“Bankalán með skuldbreytingum”

Fyrir fæðingu Jesú voru menn komnir í greiðsluþrot með karmaskuldir sínar sökum vangoldinna og greiðslufallinna syndabyrða og líf manna á jörðu stefndi í óefni. Sem Kristur holdi klæddur hafði Jesús umboð til að taka á sínar herðar syndabyrðir mannkynsins um stundarsakir þar til að menninrnir höfðu öðlast nógan trúarstyrk til að geta greitt skuld sína að fullu í þjónustu við Guð og menn, svipað og bankastjóri sem veitir manni skuldbreytingu til að bjarga fallandi víxli, samanber: “Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af” (Mt 24.22). Jesús hafði sem sagt vald til að fyrirgefa syndir mannanna innan marka karma-lögmálsins þannig að fræðimennirnir ásökuðu hann ranglega um guðlast (sjá Mt 9.1-7; Jh 5.14). Hann fyrirgaf mönnum syndirnar með því að gera byrðina léttbærari: “Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld… Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt” (Mt 11.28,30). Með fordæmi sínu gaf Jesús manninum reisn og innblástur til að feta í fótspor meistarans og standa eigin reikningsskil: “Því að sérhver mun verða að bera sína byrði” (Gl 6.5). “Hver sem vill fylgja mér… taki kross sinn daglega og fylgi mér” (Lk 9.23; 14.27).

Jafnvel þó að Jesús væri allur að vilja gerður gæti hann ekki þurrkað út syndaregistur mannsins “með einu pennastriki”, syndir sem ná milljón ár aftur í tímann og til ókominna kynslóða. Ekki einu sinni skírðir trúmenn sem taka við Jesú og játa honum syndir sínar fá sjálfkrafa syndaaflausn. Til þess er maðurinn of bundinn við karma sem hefur mótað sjálfsvitundina sem hann lifir og hrærist í, sbr. Mt 13:29-30:

Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið. Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína.

Orðið (fagnaðarboðskapinn) verður því að fá að vaxa og dafna áður en það ber fullan ávöxt (sbr. Jk 1.21).

Sú kvöð fylgir karma-lögmálinu að syndaaflausnarinn (frelsarinn) verður að sjá til þess að syndarinn sem hann greiðir skuldina fyrir læri þá lexíu sem lögmálið átti að kenna honum, að viðkomandi iðrist synda sinna og hann að endingu endurgreiði lífinu fyrir náðargjöf fyrirgefningarinnar með þjónustu, íhugunum og bænum – þetta uppfyllti Jesús.

Áherslumunur er á milli lúthersk-evangelísku og katólsku kirkjunnar varðandi þá spurningu hvort maðurinn réttlætist fyrir trú eða verknað. Jesús áminnti að ekki væri nóg að taka trú, það yrði að láta verkin tala: “Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ‘Herra, herra,’ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns” (Mt 7.21). Í næsta erindi gefur Jesús einnig til kynna að ekki sé nóg að gera góð verk í Drottins nafni ef rétt hugarfar (trú) er ekki fyrir hendi. Einnig varar postullinn Jakop við að trúin sé dauð án verka (sjá Jk 2.26).

Í fjallræðunni er réttlátum heitið umbun og hinum óréttlátu refsingu (Mt 5-7). Hún gefur til kynna að menn komist ekki hjá því að gera reikningsskil: “Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram” (Mt 5.18). “Á yður eru jafnvel öll höfuðhárin talin” (Mt 10.30) – þar til öll kurl eru komin til grafar.

Einföld yfirlýsing um trú á Jesú losar menn ekki undan ábyrgð gerða sinna né lýkur upp gáttum himnaríkis. Jesús segir skýrt að menn verði sjálfir að standa skil á gerðum sínum því að “hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi. Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða” (Mt 12.36,37). Dómsdagur þýðir hér skuldauppgjör sálarinnar eftir andlátið sem ákvarðar hvort að maðurinn endurfæðist enn á ný til dauðlegs lífs í jarðneskri tilveru eða frelsist til eilífs lífs á himni. Ennfremur stendur “Sérhver var dæmdur eftir verkum sínum” (Opb 20.13; sbr. 21.7-8); sérhver verður að þvo skikkjur sínar til að fá aðgang að lífsins tré; (sjá Opb 22.14-15); hirðirinn skilur sauðina frá höfrunum eftir verkum þeirra (sjá Mt 25.31-46).

