Formáli

Eftirfarandi þrjár greinar eru birtar í tilefni páskanna sem kristnir menn (og gyðingar) halda í heiðri um allan heim sem er okkar stærsta trúarhátíð ásamt jólunum. Á þessum tímamótum ganga mörg ungmenni til fermingar þar sem þau staðfesta kristna trú sem þau voru skírð til og heita því að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs síns. Hér verður gerð stuttlega grein fyrir dýpri merkingu páskahátíðarinnar um krossfestinguna og upprisu Krists sem endurspeglar megininntak kristinnar trúar.


Líflátið á krossinum

Samkvæmt Páli postula grundvallast kristin trú á því að Guð hafi fórnað einkasyni sínum til að líða píslavættisdauða á krossinum vegna synda vorra og með upprisu sinni hafi hann frelsað oss til eilífs lífs, samanber:

Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi… En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar. Vér reynumst þá vera ljúgvottar um Guð… trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar, og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist glataðir… þá erum vér aumkunarverðastir allra manna.
(1Kor 15.1-4; 14-20)

Hafði Páll rétt fyrir sér um upprisuna? Um það eru menn ekki eitt sáttir fram á þennan dag. Ýmislegt er óljóst varðandi aðdraganda handtökunnar sem leiddi til krossfestingar Jesú. Viðtekin sannindi um upprisu Jesú frá dauða og líkamleg himnaför hans eru ráðgátur. Það byggir á trú kristinna manna á atburði sem gerðist fyrir um tvö þúsund árum.

Tiltækar heimildir greina ekki hvers vegna Jesús var úrskurðaður látinn aðeins nokkrum stundum eftir krossfestingu hans. Gyðingar höfðu beðið Pílatus um að bein hinna krossfestu væru brotin, til að flýta fyrir dauða þeirra, og þeir fjarlægðir til þess að líkamarnir þeirra yrðu ekki á krossinum um hvíldardaginn (sjá Jh 19.31). Án þessara íhlutunar gæti dauðastríð hinna krossfestu staðið í fjóra til fimm daga. Bein Jesú voru ekki brotin, eins og hjá ræningjunum sem krossfestir höfðu verið með honum, vegna þess að hann var látinn áður en til þess kom. “Pílatus furðaði á, að hann skyldi þegar vera andaður” (Mk 15.44).

Jesús var negldur á krossinn á sjöttu stundu og gaf upp andann á níundu stundu. Hafði þá Jesús, sonur Guðs, sem var á besta aldri, rauverulega dáið á krossinum eða einungis fallið í öngvit?

Með því að lesa á milli línanna á hinu dulúðuga Jóhannesarguðspjalli kemur fram lýsing á því hvernig vel heppnað “samsæri” Jósefs frá Arímaþeu og Nikódemusar varð til að bjarga lífi Jesú eftir krossfestinguna. Lýsing Jóhannesar á “nábjörgunum” sem þeir veittu Jesú ber frekar keim af lækningastarfi heldur en að hefðbundnir greftrunarsiðir Gyðinga hafi verið viðhafðir. Myrra og alóe voru algeng lækningasmyrsl á þessum tíma. Þeir félagar “sveipuðu Jesú línblæjum”, þe. vöfðu líkast til sáraumbúðum og heitum bökstrum með lækningajurtum þétt utan um sár Jesú (Jh 19.38-42). Í skriftum Gyðinga er hvergi minnst á slíka kryddblöndu til líksmurningar hvað þá í þeim mæli sem lýst er í guðspjallinu. Hjá þeim tíðkaðist að hreinsa lík með heitu vatni og bera á það olíu. Jóhannes vissi betur því að hann gefur sannferðuga lýsingu af dánarbeði Lasarusar, þess sem Jesús vakti upp frá dauðum (sjá Jh 11.17-44).

Því má velta fyrir sér hvort að Jesú hafi í raun verið gefið beiskt vín blandað með hæfilegum skammti af deyfilyfi (t.d. ópíum) í stað ediks sem olli svefndái og magnleysi? (sjá Jh 19.29-30). Hundraðshöfðinginn sem fullvissaði Pílatus um að Jesús væri látinn sagði snortinn við meint andlát Jesú: “Sannarlega var þessi maður sonur Guðs” (Mk 15.39). Samkvæmt Gregory af Nyssa varð hundraðshöfðinginn síðar biskup í heimahögum sínum, Cappadocia. Má vera að hann hafi verið í vitorði með Jósefi og Nikódemusi til bjargar Jesú? Þeir voru allir menn í áhrifastöðum og höfðu greiðan aðgang að valdamönnum. Auk þess hafði Pílatus enga sök fundið hjá Jesú (Lk 23.4). Félagarnir virðast hafa viljað halda því leyndu að Jesús var á lífi vegna ofsókna hatursmanna hans.

