Þessa ritgerð fyrir kristnifræði aðstoðaði ég 14 ára dóttur mína við að skrifa fyrir nokkrum árum síðan. Rakst á hana við tiltekt í “gagnagrunni” mínum, og þótti hún skemmtilegur lestur, einfalt og jafnframt einlægt. Vona að einhverjir fleiri hafi gaman af…
INNGANGUR
Kristin trú í öllum sínum myndum er fjölmennasta trú veraldar. Alls er talið að rúmlega milljarður manna um allan heim aðhyllist kristna trú. Kristið telst allt fólk sem trúir á kenningar Jesú frá Nazaret, upprisu hans og jafnvel endurkomu.
En hver var þessi Jesús, afhverju er hann enn í dag svona dýrkaður og dáður, hvað er kristin trú, og afhverju erum við kristin?
Þessum spurningum munum við nú reyna að svara að einhverju leyti:
UPPRUNI TRÚARINNAR
Kristin trú á uppruna sinn í hinum fornu trúarbrögðum miðausturlanda, þá sérlega gyðingdómi. Það sýnir sig best líklega best á því að Gamla testamenti Biblíunnar er enn þann dag í dag miðpunktur gyðingatrúar. Munurinn á gyðingatrú og kristni er í aðalatriðum sá að Gyðingar viðurkenna ekki að Jesú Kristur hafi verið “Messías”, hinn heilagi maður, og Nýja testamentið er þess vegna ekki hluti af þeirra trúarsetningum.
En hvernig skyldi þetta svo hafa byrjað? Hvað varð til þess að Nýja testamentið var skrifað og þessi nýja trú varð svo vinsæl? Allt byrjaði þetta með einum manni, og við hann er trúin kennd:
Jesú Kristur
Tímatal okkar miðast við fæðingu Jesú Krists, og það segir okkur að nú eru um það bil 2000 ár síðan. Hann fæddist í því landi sem þá hét Júdea, en skiptist í dag á milli Ísraels, Jórdaníu og heimastjórnarsvæða Palestínumanna.
Í þá daga bjó í landinu þjóð Gyðinga, en samkvæmt Gamla testamentinu var þetta land hið “fyrirheitna land” Gyðinga, og þangað átti Móses að hafa leitt þjóð sína úr ánauð í Egyptalandi löngu áður.
Biblían, og einnig aðrar heimildir, svo sem rómverskar, segja okkur ýmislegt um Jesú Krist og ævi hans. Júdea var hluti af Rómverska heimsveldinu, og rómverskt herlið var staðsett í landinu til að halda friðinn og tryggja hlýðni Gyðinga við keisarann. Þeir sem ekki trúa því að Jesú hafi í raun og veru verið heilagur kraftaverkamaður hafa stundum bent á það að mjög auðvelt sé að fá fólk til að trúa á sig og fylgja sér í löndum þar sem jafn órólegt er eins og var í Júdeu á tíma Jesú Krists. Og kannski hefur það átt sinn þátt í því hversu frægur hann varð strax meðan hann lifði.
Jesú Kristur kenndi mönnum að umgangast aðra menn af kærleika og tillitssemi, og einnig að Guð væri miskunnsamur og reiðubúinn að fyrirgefa. Það samræmdist ekki trú Gamla testamentisins, þar sem Guð gat oft orðið reiður og refsað mönnunum með ýmsum aðferðum.
Jesú tókst, hvort sem það var viljandi eða ekki, að safna í kringum sig stórum hópi af fylgismönnum sem trúðu því að hann væri sjálfur sonur Guðs og sá “Messías” sem gamla trúin boðaði. Það þótti æðstu prestum Gyðinga vera guðlast, auk þess sem þeir óttuðust um valdastöðu sína hjá þjóðinni. Þeir vildu ekkert frekar en að losna við hann.
En þeir þorðu ekki að losa sig við hann sjálfir, og þess vegna fengu þeir aðra til að gera það fyrir sig. Þeir töldu Rómverjum trú um að Jesú væri þeim hættulegur, og svo fór að lokum að rómverski landstjórinn Pontíus Pílatus fékkst til þess að láta krossfesta hann.
Og þannig lét Jesú Kristur lífið. Talið er að hann hafi verið um 35 ára gamall þegar hann var krossfestur. Hann hafði valdið heilmiklum óróa í heimalandi sínu, og nú héldu bæði prestar Gyðinga og Rómverjar að þeir væru lausir við hann að eilífu. Þeim hefði ekki getað skjátlast meira…
ÚTBREIÐSLA TRÚARINNAR
Það má kannski segja að vel hafi komið á vondan, því kristni breiddist fyrst út um Rómaveldi, þrátt fyrir mikla andstöðu margra keisara og ofsókna á hendur kristnum mönnum. Upprunalega voru það lærisveinar Jesú sem sáu um að breiða út trúnna, og sögðu þeir fólki að Jesú hefði í raun risið upp frá dauðum og myndi snúa aftur einn daginn.
