Orðið engill er dregið af gríska orðinu aggelos og latneska orðinu angelus sem hvort tveggja þýðir “boðberi, sendiboði Guðs”. Hugmyndir um engla er ævaforn og að finna í ólíkum trúarbrögðum og menningum. Englar eru ósýnilegar himneskar verur sem líta út fyrir að vera vængjaðir enda sjást þeir oft á lofti, eins og venjulega kemur fram í listaverkum, en það eru ljósgeislar sem líkjast fjöðrum. Vængirnir tákna einnig að englarnir séu andaverur. Einnig er þeir oft málaðir með ljósbaug. Þeir geta birst sem í eldsloga þar sem þeir eru ljósverur. Englar í Biblíunni er jafnan líst í klæðnaði og bera vopn og annan búnað sem var þekktur á þeim tímum. Aldur þeirra er meiri en sköpun heimsins segir til um (sbr. 1M 1.26; Job 38.7).

Hlutverk þeirra er að gæða sköpunarverkið eiginleikum Guðs. Þeir umklæðast ljósorku guðdómsins og gera hana aðgengilega mönnunum, “…þar koma englar fram sem meðalgangarar tveggja heima, himins og jarðar, hins sýnilega og ósýnilega” (Karl, s. 29). Þeir bera ljós og yl frá Guði til manna og vistarvera þeirra. Þeir eru framkvæmdavald lögmáls Guðs á jörðinni. “Gyðingar töldu lögmálið gefið fyrir meðalgöngu þeirra, og því er reyndar haldið fram í Nýja testamentinu” (Karl, s. 35). Þeir hafa ekki frjálsan vilja eða sjálfstæða hugsun þar sem þeir eru fyrst og fremst verkfæri í höndum almættisins. Svo virðist þó vera að sumir englir hafi haft frjálsan vilja sem þeir hafi misnotað en meira um það síðar. Í Biblíunni hafa þeir birst jafnt einstaklingum sem heilum þjóðum. Englar eru vinir í vanda, leiðbeina og vernda og vara við, hugga í neyð, koma til hjálpar, styrkja, kenna og græða sár og veikindi, en líka til að áminna og jafnvel refsa.

Í Biblíunni er oft talað um engil og Guð sem samheiti, þ.e. “ýmist að engill Guðs geri hlutina eða flytji boðskapinn eða Guð sjálfur… þá er átt við að þeir séu verkfæri vilja hans, og eitt með honum í vilja og verki” (Karl, s. 14,27). Þetta má líka túlka sem svo að Guð miðli boðskap sínum í gegnum englana líkt og hann gerði fyrir munn spámannanna í Gamla testamentinu (GT).

Eðli þeirra gerir þeim fært að blása anda Guðs í efnið sem veldur djúpstæðum breytingum á líkama og sál manna sem oft er kallað kraftaverk. Þeir fylla hugi okkar og hjörtu sterkum tilfinningum trúar, vonar og kærleika, heiðarleika og heilindum, dirfsku, sannleika og frelsis, miskunnar og réttlætis, og hverjum þeim eiginleika sem eignaðar eru hreinleika Guðs.

Fjöldi englanna er ótölulegur. Svo virðist vera að hverjum manni sé úthlutað verndarengli, sbr. “Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum” (S 91.11; sjá einnig Mt 18.10). Jafnvel heilum þjóðum er úthlutað sérlegum verndarenglum eins og fram kemur um för Ísraelsmanna úr Egyptalandi til fyrirheitna landsins þar sem allir óvinir þeirra voru stráfelldir (sjá 2M 23.20; 3M 20.16).

Það er kunn alþýðutrú að fólk verði að englum eftir upprisuna. Biblían boðar að menn verði englum jafnir og líkir í hátterni en menn hafi líkama en englar ekki (sjá Lk 20.35-36). Guðspekin kennir að hluti mannkynsins færist inn á þróunarsvið englaríkisins eftir upprisuna en flestir haldi áfram sinni mannlegu þróun. Hins vegar geta englar birst í mannslíki og gengið um á meðal manna svo það er aldrei að vita nema besti vinur okkar eða ókunnugur sem á vegi okkar verður sé engill í mannsmynd, sbr. “Gleymið ekki gestrisninni, því vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita” (Hebr. 13.2).


Er rétt að biðja til engla?

Það er nokkur ágreiningur um það innan kirkjudeilda hvort rétt sé að biðja til engla í stað þess að snúa sér beint til Guðs fyrir meðalgöngu Krists, sbr. varnaðarorð Páls postula (Kól 2.15-18; 1. Tím 2.5-9). Hins vegar stendur í Jakobsbréfi (5.16) að menn eigi að biðja hver fyrir öðrum. Því væri hægt að snúa sér til dýrlinga og guðsmóður með bænarefni sín. Katólska kirkjan boðar einnig að þar sem englar eru sendiboðar Guðs beri þeir bænir manna til hans og framkvæmi vilja hans þar sem þeir eru verkfæri Guðs (sjá Job 5.1; 33.23; Opb 8.4). Þar sem englar gegna sérhæfðu hlutverki virðist liggja beint við að snúa sér til þeirra með bænarefni sem við á hverju sinni. Auk þess höfða englar mismunandi til manna þannig að ekki er óalgengt að menn snúi sér til “uppáhaldsengla” sinna. Engin takmörk virðast vera fyrir því hvaða gagni englar geta komið sem svar við fyrirbænum og áköllum. Það er því öllum í hag að læra meira um þá.