Matteus ritar að prestar hafi kyrfilega lokað og innsiglað gröfina með steini með aðstoð varðmanna sem gættu hennar (sjá Mt 27.62-66). Rit Markúsar sem er eldra en Matteusar segir aftur á móti að Jósef hafi velt steini fyrir grafarmunnann (sjá Mk 15.46). Það sem konunum sýndist vera englar í rökkrinu hefur sennilega verið hvítklæddir Nasarear sem höfðu nýlokið við að koma Jesú á öruggari stað (sjá Lk 23.55-56). Þegar þeir sögðu að Jesú væri ekki látinn heldur “upp risinn”, áttu þeir sennilega við að hann væri risinn á fætur, þ.e. vaknaður. Sú túlkun liggur nær upprunalegri merkingu orðasambandisins (sjá Lk 24.1-5). Í þessu ljósi má setja spurningamerki við þau undur og stórmerki sem Matteus (28.1-8) lýsir í sambandi við upprisu Jesú.

Lærisveinarnir virðast einfaldlega hafa trúað því að Jesús væri afturgenginn þegar hann birtist þeim nokkrum sinnum eftir krossfestinguna þrátt fyrir að Jesús hafi þráfaldlega reynt að sannfæra þá um hið gagnstæða (sjá Lk 24.38-43; Mk 16.14).


Síðari dvöl Jesú í Austurlöndum fjær

Meint lífsbjörgun Jesú kemur heim og saman við fullyrðingu Irenaeusar kirkjuföður að Jesús lifði að minnsta kosti 10-20 ár eftir krossfestinguna. Hann er annars þekktur fyrir að hafa snúist gegn “villutrúarmönnum”. Í Postulasögu Tómasar kemur fram að Jesús sendi Tómas nauðugan viljugan í trúboð til Indlands eftir krossfestinguna. Þar bar fundum þeirra svo aftur saman. Slóð Jesú hefur verið rakin frá Palestínu til Kasmírs þar til að hann lést í hárri elli í heimalandi feðra sinna. Um það vitna að minnsta kosti tuttugu og ein tilvísun í fornum textum, fyrir utan staðarheiti og bæi þar sem nafnið Issa eða Yusu kemur fyrir (þ.e. Yeshu á sýrlensku og Yuz á persnesku). Grafhvelfing spámannsins Yuz Asaf, sem heimildir segja að hafi komið úr vestri til að boða sannleikann, er að finna í gamla miðbæ Srinagars, Anzimar. Afkomendur týndra ættkvísla Ísraels í Kasmír kalla helgidóminn gröf Hazrat Issa Sahib, þ.e. gröf Drottins Jesú Krists. Skyldi þar vera kominn grafastaður Jesú? Á helgigrip úr steini einum hafa verið greypt fótaför Yuz Asaf. Þar sjást greinileg merki um ör eftir stungusár (sjá einnig grein hbraga á dulspeki-huganum um þöglu árin í ævi Jesú http://hugi.is/dulspeki/articles.php?page=byuser&user=hbraga.

Jesús var upp numinn til himins 40 dögum eftir krossfestinguna (sjá Lk 24.50). Hann virðist hafa afsalað sér tignina um sinn að ganga inn i guðsríki sitt og kosið að halda áfram kærleiksverki sínu þar sem frá var horfið til endurlausnar týndum sauðum sínum í Austurlöndum (þ.e. hinum “10 týndu ættkvíslum Ísraelsþjóðar). Það minnir á þegar Gautama Búddha varð uppljómaður eftir 40 daga hugleiðslu kaus hann einnig að fórna himnaför (Nirvana) sinni í þágu endurlausnar mannsins sem er aðalsmerki bódhisattvans. (Sú saga á einnig hliðstæðu við freistingu Jesú í eyðimörkinni).

Heimildalisti verður birtur í lok III. hluta greinaflokksins.