Jafnvel ekki geðveikustu keisurum Rómaveldis, svo sem Kaligúla og Neró, tókst með fantaskap sínum að útrýma kristni né að hefta útbreiðslu hennar. Trúin fékk sífellt fleiri áhangendur, og að lokum var svo komið að jafnvel sjálfur keisarinn gerðist kristinn. Um það bil 300 árum eftir krossfestingu Krists, gerði Konstantín keisari kristna trú að hinni opinberu trú Rómaveldis. Þannig var kristin trú fest í sessi um aldur og ævi, jafnvel þó svo Rómaveldi klofnaði í tvennt og hryndi nokkrum kynslóðum síðar.
Kristin trú lifði fall Rómaveldis, og breiddist jafnvel enn meira út. Frá Konstantínópel breiddist hún til Rússlands, og frá Róm um alla Norður-Evrópu, og eins og aðrar nýjungar barst hún fljótlega hingað til lands. Íslendingar tóku opinberlega kristna trú árið 1000, við athöfn á Þingvöllum.
KLOFNINGUR TRÚARINNAR
Kaþólska
Fyrsti megin-klofningur kristinnar kirkju varð við klofning Rómaveldis, þegar stofnaðar voru tvær kirkjur, sú Rómversk-Kaþólska í Róm og sú Grísk-Kaþólska í Konstantínópel. Þó að kirkjurnar væru tvær, var lítill ágreiningur um trúnna, trú á Maríu mey og ýmsa dýrlinga var og er helsta einkenni kaþólskunnar.
Kaþólsku kirkjurnar fóru fljótlega að hafa gríðarlegt vald yfir fólki, og að safna að sér gríðarlegum auðæfum. Gott dæmi um vald kaþólsku kirkjunnar er að á miðöldum gat páfinn í Róm hvað eftir annað sent þúsundir manna í herferðir til fæðingarlands Jesús Krists. Þessar herferðir voru kallaðar “krossferðir” og voru mikil blóðböð sem kostuðu mörg mannslíf.
Það var ekki fyrr en á fimmtándu öld sem að öflug mótmæli fóru að heyrast frá fólki gegn ofurvaldi páfans í Róm yfir öllu lífi manna. Þetta leiddi að lokum til alvarlegs klofnings og mikils ofbeldis, einnig hér á landi.
Mótmælendatrú
Mótmælendur teljast allir þeir kristnir menn sem ekki eru kaþólskir, en þeir skiptast í ótal margar kirkjur og hópa. Ein af þeim kirkjum er sú lútherska, en íslenska þjóðkirkjan telst til hennar. Hún er kennd við Martein Lúther, þann sem var upphafsmaður mótmælanna gegn páfanum.
Mótmælendur eiga það allir sameiginlegt að afneita valdi páfans, og telja Maríu- og dýrlingatrú kaþólskunnar andstæða boðskap Biblíunnar. Ofbeldi milli mótmælenda og kaþólikka er sem betur fer nær óþekkt í dag, en er þó ennþá til ekki langt frá okkur, á Írlandi.
Kristin trú í dag
Þó að kristin trú hafi stundum leitt til mikilla hörmunga, hefur hún líklega orðið til mun meira góðs en ills. Kærleiksboðskapur Jesú Krists er það sem uppúr stendur, og menn þurfa ekki endilega að vera strangtrúaðir til að kunna að meta hann.
Kristin trú mótar þjóðfélag okkar og margra annara meira en okkur gæti grunað við fyrstu tilhugsun, og mun líklega halda því áfram um langan aldur. Flest reynum við að haga lífi okkar sem allra mest í anda Boðorðanna tíu og Gullnu reglunnar, og þegar við höldum jólin eða páskana hátíðleg minnumst við alls þess góða sem kristin trú boðar okkur.
HEIMILDASKRÁ:
Ritgerðin var unnin uppúr eftirtöldum bókum:
Saga mannkyns, Ritröð AB: Bindi 3 – 4 –5 – 6 – 8
Lexicon Universal Encyclopedia (1988 útgáfa); Kafli: Christianity
Íslenska alfræðiorðabókin, Örn & Örlygur, 1989, bls. 318
Biblían
_______________________