Inngangur:
Ég þykist vita að margur hugverjinn hafi látið hugfallast og þrotið örendi til að lesa samnefnda grein um “Aðförina að Láru miðli”. Ég tók mig þess vegna til og stytti greinina þannig að lengd hennar ætti ekki að fæla neinn frá. Þess má geta að þessi útgáfa birtist nær óbreytt í gær, 3. nóvember, í Fréttablaðinu! Þar sem ég býst við að hugverjar, sem og aðrir netverjar, lesi helst ekki neitt annað en það sem stendur á netinu og textann við myndbönd og allra síst námsbækur sínar, tel ég ómaksins vert að birta styttu útgáfuna af greininni um Láru miðil í þessum miðli.
AÐFÖRIN AÐ LÁRU MIÐLI
Lára Ágústsdóttir var á sínum tíma okkar þekktasti miðill. Undir lok ferils hennar var flett ofan af meintum svikum hennar og mátti við það sæta miklum hremmingum. Útgáfa nýrrar bókar um Láru miðil orkar tvímælis að mati greinarhöfunds
Undirritaður kynntist Láru Ágústsdóttur á miðilsfundi hennar. Hún lýsti þá fyrir mér tíkinni minni sem mér jafnan fylgir. Í annað skipti kom fram bróðir minn sjódrukknaður með þeim hætti að vart verður um villst. Uppfrá þessu urðum við Lára nánir vinir síðustu æviár hennar. Lára var ennfremur mikill sjáandi því að á Akureyri var hún iðulega beðin um að finna tapaða gripi. Einnig mun hún hafa læknað konu sem haldin var ólæknandi meinsemd. Morguninn eftir að Lára var öll lét hún mig vita með undursamlegum hætti.
Þann 24ða sept. sl birtist grein í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni “Játningar Láru miðils”. Hún vísar til meintra svika Láru sem nánar er lýst í samnefndri bók eftir Pál Ásgeirsson sagnfræðing sem kemur út um jólin. Fram kemur að Páll hafi “grafið upp” gamalt handrit eftir Láru sem í raun er TRÚNAÐARSKJAL upp úr læknaskýrslu! Fleiri greinar hafa birst um bókina í blöðunum.
Páll beinir einnig skeytum sínum að Sálrannsóknarfélaginu, sbr: “Þegar nær dró endalokum varð spíritisminn meira í ætt við trú”. Ég fæ ekki betur séð en að “spíritisminn” lifi góðu lífi sem aldrei fyrr.
Páll segir: “Hún ljóstrar upp a miðjum ferli sínum að hún hafi enga miðilshæfileika”. Ekki verður þetta lesið út úr handriti eftir Láru sem hún lánaði mér eitt sinn. Það varð síðar efniviður í ævisögu um hana eftir Svein Víking. Aftur á móti lýsir hún mætavel þeim hremmingum sem hún varð að þola í kjölfar svokallaðs “svikamáls” – og skyldi engan undra.
Var Lára þá tvísaga? Nema þessar “játningar” hafi verið falsaðar eða knúðar fram. Eftir yfirheyrslu var Lára innilokuð á Kleppi - vegna órökstudds gruns um fjársvik! Jafnframt var heimili hennar tvístrað og börnin sett á fósturheimili þar sem þau fengu all-misjafnt atlæti. Vitað er að fangar í innilokun játa greiðlega á sig hvaðeina, þarf ekki pyntingar til, sbr rannsóknir Gísla Guðjónssonar réttarsálfræðings, og Lára þurfti að komast til barna sinna. Ákærða naut ekki neinna réttinda sakbornings.
Lára var ekki allskostar ánægð með bók Sveins. Lára sjálf lagði ekki nægilega öll spilin á borðið varðandi aðdraganda “svikamálsins” sem svo var nefnt. Ýmislegt kann þar að hafa komið til og henni ekki hægt um vik.
Páll segir: “Hún átti að vera þeim kostum gædd að æla úr sér útfrymi. Úr þeim urðu síðan til líkamningar, látið fólk og dýr… “
Hvernig hefði bláfátæk kona haft efni á slíkum útbúnaði svo-vel gerðum að blekkti fjölda manns á mörgum fundum? Beitti Lára múgsefjun? Í læknisskýrslu kom fram að Lára væri “haldin flogaveiki” sem átti að skýra hvers vegna hún féll óforvarandis í miðilsástand er hún datt sem barn að aldri af hestbaki og meiddist við það. Ætti Lára svo í flogaveikiskasti að “möndla fram og til baka með dýrastóð” til blekkingar?
Sannleikurinn er sá að sambýlismaður Láru var að sveifla dulum og misbeitti við það tiltæki sitt ungri dóttur þeirra – að öllum líkindum Láru sjálfri óvitandi þar sem hún var í leiðsluástandi. Öllum sem sitja trans-fund er í lófa lagið að hrista slík “svik” framúr erminni. Páll meira en gefur í skyn að Lára hafi farið að stunda miðilsstörf til að afla fjár og frama. Yfirleitt fara menn ekki af stað sem miðlar fyrr en eftir þó nokkrar fortölur.
Ævinlega áðuren Lára hélt sína miðilsfundi sá hun fyrir sér hvíta hönd á lofti – merki þess að öllu væri óhætt. Hönd sem hún þekkti frá barnæsku sinni. Í eitt einasta skipti brá hún útaf þessari reglu sinni. Hvað henni þá gekk til það veit ég ekkert um. Þrýstingur eða auraleysi? Í þetta eina skipti – og þá fór sem fór.
Lára var örugglega í hópi færustu miðla hérlendra sem erlendra með hundruðir velheppnaðara funda að baki. Er sanngjarnt að eitt óhapp sem hún mun enga hlutdeild hafa átt í svipti hana ærunni þessa heims og annars? Myndi hæfileikaríkur miðill láta hafa sig í svo auðrakin svik? Og hefði hann einhverjar ástæður eða þörf til slíks?
Páll minnist á Englandsför hennar til að gangast undir rannsókn en hafi fljótt verið send heim vegna meintra blekkinga. Svo kyrfilega var bundið um hnútana við rannsóknina að ómögulegt hefði verið fyrir Láru að koma við svindli.
Í kjölfar þess varð Lára að sæta illræmdum ofsóknum af hendi yfirvalda eins og áður var getið. Þegar Lára kom út loksins “frjáls” manneskja voru henni allar bjargir bannaðar: Mannorðslaus, heimilislaus, börnum svift, peningalaus, vina- og stuðningsmannalaus. Hún var á leiðinni í sjónn þegar einhver óþekktur verndarandi kippti henni til baka og sneri við – Guði sé lof fyrir það.
Er nú ástæða til að rífa upp þessa sáru und og eiga afkomendur hennar engan rétt hvorki lagalega eða siðferðilegan? Hvað gengur Páli Ásgeirssyni til að höggva í sama knérunn? Slá sig til riddara með ómaklegum skrifum og hagnast í þokkabót?
Á netinu má lesa þessa grein í fullri lengd: www.hugi.is/dulspeki.
Skúli Magnússon,
yogakennari
Sími: 5623785