Meistarar Stóra hvítbræðralagsins
Inngangur
Stóra hvítbræðralagið, eða innra helgivaldið, er félagsskapur andlegra meistara og dýrlinga sem lifa á æðri tilverusviðum eftir að hafa staðið próf og þolraunir úr skóla lífsins og lokið þróun sinni á jörðinni. Í Opinberunarbókinni (7.13-17) er vísað til þeirra: “Þessir sem skrýddir eru hvítu skikkjunum… frammi fyrir hásæti Guðs.” Hvíti liturinn vísar til hreinleika árubliksins.
Spámenn Biblíunnar og annarra trúarbragða eru talsmenn hvítbræðralagsins. Meistararnir eru eldri bræður okkar og systur sem vísa veginn til eilífs lífs. Á meðal þeirra má nefna Gautama Búddha, Maitreya, Jesú Krist, Kúthúmi (betur þekktur sem heilagur Frans frá Assisí og Pýtagóras), El Morya (þ.e. Abraham og Akbar mógúlakeisari), St. Germain (þ.e. heilagur Jósef, Roger og Francis Bacon), Hilaríon (þ.e. postullinn Páll), erkiengilinn Mikjál, Saraþústra, Móðir María og fleiri þekkt sem óþekkt nöfn. Fyrir okkur liggur að feta í fótspor þeirra og stíga til himna þegar við höfum náð valdi á lögmálum lífsins og innt af hendi rúmlega helminginn af karma-skuldbindingum okkar (sjá grein hbraga um endurgjalds- og endurburðarkenninguna í Biblíunni á http://hugi.is/dulspeki/articles.php?page=view&contentId=2123524 ). Þá erum við laus úr viðjum efnisheimsins og hringrás fæðinga, synda, sjúkdóma, elli og dauða. Í jógafræðum eru slík himnesk tilverusvið lýst með orðunum Sat-Chit-Anandam sem þýðir al-viska, al-vitund og al-sæla. Við höldum áfram að þroskast í sjöunda himninum því enginn endir er á þróuninni.
Meistararnir veita mönnunum innblástur og innri leiðsögn í listum, vísindum, menntun, stjórnun og andlegum málum svo eitthvað sé nefnt. Þeir ásamt öðrum himneskum hersveitum vinna að framþróun lífsins í samvinnu við lærisveina sína í efninu og mannkynið óháð kynþætti, trúar- og þjóðfélagsstöðu.
Meistarar sjögeislanna
Hvítt ljós guðdómsins greinist í sjö aðal ljósgeisla sem líkja má við litróf regnbogans. Samspil þeirra mynda hljómkviðu himinhvolfanna (e. The Music of the Sphers). Heimspekingurinn og stærðfræðingurinn Pýtagóras taldi að stærðfræðileg uppbygging tónlistarinnar fæli í sér lykilinn að gerð alheimsins. Sköpunarsaga Biblíunnar í fyrstu Mósebók fjallar á táknrænan hátt um sköpun heimsins fyrir tilverknað sjögeislanna. Hver ljósgeisli hefur ákveðna eiginleika sem hægt er að tileinka sér með andlegri og verklegri ástundun og þjálfun.
Yfir hverjum geisla ríkir chohan, þ.e. meistari eða drottinn sem stjórnar starfsemi hans í samvinnu við aðra meistara og lærisveina þessa heims og annars auk englasveita sem þeir hafa í sinni þjónustu. Meistararnir leiðbeina mönnunum við að ná stjórn á eiginleikum geislanna sem hann sjálfur hefur fullnumið sig í á mörgum lífskeiðum. Bæði fyrir og eftir himnaför sína hefur hann hlotið embættisvígslu sem stórmeistarinn Maha Chohan veitir honum. Sérhver meistari sjögeislanna hefur athvarf á “ljósvakasviðinu” (eteríska sviðinu) yfir vissum stað á jörðinni hliðstætt því sem gerist á meðal erkienglanna (sem lesa má í dulspekigreinum á þessum vef um englana eftir hbraga).
Virkni sjögeislanna
Sérhverjar sjö aðal orkustöðva mannsins stjórnast af ákveðnum geisla. Hver geisli stendur fyrir eina þróunarbraut. Einn geisli og annar undirgeisli eru ríkjandi hjá sérhverjum einstaklingi en áður en hann getur gengið í gegnum upprisuna og orðið meistari á andlega sviðinu verður hann að hafa náð vissu valdi yfir öllum geislunum. Því er algengt að menn hafi í gegnum mörg lífskeið öðlast færni á mörgum sviðum þó að einhverjir hæfileikar skeri sig úr sem gefa vísbendingu um á hvaða geisla hans þróunarbraut liggur.
