Draumarnir sem okkur dreymir geta verið á svo marga vegu. Sumir telja að þetta sé bara algjör steypa, aðrir telja að þetta sé bara hugurinn að rifja upp atburði og hugsanir dagsins og enn aðrir telja að þeir geti séð fram í framtíðina á einn eða annan hátt með draumum.
Mitt stutta líf hefur mig ætíð dreymt eitthvað á hverri nóttu sem ég ýmist man þegar ég vakna eður ei. Stundum ligg ég þó andvaka að nóttu til þar sem mig dreymir endalaust einhver ósköp. Fyrir ekki svo löngu síðan fór ég að taka eftir því að oftar en ekki dreymdi mig eitthvað slæmt, svo sum að ég væri úti að ganga í sumarblíðu en skyndilega dimmdi yfir og himinninn var grár, eða að einhver sem ég þekkti væri tengdur einhverju sem ekki þætti gott. Að sjálfsögðu dreymir alla svona drauma öðru hvoru en það sem einkenndi þessa drauma var að ég hrökk upp með sérstaka tilfinningu, svaf ekki vel það sem eftir var nætur og var hálfutan við mig það sem eftir var dags. Ég fór þá að hringja í þá sem mig dreymdi að hverju sinni og kom þá yfirleitt í ljós að ekki var allt með felldu hjá þeim.
Ég fór þá að ræða þessa drauma við móður mína og kom þá í ljós að hana hefur einnig dreymt svona drauma í rúmlega þrjátíu ár. Ég er þó enn bara að læra á mína en er þó nánast búin að ná tökum á þeim.
Það hefur einnig komið fyrir að mig hefur dreymt einhverja mynd af stað sem ég hef ekki séð áður eða að ég sé mynd af stað sem ég hef séð áður en þar er eitthvað breytt. Sem dæmi má nefna að eitt sinn dreymdi mig að ég væri að ferðast utan lands og er ég kem á hótelið sé ég að það er allt hrunið og ströndin, sem var fyrir neðan það, er öll úti í spýtnabraki og alls kyns drasli. Mér leið hálfskringilega þegar ég vaknaði daginn eftir en myndin af ströndinni í þessu ástandi sat alltaf föst í huga mér. Svo líður tíminn og nokkrum mánuðum síðar er ég að skoða Morgunblaðið þar sem birtist mér mynd af flóðbylgjunum sem voru í Indónesíu og þar um jólin 2005. Mér til mikillar skelfingar sé ég að þetta er sama mynd og hafði setið föst í huga mér af ströndinni í draumnum mínum.
Þetta er alls ekki eina tilfellið þar sem mig hefur dreymt eitthvað slíkt en þetta hafði tvímælalaust mestu áhrifin á mig.
Það eru ekki allir sammála um drauma, hvað þeir þýða og hvort þeir þýða almennt eitthvað yfir höfuð. Ég hef lent í miklum rökræðum um þetta við besta vin minn og erum við allt annað en sammála í þessum málum. Að sjálfsögðu er það eflaust vegna þess að mig hefur dreymt af þessum toga en ekki hann og því er eflaust erfitt fyrir hann að skilja þá drauma sem mig dreymir.
En hvað finnst ykkur? Trúið þið almennt á drauma eða teljið þið þá vera bölvaða vitleysu? :)