Skottur : Eru þekktar fyrir að vera með rauðleita skottu á höfði sér. Einnig kvenkyns.

Mórar : Mórar eru karlkyns að vanda og til að bera kennsl á Móra eru þeir í rauðum peysum eða úlpum.

Ættardraugar : Eru oftast ættingjar eða sendinga sem fylgja fjölskyldum margar kynslóðir aftur í tímann. Sauðmeinlaus grey þó að stundum þeir brjóti hluti og hagi sér eins og ærsladraugar.


Gunnar og Draugurinn

Gunnar bóndi í Keflavík í Hegranesi hafði þann sið að róa syðra á vetrum, þegar hann var á léttasta skeiði, eins og Skagfirðingum var þá títt. Eitt haust var hann á suðurleið með þeim Skagfirðingum, og voru þeir nálægt tuttugu saman. Eitt kvöld hrepptu þeir vont veður og urðu því að gista á kotbæ einum allir saman. Hann var einhvers staðar á Nesjum suður. Lítið var um húsrúm í kotinu, og urðu sumir þeirra félaga að sofa á gólfinu, en sumum var hrúgað saman í rúmflet, og var Gunnar einn þeirra. Um nóttina dreymdi hann, að hann fyndi einhvern ógnarlegan þunga ofan á fótunum á sér, þóttist hann þá líta upp og sá, að stelpa sat á fótunum á honum.
Gunnar þóttist vita, að þungi sá, er hann fann til, væri af völdum stelpunnar, yrti því á hana og sagði: “Farðu burt, helvítis dubban þín, því að annars skal eg góma þig.”
Stelpan fór ekki að heldur, og þóttist Gunnar þá ætla að rísa upp, en gat það ekki; þóttist hann nú illa staddur og mælti aftur til stelpunnar: “Komdu nær,” en hún hreyfði sig ekki.
Þá tók að síga í Gunnar, og mælti hann til stelpunnar í þriðja skipti: “Komdu nær, ef þú þorir.”
Þá svaraði stelpan, að sér væri ómögulegt að komast upp fyrir kné á honum, og yrði hún að halda sig fyrir neðan þau.
Gunnar þóttist nú taka á öllu því, sem hann átti til, og reyna að rísa upp; tókst honum það loksins, og ætlaði hann þá að þrífa til stelpunnar, en hún hoppaði ofan af fótunum á honum og ofan á gólf. Við það vaknaði Gunnar, og sá hann stelpuna skoppa út úr baðstofudyrunum, um leið og hann vaknaði.

Sagan er sögð af Ólafi Davíðsyni og er hún í mörgum bókum. T.D Grímu hinni Nýju og Þjóðsögum Jóns Árnasonar.