Á hverju þróunartímabili jarðarinnar er ákveðinn geisli ríkjandi. Skipta má þessum tímabilum í sjö ættstofna manna (root races) sem greinast í sjö ættbálka og ættkvíslir allt eftir samspili geislanna. Ég kem inn á þessi þróunartímabil í greinum mínum um sköpunarsögu Biblíunnar í greinasafni mínu á þessum vef sem sést með því að smella á http://hugi.is/dulspeki/articles.php?page=byuser&user=hbraga .
Dulspekingurinn og sjáandinn Madame Helena P. Blavatsky, hefur fjallað all ítarlega um þróunarsögu heimsins og mannsins í þessum anda (sjá The Secret Doctrine). Önnur merk kona Alice Bailey, sem var farvegur fyrir tíbetanska meistarann Djwal Kul, hefur skrifað mörg verk um sjögeislana sem sum hver hafa verið þýdd á íslensku.
Hin heilaga þrenning: Vilja-kraftur, viska og kærleikur
Geislameistararnir ásamt uppstignum meisturum og öðrum jarðneskum sonum og dætrum Guðs eru fulltrúar fyrir kristsvitundina og VISKU Sonarins, þ.e. lögmál Orðsins (logósar) sem er táknað með gulum lit. Hjá hindúum stendur hið samstofna orð Krishna (Vishnú) fyrir kristsvitundina og Dharma á meðal búddhamanna.
Tívarnir ásamt höfuðskepnunum og byggingasmiðum náttúrunnar, frumgervisverunum (þ.e. vættum á borð við álfa, dverga, vatnadísir og loftanda), standa fyrir VILJA-KRAFT og hugarorku Guðs, föður-móður og skapara himins og jarðar, táknað með bláum lit. Þeir eru nefndir elóhímar í fyrstu Mósebók, sjö andar Guðs í Opinberunarbókinni og morgunstjörnurnar sem sungu saman í upphafi, skv. Jobsbók.
Erkienglarnir og englasveitirnar mynda farveg fyrir guðdómlegan KÆRLEIKA heilags anda og tilfinningasviðið, táknað með rauðgulum lit.
Fyrir álfum og öðrum frumgervisverum á það fyrir að liggja að þróast í það að verða tívar á hliðstæðan hátt og erkienglar eru háþróaðir englar og börn Guðs sem endurfæðast sem synir og dætur Guðs þegar þau hafa náð kristfyllingu meistaranna.
Krist-sjálf mannsins í hjartaorkustöðinni er samsett úr þremur þáttum heilagrar þrenningar sem mynda þrígreindan lífslogann, gulan, bláan og rauðgulan. Til að ná kriststiginu þarf lífsloginn í manninum að hafa náð fullum styrk og samstillingu.
Í samræmi við guðlegt eðli mannsins og frjálan vilja er hann þátttakandi í sköpunarvekinu (sbr. 1M 1.26-28). Í þeim tilgangi hefur hann englana og frumgervisverurnar í sinni þjónustu sem hann getur beislað með tilfinninga- og hugarorku sinni. Misbrestirnir í lífi mannsins og misnotkunin á náttúrunni stafar af því að hann hefur misnotað þessi öfl vísvitandi eða óafvitandi. Með andlegri ástundun lærist manninum að hafa stjórn á huga sínum og tilfinningum (sbr. jóga) sem gerir honum kleift að verða virkari og uppbyggilegri í framvindu lífsins. Það þýðir að maðurinn þarf að læra rétta beitingu á innri lögmálum náttúrunnar, sem geislarnir standa fyrir, í samræmi við guðs vilja sem andlegu meistararnir standa fyrir hver á sinni þróunarbraut.
Heilög þrenning, sem mannsandinn, englaríkið og tívaveldið mynda, starfa í sameiningu við að stigminnka krafta innri sólarorkunnar niður á efnissviðið okkar og gæða lífinu í efninu eiginleikum guðdómsins. Stóra hvítbræðralagið hefur undir höndum stjórnun lífsþróunarinnar í umboði allífsins.
Í næstu greinum geri ég betur grein fyrir meisturum sjögeislanna, tvíburasálum þeirra, og öðrum slíkum sem gegna háttsettum embættum á vegum innra helgivalds sólkerfisins, og hvaða störfum og skyldum þeir hafa að gegna.
Helstu heimildir:
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Book&strType=Detail&strCode=7100&mo=bs&epag
Hvíta Bræðralagið. Helgistjórn jarðarinnar. 3. útg. Ljósheimar, Hverfisgötu 105, 101 R.