Jesús sagðist ekki vera kominn til að afnema lögmálið heldur uppfylla það (sjá Mt 5.17). Hann samsinnir óskeikanleika og ófrávíkjanleika Móselaganna: samanber, “Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla” (Mt 26.52). Til að losna undan ofurvaldi lögmálsins bauð hann mönnum að ástunda sáttfýsi og fyrirgefningu. Í staðinn fyrir að láta tönn fyrir tönn bauð hann andstæðingnum að slá einnig á hina kinnina (sjá Mt 5.38,39) þegar “eðlileg” viðbrögð væru að gjalda rauðan belg fyrir gráan. Þannig kæmu menn í veg fyrir að þeim yrði goldið í sömu mynt. Hafa ber í huga að lögmálið var ekki sent í heiminn til að dæma manninn heldur til að frelsa hann (sbr. Jh 3.17).


Skuldadagar og lokadómurinn

Skuldbreytingin á syndum mannkynsins sem Jesús tók á sínar herðar var sérstök undanþága á fiskatímabilinu síðast liðinna tvö þúsund ára. Hver og einn skyldi greiða upp vanskilaskuldir sínar áður en vatnsberaöldin gengi í garð. Nu líður að tíma endalokanna og komið að skuldadögum. Gangist menn og þjóðir ekki við skuldinni mun karma-lögmálið, “auga fyrir auga”, sjá til þess að fæðingarhríðarnar inn í nýja tímann verði sársaukafullar (sbr. Dn 11.40-12.12; Jes; Mt 24; 25.31-46).

Andleg vakning síðustu áratuga og barátta fyrir umhverfis- og mannréttindamálum kann að vera teikn um að mannkynið sé að vakna til vitundar um að tími sé kominn til að létta af syndabyrðinni. Væntanlega mun þessi ánægjulega þróun draga tennurnar úr bölspám um ragnarök um þúsund ára skiptin með tilvísun í dómsdagsspár Biblíunnar, Völuspár og spádóma Nostradamusar.

Til viðmiðunar má geta þess að indversku vedaritin tala um hinn stóra lokadóm sem fari fram að lokum yuga-tímabilanna fjögurra sem eru að 428.000 árum liðnum og rennur þá upp ný gullöld. Þessi tímabil sem nefnast Manvantara og Pralaya lýsa eilífri hringrás sköpunar og endaloka alheimsins.

Jesús er sagður hafa komið í þennan heim til að dæma lifendur og dauða. Hann steig niður til heljar og reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum. Jesús gaf sjálfan sig sem fórn á krossinum. Dagana þrjá sem hann lá á milli heims og helju notaði hann til að koma böndum á myrkraöflin áður en þau yrðu leidd fyrir lokadóminn.


Kenningar guðfræðnnar og guðspekinnar um lífið eftir dauðann

Viðtekin viðhorf kristninnar er að eftir dauðann hverfi andinn sem blés lífi í sálina aftur til uppruna síns sem kippir tilverugrundvellinum undan sálinni. “Laun syndarinnar er dauði” (Rm 6.23; sjá Esek 18.4,20). Hinir dauðu sofa í myrkrinu (sjá Jb 10.21-22; Dn 12.2). Sálin á sér ekki viðreisnar von fyrr en hinir sáluhólpnu, lífs eða liðnir, rísa upp á dómsdegi í nýjum himneskum líkama fyrir trúna á Jesú Krist sem rætist með endurkomu hans (sjá 1Þ 4.14-17; 1Kor 15.40-57). Eftir það muni Guð skapa nýjan himin og nýja jörð fyrir hina frelsuðu (sjá Opb 21.1-4). Erfitt er að verjast þeirri hugsun að þröngur skilningur kristinna safnaða á upprisu holdsins eigi við “uppvakninga” sem rísi upp úr gröfum sínum á hinum síðustu dögum.

Rétttrúnaðarmenn hafa bráðum beðið í tvö þúsund ár eftir endurkomu frelsarans í stað þess að líta í eigin barm, samanber “Guðs ríki er innra með yður” (Lk 17.21). Leikrit Samuels Becketts, “Beðið eftir Godot”, lýsir á grátbroslegan hátt trú á stórmennið sem aldrei kom. Í raun hefur Kristur ekki farið neitt því Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir, sbr. Heb 13.8. Seinni koma Krist þýðir einfaldlega í kristnum skilningi að maðurinn hafi snúist til betri vegar. Spádómar Biblíunnar eru, eins og Jesús, í gær og í dag samir og um aldir því þeir rætast í hinu ævarandi núi þegar maðurinn er reiðubúinn.

