Eftirfarandi grein birti ég fyrir vin minn Skúla Magnússon jógakennara sem hann er höfundur að. Greinin er varnarræða Skúla fyrir Láru miðil sem var á sínum tíma okkar þekktasti miðill. Undir lok ferils hennar þóttust gagnrýnendur hafa flett ofan af meintum svikum hennar sem hefur verið haft í hámælum í umræðunni í dag með útgáfu nýrrar bókar um hana. Skúli var gamall vinur Láru og þekkti hana bara að góðu einu.
Þann 24ða sept. sl birtist grein í laugardagsblaði Fréttablaðsins (bls 28) [sjá http://www.visir.is/ExternalData/pdf/fbl/050924.pdf eða http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/section?category=THRJU02 ] undir fyrirsögninni “Játningar Láru miðils”. Páll Ásgeir nokkur Ásgeirsson kveðst hafa komist yfir meintar “játningar Láru miðils”. Samkvæmt fylgiriti Morgunblaðsins “gróf hann (Páll) upp gamalt handrit Láru og gefur nú fyrir jólin út bókina “Játningar Láru miðils””.
Páll reiðir all-hátt til höggs. Ekki aðeins rekur hann “svik” Láru heldur telur hann sig hafa burði til að afsanna spíritismann í heilu lagi og þar með annað líf og hverskonar miðlafyrirbæri: “Þegar nær dró endalokum (hvaða endalokum?,SM) varð spíritisminn meira í ætt við trú”. Þetta fullyrðir Páll. En hafi Páll eitthvað fylgst með samtímanum – en lifi ekki í lokuðum ímyndunarheimi, sem hann virðist gera – ætti hann þó að vita og hafa orðið þess áskynja að amk hér á landi lifir “spíritisminn” góðu lífi sem aldrei fyrr. Það er Páll sjálfur sem haldinn er einskonar “trú” – nokkurskonar vantrúar-trú.
Víkjum nú að samtalinu við Pál í Fréttrablaðinu: Hann segir: “Hún skrifaði ævisögu sína að því talið er fyrir Víkingsútgáfuna fyrir sextíu árum”. Síðan segir: “P.Á. ræddi meðal annars við eiginmann Láru, sem sagði hana hafa brennt handritið”.
Lára ritaði vissulega ævisögu sína – eða drög að ævisögu. Séra Sveinn Víkingur ritaði í framhaldinu ævisögu hennar og hafði sjálft handrit Láru sem grunn eða til hliðsjónar. Bókin kom því út og ekki hætt við útgáfuna: Lára miðill, sagt frá dulhæfileikum og miðilsstarfi frú Láru I. Ágústsdóttur. Séra Sveinn Víkingur safnaði og skráði. Kvöldvökuútgáfan h.f. Akureyrir MCMLXII (1962).
Kannist Páll ekki við þessa bók hefir hann augljóslega ekki kannað heimildir sem skyldi. Þessi bók liggur nú hérna á borðinu hjá mér.
Sjálf lánaði hún mér þetta sama handrit á að giska 1970-71 – ánþess ég færi fram á nokkuð slíkt. Að sjálfsögðu las ég það vandlega spjaldanna á milli og skilaði til föðurhúsanna að lestri loknum. Síðan hvað varð af því handriti veit ég auðvitað ekkert um.
Nú sgir Páll “það hafa komið sér á óvart hversu vægðarlaus hún var í garð samferðarmanna sinna. Þó er það ekki síst hversu dómhörð hún er er í eigin garð. Hún ljóstrar upp a miðjum ferli sínum að hún hafi enga miðilshæfileika”, segir Páll svo.
Handrit Láru var skrifað með skýrri og áferðarfallegri rithönd – en fáeinar stafsetningarvillur, en miklu færri en ætla mætti af óskólagenginni manneskju – og ég sjálfur all-vel læs. Handritið sem ég las og frásögn Páls af ævisögu Láru stangast algjörlega á. Gjörsamlega öllu snúið á haus. Hún er ekki “vægðarlaus í garð samferðarmanna sinna” né “dómhörð… í eigin garð”, en hún lýsir mætavel þeim hremmingum sem hún varð að þola í kjölfar svokallaðs “svikamáls” – og skyldi engan undra.
Sú spurning hlýtur að vakna hvort Lára hafi tvíritað endurminningar sínar, eða hvað er Páll að fara - snúið öllu á haus, játað á sig “svik” til þess svo að gefa út hjá Víkurútgáfunni og á eftir útkomu ævisögu Sveins Víkings að hennar eigin forskrift. Trúi hver sem hefir næga heimsku til – kannski Páll sjálfur?
Var Lára þá tvísaga? Nema þessar “játningar” hafi verið falsaðar eða knúðar fram. Þeir sem fylgjast með samtímanum vita að rannsóknir hafa leitt í ljós að fangar í innilokun játa greiðlega á sig vammir og skammir. Hefir íslenskur maður staðið fremst í þeim rannsóknum. Lára var jú innilokuð á Kleppi. Þarf ekki pyntingar til. Lára þurfti að komast út til barnanna sinna. Veit ekki hverskyns er – en víst að Páll hefir lítinn skilning á þessu sem öðru.
Páll Ásgeir segir: “Hún átti að vera þeim kostum gædd að æla (sic) úr sér útfrymi. Úr þeim (sic) urðu síðan til líkamningar, látið fólk og dýr… en þeir sem voru viðstaddir miðilsfundi hjá Láru sáu úlfalda (það hefir verið þröngt um þá í herbergiskytru; SM), fólk úr öllum heimsálfum (ekki mátti minna vera; SM) og heimilisdýr sem hlupu um stofuna”.
