Kenningar Páls postula um friðþægingarfórnina

Kristnu söfnuðirnir deildu innbyrðis og máttu sæta harðræði og ofsóknum á frumbýlisárum sínum. Konstantín keisari í Róm gerði svo guðfræði hins ötula heiðingjatrúboða Páls postula að ríkistrú árið 313. Eftir það fóru hagsmunir ríkisins og kirkjunnar saman.

Páll, sem var skriftlærður farísei, gekk út frá hugmyndum Gamla testamentisins að í upphafi hafi maðurinn lifað í eilífri sæluvist í Paradís. Vegna erfðasyndarinnar og brots við lögmál Guðs hafi maðurinn gefið sjálfan sig dauðanum á vald (sjá Rm 6.23). "Eins og misgjörð eins [þ.e. Adams] leiddi sakfellingu fyrir alla menn, þannig leiðir og af réttlætisverki eins [þ.e. Jesú] sýknun og líf fyrir alla menn" (Rm 5.18; sbr. Rm 4.25; Ef 2.1; 2Kor 5.21). Maðurinn hlyti aflausn synda sinna með því að trúa á Jesú sem leið friðþægingadauða fyrir mannkynið á krossinum og reis upp frá dauðum (sbr. Rm 10.9; Heb 9.26; 10.14; 1Kor 15.3). Jesús hefði fórnað sér fyrir mannkynið eitt skipti fyrir öll og veitt því eilífa aflausn syndanna (sjá Heb 10.1; 9.12). Páll áleit einstaklinginn vera umkomulausan og vanhæfan til að vinna sjálfur að eigin frelsun undan vesöld sinni: maðurinn geti hvorki réttlætt sig fyrir Guði með góðum verkum né breyttu líferni (sjá Rm 9.16; 1Kor 1.29; Gal 2.16):

Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því
(Ef 2.8-9)…
og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú… að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýndi Guð réttlæti sitt…
(Rm 3.24-25).

Svo er að skilja að maðurinn geti eingöngu frelsast með því að taka skírn, verða barn Guðs og fæðast til nýs lífs (sjá Rm 6.1-14). Af þessu mætti draga þá ályktun að jafnvel góður og grandvar maður geti átt á hættu að glatast ef hann meðtekur ekki og játar fórnadauða Jesú á krossinum sem einustu leið sína til aflausnar.

Hjá Gyðingum var hefð fyrir blóðfórnum þar sem dýrum var slátrað til að taka á sig syndir fórnfærendanna. Af því er dregið hugtakið “syndahafur” sem notað er yfir blóragböggul (sbr. 3M 4.27-35; 3M 17.11; 2M 13.11; Jes 53.10-12). Á sama hátt átti Jesús að hafa tekið á sig syndir heimsins fyrir blóð lambsins. Í Miðausturlöndum voru þekktar goðsögur um hetjur og guði eins og Dionýsus, Ósíris, Attis, Demeter, Adonis og Mítra sem máttu þola píslir, dauða og upprisu. Allar þessar launhelgar veittu hinum trúuðu endurlausn og sigur yfir dauðanum. Með upprisu sinni tryggðu guðirnir frjómagn jarðarinnar og vorkomu um páska og uppkomu sólarinnar eftir vetrarsólhvörf um jólin.

Neysla heilagrar kvöldmáltíðar á sér hliðstæður í fornum dultrúarhelgiathöfnum. Helgisiðir sem tileinkaðir voru guðinum Díónýsusi fóru fram með því að nauti sem táknaði guðinn var slátrað og holdi þess og blóði neytt. Tilbiðjendurnir trúðu því að líf guðsins yfirfærðist á þann hátt til þeirra, samanber: "Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf (Jh 6.54).

Messíasarhugmynd Gyðinga dregur dám af kenningu Grikkja um Lógos, Orðið, sem skapar og viðheldur heiminum, sem varð hold og tók bólfestu á meðal manna, hinn frumgetni sonur Guðs. Lógos viðheldur einingu, ósnertanleika og óbreytanleika almættisins þrátt fyrir að hann er að verki í náttúrunni. Kristnin var kynnt sem uppfylling æðstu visku sem platónsku og stóísku heimspekiskólarnir höfðu að leiðarljósi. Helsti talsmaður þessarar kenningar var Jústin Martyr (um 155 e.Kr.) sem leit á Jesú sem holdtekju viskunnar. Kristur var og er Lógos sem dvelur í hverjum manni. Þetta ætti sérstaklega við Sókrates, Platón og Heraklítus að hans mati. Æðsta holdtekja Lógos væri Jesús Kristur. Lógos hafði einnig verið kenndur við guði fornra launhelga sem sagnritarinn Fíló ritaði um.

Ýmis önnur atriði í kenningu Páls minna á gnóstíska dultrú síns tíma: Áhersla á trúarreynslu og umbreytingu til endurfæðingar, Guð sem dvelur innra með mönnum, þörf fyrir krossfestingu holdsins, frelsunin sem eining við Krist sem umbreytist í einingu við Guð.

