Gjör það er þér viljið skal vera allt lögmálið í held
Fyrsti hluti af átta
Almennt um launhelgar
Uppruna launhelga má rekja til þess er menn innan vissra menningaheima fóru að trúa á líf eftir dauðann. Ekki var ávallt samræmi þar á milli og í sumum trúarkenningum var trúað á undirheima dauðans, sælulíf eftir dauðann og í enn öðrum sælulíf fyrir útvalda eftir dauðann en undirheima fyrir aðra.
Í mjög mörgum samfélögum manna byrjuðu svo að myndast launhelgar þar sem lykilinn að sælulífinu eftir dauðann var að finna. Þessi lykill var falin í helgum, leyndum vísdómi launhelganna og siðum þeirra. Hann var aðeins aðgengilegur þeim sem fóru í gegnum vígslur launhelgarinnar og hann öðlaðist þannig hlutdeild í þessari vissu um sæluvist í einhverskonar himnaríki eftir dauðann, á meðan aðrir þurftu að sætta sig við kalda og myrka undirheima.
Efraim Briem tekur saman í inngangi að bók sinni launhelgar og lokuð félög lýsingu á því sem flestar þessar launhelgar eiga sameiginlegt og skrifar:
Þessi boðskaður tekur á sig fast mót í dýrkunarsiðum launhelganna. Því að hér rekumst vér á það undarlega fyrirbæri, að sjálft mótið er oft hið sama, þrátt fyrir ólík ytri viðhorf og átrúnað. Í nær öllum launhelgum er vígslan fólgin í för frá lífi gegnum dauða til lífs. Dauðinn skal sigrast, en hann verður eigi umflúinn. Sérhver er undirorpinn hlutskipti dauðans. En með því móti að bíða dauða þegar í þessu lífi, er hann yfirunninn og lífið tryggt um leið. Þess vegna er vígsluþeginn látinn gangast undir táknlegan dauða: hann deyr, er grafinn, en er vakinn upp til nýs lífs. Með því er hann frelsaður frá dauða og þegar á jörðu hér fullvissaður um gjöf eilífs lífs…
(Briem, bls 20.)
Þarna er kjarni flestrar launhelganna dreginn saman. Maðurinn sem gengur í gegnum vígslur launhelganna er oftast látinn á táknrænan eða magískan hátt ganga í gegnum nokkra lykilþætti lífsins: Fæðingu, lífið, dauðann, upprisu frá dauða og þar með eilíft líf. Þegar maður hefur þegar dáið einu sinni en lifir enn, þá hefur maður sigrað dauðann og getur eigi dáið framar.
Dauðinn í vígslum launhelganna kristallast mjög vel í helgisiðum vissra þjóða þar sem þær reyna vissulega mjög á þann sem gengur í gegnum þær. Þannig eru dæmi um t.d. á meðal Mandanindíána sem bjuggu í Norður-Ameríku. Sá sem æskir eftir að eiga hlutdeild í launhelgum þeirra þurfti að ganga í gegnum mjög sársaukafullar vígslur. Einnig eru víðsvegar dæmi um víxlur þar sem sá sem er vígður er látinn ganga í gegnum mjög andlega erfiða reynslu. Vígslurnar eru fyrir honum þannig hræðileg raun og oft missir sá meðvitund sem í gegnum vígslur þessar gengur.
Eitt mjög mikilvægt atriði kemur einnig fram í þessum lýsingum sem lesa má í bók Briem, að oft er notuð sú magíska aðferð sem gengur út á það að vígja í gegnum skelfingu. Þessi aðferð þekktist t.d. í Tíbet þar sem vígt var inn í kynlífsmagíu með því að láta þann sem í gegnum vígsluna fór, hafa samfarir ofan á líki dauðs manns. Flestar launhelgar vesturlanda nú á tímum nota ekki svona hræðilegar aðferðir í vígslur sínar, en ennþá vottar fyrir þessari aðferð skelfingar og hræðslu. Í flestum þessum launhelgum er reynt að mynda dularfullt og ógnvænlegt andrúmsloft, t.d. með því að binda fyrir augun á þeim sem í gegnum vígsluna fer og hóta honum lífláti fyrir eiðsrof.
Lögmálið er ást, ást er lýtur vilja
Heimildir
Briem, Efraim. 1975. Launhelgar og lokuð félög. Ísl. þýð. Börn Magnússon. Prentsmiðjan leiftur h.f. Reykjavík.
pdf útgáfa: www.visindi.is/magia/ritgerdir/Launhelgar.pdf
Tengill: www.oto.is