Það er viðtekin reynsla og trú margra að sálin eigi sér framhaldslíf fyrir handan strax eftir dauðann, sbr. kenningar sálarrannsóknarmanna. Kristnir menn á borð við aðventista útskýra trú spíritista á líf eftir dauðann þannig að þar séu illar andaverur að verki sem beiti blekkingum til að glepja auðtrúa sálum um sýn frá hjálpræðinu.

Guðspekin útskýrir lífið að handan og trú á helvítis- og himnaríkisvist sem tímabundið sálarástand á meðan maðurinn er að vinna úr reyslu síðustu jarðvistar. Keninngu katólsku kirkjunnar um hreinsunareldinn má túlka í þessum anda.


Hver er sinnar gæfu smiður

Skyndilausnir hafa ekkert varanlegt gildi eins og dæmisagan um skilningstré góðs og ills ber vott um (sjá 1Mós 3). Sjálfstæði og þroski fullorðinsáranna felst í að taka meiri ábyrgð á eigin lífi. Sú bernska árátta að varpa ábyrgðinni yfir á aðra lýsti sállæknirinn Erich Fromm vel í bók sinni: “Flóttinn frá frelsinu”.

Í handriti frá annarri öld sem fannst í Oxyrhynchus er haft eftir Jesú; “Og Guðs ríki er innra með yður og sérhver sem þekkir sjálfan sig mun finna það”. Það geta menn fundið með því að fylgja breytni Jesú, samanber ráðlegging Páls postula: “Verið með sama hugarfari og Jesús Kristur var” (Fl 2.5). Því má líkja við sjúkling sem fer að ráðum læknis um hvernig hann eigi að virkja eigin lækningamátt til þess að verða heill. Guð hjálpar með öðrum orðum þeim sem hjálpa sjálfum sér. Það er Kristur í Jesú og það er Kristur í sérhverjum manni sem frelsar heiminn því “þér eruð ljós heimsins” (sjá Mt 5.14).

Jesús er lifandi sönnun þess að maðurinn á sér viðreisnar von og geti endurheimt guðsríki sitt. Hann, sem eftir krossfestinguna var talinn af, sannaði sigur lífsins yfir dauðanum og sýndi mönnum á táknrænan hátt upprisu sálarinnar frá dauða til eilífs lífs. Með krossfestingunni sýndi Jesús ennfremur óverðskuldaðan og skilyrðislausan kærleika Drottins. Það gaf mannssálinni tóm til að fullorðnast og þroskast, nóg til að standa skil á gerðum sínum fyrir komandi skuldadaga, til þess að nýir og betri tímar geti gengið í garð.


Heimildaskrá

Benedikt Jasonarson. Ávöxtur andans. “Grundvöllurinn er Kristur”, 1978, s.135.

Bhaktivedanta Prabhupada. Srimad Bhagavatam. Canto one to ten. The Bhaktivedanta Book Trust, 1981.

Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.

Elizabeth Clare Prophet. The Lost Years of Jesus. On the discoveries of Notovitch, Abhedananda, Roerich, and Caspari. Summit University Press, NY, 1994.

Elizabeth Clare Prophet. The Lost Teachings of Jesus 1-4. Summit University Press, 1993.

Erich Fromm. The Escape from Freedom. Routledge, England, 1961.

Gunnar Kristjánsson. Ritskýring og túlkun Biblíunnar. Úr Mál og túlkun. HÍB, Reykjavík, 1981.

Hjalti Hugason. Guð skapar. Grundvöllurinn er Kristur. Bókaútgáfan Salt. Rvk., 1978.

Herbert Sundermo. Biblíuhandbókin þín. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík, 1974.

Holger Kersten and Elmer Gruber. The Jesus Conspiracy, Shaftesbury, 1994.

Holger Kersten. Jesu Lived in India. Element, Shaftesbury, Dorset, 1994.

Jónas Gíslason. Í heiminum en ekki af heiminum. “Grundvöllurinn er Kristur”. Bókaútgáfan Salt, 1978.

Radhakrishnan, Eastern Religions and Western Thought. Oxford University press, Delhi, London, NY, 1989.

Samuel Beckett. Waiting for Godot. Faber, London, 1956.

Thomas A Kempis. Breytni eftir Kristi. Kaþólska kirkjan á Íslandi, 1955.

William Barclay. Leiðsögn um Nýja testamentið. Skálholtsútgáfan, Reykjavík, 1993.