annað en endurpeglun sálarlífs og almenna líðan dreymandans. Þar af leiðandi geta draumar sagt ýmislegt um sálarástand, tilfinningar, áhyggjur og ástvini viðkomandi. Suma drauma vill fólk túlka sem fyrirboða eða spásögn um framtíðina. Á móti kemur að eðlilega leggur fólk helst á minnið þá drauma sem virðast líklegstir til að rætast og síðar meir minnist það þeirra drauma sem það telur hafa ræst. Auk þess eru draumar oft óljósir og því hægt að túlka þá á mismunandi hátt eftir því sem dreymandanum hentar best. Mörgum hættir til þess að túlka drauma sína á sem jákvæðastan máta gagnvart raunveruleikanum sem kemur síðar í ljós. (Sigrún & Þorsteinn, 2003)
Samanburður
Draumatrú íslendinga er sérstök að því leiti hve hátt hlutfall þjóðarinnar trúir að draumar geti verið fyrirboðar, flutt skilaboð eða hafi einhverskonar áhrif á líf og framtíð fólks. Eins og fram kemur hér að ofan er ekki mikill munur á draumamenningu Íslendinga og draumamenningu annara landa, þrátt fyrir hve algeng draumatrúin er hér á landi. Í bókinni „Draumar, að muna þá og skilja“ eftir Craig Hamilton Parker, kemur fram að Forn-Egyptar notuðust við svipaðar aðferðir og Íslendingar til að fá sem mest út úr draumum sínum sem og ráðningum á þeim.
„[...] Til dæmis trúðu Forn-Egyptar því að tilteknir staðir væru hagstæðir til að rifja up drauma. Samfélag þeirra var meðal hinna fyrstu sem lögðu rækt við drauma og stunduðu draumspár. [...] Egyptar töldu drauma flytja skilaboð frá bæði góðum öflum og illum. Beittu þeir ýmsum ráðum til að rifja draumana upp og örva þá, drukku til dæmis jurtaseyði, þuldu töfraþulur og sváfu í musterinu. Þegar dreymandi vaknaði sagði hann musterispresti draum sinn til þess að hann gæti ráðið hann.“ (Hamilton-Parker, 2004)
Þarna talar Hamilton-Parker um það að Egyptar hafi sofið í musterum til að öðlast dýpri draumsýn. Í raun eiga þeir það sameiginlegt með fleiri þjóðum að eiga sér helga staði þar sem fólk vitjaði drauma sinna. Ástralskir frumbyggjar nýttu hinn fræga Ayers-Rock í þessum tilgangi og Indíánar Norður-Ameríku iðkuðu draumasiði sína á háum klettum og fjöllum. Ekki er vitað hvort að Íslendingar til forna hafi klifið fjöll sín í þessum tilgangi en örnefnið Helgafell gæti gefið ýmsar vísbendingar, enda má finna ein sjö Helgafell á landinu.
Lokaorð
Eftir lestur þennan ætti að vera nokkuð ljóst að Íslendingar eru ekki jafn lausir úr viðjum þjóðtrúnnar og þeir vilja halda. Draumatrúin á enn sterkar rætur í þjóðarvitund landans og virðist ekki vera á undanhaldi í nútímasamfélagi. Það kom á óvart hversu litlu munar á draumatrú milli landa og einnig hversu fá sér íslensk draumatákn og sér íslenskir draumasiðir eru til. Beinast hefði legið við að ætla að Íslendingar ættu fleiri sérstæð draumatákn og draumasiði miðað við að einstaklega hátt hlutfall þjóðarinnar trúir á drauma. Sú er ekki raunin og fróðlegt væri að kanna betur hvers vegna svo er.
Heimildaskrá
Hamilton-Parker, Craig. (2004). Draumar að muna þá og skilja. Stöng ehf.
Hlíf Gylfadóttir. (22. april 2006). Sótt 17. november 2007 frá www.sjavarutvegsraduneyti.is: www.sjavarutvegsraduneyti.is/media/wordskjol/Erindi_Hlifar_Gylfadottur.doc
Höfundur ókunnur. (2007). Draumasetrið Skuggsjá. Sótt 27. oktober 2007 frá http://skuggsja.com/newpage.php?page=link2&idsublink=23
Sigrún Júlíusdóttir, & Þorsteinn Vilhjálmsson. (29. janúar 2003). Vísindavefurinn. Sótt 27. oktober 2007 frá Vísindavefurinn: Er mark að draumum?: http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=3082
Símon Jóhannsson. (1997). Stóra Draumaráðningabókin. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
Símon Jóhannsson. (16. september 2007). Þjóðfræðingur.