Aðalheimild:
http://www.tsl.org/Angels/Angels.asp


Englaflokkar

Englar skiptast í marga flokka. Þeir marka útgeislanir guðdómsins á mismunandi stigum frá himni til jarðar. Í síðgyðingdóminum eru nefndir níu flokkar. Efst komu serafar, þá kerúbar, síðan hásæti eða trónar, herradómar, dyggðir, tignir, máttarvöld, erkienglar og að síðustu englar. Hér mun vera fjallað um þá flokka sem mest er um getið í Biblíunni, apókrýfu bókum og dulfræðum, þ.e. serafa, kerúba og erkiengla. Serafarnir og Kerúbarnir virðast standa næst Guði og englarnir næst mönnunum.

Serafar þjóna fyrir altari Drottins í innri kjarna sólarinnar en þaðan geisla þeir í baugum út frá sólinni um alla veröld. Í GT er sagt að serafar syngi án afláts: “Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð.” (Jes 6.1-3,6,7). Þeir eru sagðir hafa sex vængi og loga af einskærri ást. Þeir brenna burt óhreinindi og eiturefni sem valda sjúkdómum, mengun og annarri óáran – og er gott að heita á þá til þess. Serafar taka þátt í vígsluathöfn presta og annarra þjóna Guðs. Foringi þeirra heitir Justínus. Jesús sjálfur umgekkst mikið serafa sem gerði honum kleift að reka út illa anda og gera kraftaverk. Einnig þjóna þeir hinum upprisna meistara Serafis Bey, sem var upphaflega einn af þeim, í musteri upprisunnar yfir Lúxor í Egyptalandi.

Aðalheimild: Saint Germain on Alchemy, s. 451-453.


Kerúbar eru verndarar sem standa vörð um lífsins tré í Paradís. Guð “opinberast með eldi… Ef verk einhvers brennur upp, mun hann bíða tjón” (1 M 19.24-26; 2M 33.20). Sjálfur mun hann frelsaður verða, en þó eins og úr eldi“, sagði Páll postuli (1Kor 3.13-15). Til þess að komast í gegnum eldskírnina og öðlast eilíft líf þarf meðalgöngu kerúba sem virka sem ”andlegir straumbreytar", þ.e. hleypa engum óverðugum inn i aldingarðinn Eden sem ekki hefur ummyndast í ljósi guðdómsins. Myndir af kerúbum voru í musteri Gyðinga, “í hinu allra helgasta, yfir sáttmálsörkinni, kistunni þar sem boðorðatöflurnar voru varðveittar” (Karl, s. 46; sjá 2 Mós 25.18-20). Í Esekíel (1.4-28) koma fram fjórar táknmyndir kerúbanna, maðurinn, nautið, fuglinn og ljónið. Í 2. Samúelsbók (22.11) er sagt að Drottinn ríði á kerúbum.

Aðalheimild: Saint Germain on Alchemy, s. 378-379.


Aðrar heimildir:


http://en.wikipedia.org/wiki/Angel
Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.
Erkienglarnir Mikjáll, Gabríel, Rafael og Úríel í Hugvekjum séra Sigurðar Ægissonar, 25. September; 2. 9. 16. og 23. Október, Morgunblaðinu, 2005.
Fyrirlestrar á netinu um erkienglana eftir Elizabeth C. Prophet: http://www.tsl.org/tsln
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Ascended+Masters&strType=Detail&strCode=7100&mo=bs&epag
Mark and Elizabeth C. Prophet. Saint Germain on Alchemy. Formulas for Self-Transformation. Summit University Press. 1993.
http://www.newadvent.org/cathen/01476d.htm


Ýtarefni:

Anonymus: One hundred saints. [Textinn er fenginn úr riti Butlers: Lives of the saints.]
David Farmer: Oxford dictionary of saints.
Donald Attwater og Caterine Rachel John: The Penguin dictionary of saints.
Ýmsir: Encyclopedia of early Christianity.
George Ferguson: Signs and symbols in Christian art.
Gustav Davidson: A dictionary of angels.
James R. Lewis og Evelyn Dorothy Oliver: Angels A to Z.
Joan Comay og Ronald Brownrigg: Who’s who in the Bible.
John J. Delaney: Dictionary of saints.
Joseph Gaer: The lore of the New testament.
Joseph Gaer: The lore of the Old testament.
Joseph Vann (ritstjóri): Lives of saints.
Karl Sigurbjörnsson: Táknmál trúarinnar.
Malcolm Day: 100 saints. A treasury of their lives and times.
Merriam Webster’s encyclopedia of world religions
Rosemary Ellen Guiley: The encyclopedia of angels.