Næsta hátíð á dagatali dulspeki-áhugamanna mun vera hátíðin Imbolc, eða hátíð ljósanna, sem táknar undirbúning vorsins. Imbolc, sem er fyrsta vorhátíðin, er tekið úr gömlum írskum hefðum, og er ein af höfuðhátíðum keltneskra hefða, en í nútímanum eru þómeirihlutinn af þeim sem halda upp á þessa hátíð wicca-fylgjendur eða ný-heiðingjar.
Eftir Kristnitökuna hefur Imbolc fengið á sig ný nöfn til þess að aðlagast kristni trú og er Imbolc ýmist kallað “St. Brighid's Day” eða “Candlemas”, en þó er nafnið Imbolc ekki alveg útdautt.
Á Imbolc heldur maður upp á fyrstu tákn vorsins, fyrstu blómin eru að blómstra og sólin farin að skína aðeins meira á bakið. Imbolc er tími hreinsunnar, að losa sig við eitthvað sem gæti verið að halda aftur af manni, eitthvað sem maður tekur með sér frá liðnu ári. Það er gömul hefð að á þessari hátíð eigi maður að hreinsa og blessa heimili sitt.
Imbolc var upprunalega helgað keltnesku gyðjunni Brighid, en var svo breytt eftir Kristnitökuna, þó svo að sumir helgi henni ennþá hátíðina.
Út af því að þetta er hátíð ljósanna og að sólin er að skína meira og meira er hefð að brenna kerti á hátíðarhöldum. Það er einnig hefð að nota þennan tíma til þess að búa til eða blessa kerti sem maður mun nota á komandi ári.
Samkvæmt gamallri keltneskri hefð, er því trúað að á kvöldi Imbolcs gangi Brighid um jörðina, og var það hefð í Írlandi að hver meðlimur fjölskyldunnar valdi sér eina flík og setti hana út í garð eða fyrir framan hús áður en haldið var í háttinn, þannig Brighid gæti blessað flíkina.
Imbolc þýðir á keltnesku “in the belly” eða “í maganum” sem á að vera tilvísun í það að vera ólétt, og er þetta því einnig hátíð frjóseminnar, blómin “fæðast” á ný.
Deilt er um hvenær á að halda upp á þessa hátíð en algengasta dagsetningin er 2. febrúar, en sagt er að hátíðin byrji kvöldið 1. febrúar, um leið og sólin sest.
Ef þið hafið meiri áhuga á þessari hátíð eða jafnvel á því að halda upp á hana hef ég sett eftirfarandi upplýsingar með:
Gyðjur og Guðir sem tengjast Imbolc:
Allar gyðjur sem tengjast hreinleika eða meydóm, Brighid, Aradia, Athena, Inanna, Gaia, Februa, allar gyðjur sem tengjast ást og frjósemi, Aengus Og, Eros, og Februus.
Tákn og hlutir sem tengjast Imbolc:
Besomar(kústar, notað í Wicca.), hvít blóm, kerti (oftast hvít eða silfurlituð), kross Brighidar, blóm eða annað úr náttúrunni, blómakransar, kertakransar.
Táknræn merking Imbolcs:
Hreinleiki, endurnýjun, nýtt upphaf, andlegur þroski, endurfundur Gyðjunar og Guðsins (í hefðum Wicca), frjósemi, að losa sig við það gamla og gera ráð fyrir því nýja.
Blóm og jurtir sem tengjast Imbolc:
Angelíka, Basilíkum, Myrra, fjólur, öll hvít og gul blóm.
Matur sem tengist Imbolc:
Graskersfræ, Sólblómafræ, múffur(muffins) og alskonar brauðmeti, mjólkurvörur, paprikur, laukur, hvítlaukur, rúsínur, krydduð vín og jurtavín, jurtate.
Reykelsistegundir sem tengjast Imbolc:
Vanillureykelsi, Myrrureykelsi, Fjólureykelsi, Kanilsreykelsi.
Litir sem tengjast Imbolc:
Hvítur, bleikur, rauður, gulur, ljósgrænn, brúnn.
Steinar sem tengjast Imbolc:
Amethyst, Blóðsteinn (Bloodstone), Garnet, Rúbí, Onyx, Túrkis (Turquoise).
Gjörðir sem tengjast Imbolc:
Að kveikja á kertum, safna steinum, fara út í göngutúr og sjá fyrstu tákn vorsins, kveikja bál, baka eitthvað gott og njóta þess að borða það og láta sér líða vel, búa til kerti eða blessa kerti sem munu vera notuð á komandi ári.