Fórn Jesú á krossinum skar sig frá öðrum fórnartrúarbrögðum að mati Páls að því leyti að Jesús var raunverulegur. Hann hefði liðið þjáningar krossins fyrir kærleik sinn til mannanna og fært þá þannig nær endurleysandi kærleika Guðs. Páll boðaði auk þess trú á einn Guð og einn Drottin, frelsarann Jesú Krist hvers vegir eru órekjandi, en heiðingjarnir boðuðu trú á marga fórnarguði.


Hvað segir guðspekin um píslafórn Krists á krossinum?

Samkvæmt guðspekilegum kenningum má fullyrða að umdeildur boðskapur Páls postula hafi verið misskilinn og friðþægingakenningin skrumskæld. Þrátt fyrir að Páll hafi ekki þekkt Jesú þegar hann gekk á meðal dauðlegra manna opinberaði Jesús Kristur Páli fagnaðarerindið sem var útlegging á boðskap guðspjallamannanna (sjá Gal 1.11,12). Páll er nú talinn upprisinn dýrlingur sem gegnir mikilvægu embætti á sviði lækninga og vísinda á himnum. Einkum standi sannleiksleitendur huga hans nærri (sjá óbirta grein á huganum um Hilarion, meistara 5. Geislans, þegar þetta er skrifað).

Biblíusagan segir að Abraham hafi ætlað að fórnfæra einkasyni sínum Ísak að boði Drottins sem sjálfur hlýddi föður sínum í einu og öllu. Þá greip engill fram í fyrir honum og benti honum á að fórna hafri í stað sonarins (sjá 1M 22.1-14). Ástríkur Guð faðir ætlaðist ekki til að Abraham fórnaði lífi sonar síns. Því síður vildi hann fórna lífi síns elskaða sonar Jesú. Guð vildi reyna trúartraust og fórnarvilja Abrahams og Jesú, hvort þeir væru reiðubúnir að bjóða fram sjálfa sig lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. “Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi”, sagði Páll við fylgismenn sína“ (Rm 12.1).

Það kemur hvergi fram í bréfum Páls að Guð hafi krafist þess að Jesús skyldi deyja fyrir syndir mannanna á krossinum fyrir blóð lambsins (sjá Rm 3.25; 1Jh 2.2,4.10). Han krafðist aftur á móti að Jesús skyldi lifa fyrir syndir okkar. Guð vildi að hafrinum, hinu holdlega eðli, skyldi fórnað á altari lögmálsins til að sálin gæti endurfæðst til eilífs lífs í syninum Kristi.

Engin tilviljun var að lífláta átti Jesú með krossfestingu en ekki hengingu eða öðrum dauðdaga. Krosstáknið er ævafornt merki fyrir stefnumót manns og Guðs í Kristi, þar sem Orðið varð hold (skv. Jh 1.14). Lóðrétti ásinn táknar stigningu andans niður í efnið og þverbitinn táknar efnið. Þar sem ásarnir mætast renna mótpólarnir saman og sonurinn rís upp og endurfæðist þegar syndaselurinn og gamli maðurinn Adam, er krossfestur og deyr Drottni sínum. Hér vísar dauði syndarinnar og dómsdagurinn til endaloka dauðlega mannsins svo að sálin geti sameinast Kristi og risið upp til eilífs lífs út úr hringrás dauða og endurburðar. Þeir sem tilheyra Kristi Jesú hafa krossfest holdið ásamt ástríðum þess og girndum. Upprisan er upprisa Krists í okkur frá líkama syndarinnar og dauðans úr gröf dýrslega eðlisins og lægri vitundarinnar. ”Vér vitum, að vor gamli maður er með honum krossfestur, til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki framar þjóna syndinni" (Rm 6.6). Æðra andlega sjálfið í okkur er grafsett í dauðlega sjálfinu, en gröfin hefur ekkert vald til að kviksetja guðdómleikann sem hlýtur óhjákvæmilega að rísa.

Hinn gamli maður á samkvæmt Guðs orði að deyja… svo að hinn nýi maður, sem er skapaður í Guðs mynd, fái notið sín… að hið gamla eðli sem er andstætt guði, sé afhent stöðuglega til krossfestingar… 'og þeir, sem ganga eftir holdi, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem ganga eftir anda, á það, sem andans er… Dauði annars er líf hins
(Benedikt Jasonarson, s. 135; sjá Ef 4.22; Kól 3.9-10).
Ég er krossfestur með Kristi. Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér
(Gal 2.20).
Fyrst andinn er líf vort skulum vér lifa í andanum
(Gal 5.25).

Páll benti á að maðurinn þurfi stöðugt að deyja og endurfæðast sérhvern dag áður en hann er undir það búinn að rísa upp til eilífs lífs, þ.e. taka daglegum framförum í Kristi, samanber: “Ég dey daglega” (1Kor 15.31 í þýðingu ensku King James Biblíunnar; sbr. líkamsfrumur endurnýjast stöðugt). Jesús sagði einnig: “Hver sem vill fylgja mér… taki kross sinn daglega og fylgi mér” (Lk 9.23; 14.27). Það er ekki á krossinum á Golgata sem maðurinn hlýtur eilíft líf heldur með því að taka vígslu á tré lífsins, sem táknar vegferð mannsins til andlegs þroska, þar til að mannssonurinn íklæðist að fullu ljósi guðssonarins. Líf, dauði og upprisa Krists er sýnikennsla á alheimslegu lögmáli.

Heimildalisti er birtur í lok III. hluta.