Hvernig hefði bláfátæk kona haft efni á slíkum útbúnaði svo-vel gerðum að blekkti fjölda manns á mörgum fundum? Dáleiddi Lára þá fólk í tugavís og hvar lærði hún dáleiðslu, hjá hverjum, og hvernig hefði hún haft ráð á slíkri kennslu, sem sennilega stóð ekki til boða á Íslandi á þeim tíma? Þannig mætti lengi spyrja.
Hlýt ég nú að efast mjög um dómgreins Páls Ásgeirs.
Það sem rétt er í viðtalinu við Pál er þetta:l
1) “… fædd árið 1899 og alin upp í sárri fátækt hjá ömmu sinni og afa” … etc.
2) “…fær starf sem stofustúlka hjá Einari Kvaran”. SM: Nota bene fyrir einskæra fyrirætlan tilviljana.
3) “Lára var ákaflega falleg kona sem hafði mikla persónutöfra”. SM: Næga til að blekkja fólk.
4) “Lára bjó fyrstu fimmtíu ár sín við aðstæður sem fæstir myndu láta bjóða sér”. (SM: Hefði maður eitthvert val?). Hún hraktist á milli húsa og bjó í bröggum.
5) Og að lokum: “Var óheppin í samböndum sínum við karlmenn (alla tíð; SM). Hún eignaðist mörg börn með þremur mönnum” etc.
Það er hinsvegar með öllu rangt að Lára hafi verið “haldin flogaveiki”, þótt samkvæmt læknisskýrslum muni slíku hafa verið haldið fram. Lítum lauslega á það:
Um tólf ára aldurinn á að giska féll Lára óforvarandis í miðilsástand (trans-dá) á hestbaki (svo undarlegt sem það kann að hljóma) og féll við það af baki og meiddist eitthvað. Til að blekkja hvern? Páll svari því. Þetta kann í byrjun hafa verið túlkað svo að hún væri flogaveik. Hefði það síður en svo verið ólíklega til getið. Læknirinn kann að hafa frétt af þessu eða Lára sjálf skýrt honum frá. Síðan túlkar hann miðilshæfileika hennar sem flogaveiki – jafnvel geðveiki. Kannski henni til málsbóta. Læknirinn – að öllum líkum gallharður “raunhyggjumaður” það merkir einfeldnings efnishyggjumaður. Ætti Lára svo í flogaveikiskast að “möndla” fram og til baka með heilan úlfalda? Páll svari því.
Þetta atvik aðeins sýnir ljóslega hversu stefk öfl verkuðu á Láru á þessu sviði annars heims. Páll meira en gefur í skyn að Lára hafi farið að stunda miðilsstörf til að afla fjár og frama. Hverjum dytti slíkt í hug fyrst alls – gjörsamlega hæfileikalausum á þessu sviði, eins og Páll fullyrðir að Lára hafi játað sig síðarmeir – til að afla sér lífsviðurværis. Ætli maður þyrfti ekki fyrst að skynja einhverja hæfileika í þá átt áðuren ýtt er úr vör? Hvað finnst Páli?
Hlutirnir gerast á allt annan hátt með miðla. Við lesum um það aftur og aftur að þeir reyni í lengstu lög að spyrna við broddunum, en finni síg síðan tilknúna að leggja útá þessa (oft erfiðu) braut. Þannig var það og með Láru.
Stendst ég ekki mátið að taka mér í munn talsmáta táninga: “Glætan maður”.
Hernig kynntist undirritaður Láru Ágústsdóttur?
Skólabróðir minn í MA, nú látinn var í kunningsskap við Láru. Hann spurði mig einhverju sinni (kannski oftar en einusinni) hvort ég myndi hafa áhuga á að komast á miðilsfund hjá Láru. Tók ég því að sjálfsögðu feginsamlega. Drjúgan hluta úr vetri var ég á biðlista en komst ekki að. Loks daginn sem við fórum í upplestrarfrí (“dimitteruðum” sem kallað er) fyrir stúdentspróf var röðin komin að mér. Var allt gott um þann fund að segja, en ekkert kom fram varðandi mig sjálfan að mig reki minni til. Við fórum síðan í heimsókn til hennar að stúdentsprófi loknu og hún lýsti fjarstæddri tíkinni minni sem mér jafnan fylgir.
Nú síðan liðu heil 13 ár. Ég vissi til konu sem haldin var meinsemd sem álitin var ólæknandi og ekkert væri framundan nema nema á brott hálft líffæri. Þá var sem hvíslað að mér. Hví ekki að hringja til láru?
Konan var á förum úr landi og hafði tilvísan til læknis í New York sem álitinn var einhver sá færasti á þessu sviði. Nema þegar þangað kom fundust engin ummerki meinsemdarinnar og hefir ekki enn orðið varð þau 35 ár sem síðan eru liðin.
Var einhver að tala um svik og blekkingar? Hverskonar blekkingar?
Ekki er það að undra að uppfrá þessu urðum við Lára nánir vinir síðustu æviár hennar. Og hún treysti mér fyrir endurminningum sínum, þeim sömu og Sveinn Víkingur studdist við er hann reit endurminningar Láru.
En Lára var ekki allskostar ánægð með þá bók. En að mínu mati er alls ekki við Svein að sakast í því efni. Hannn fór nokkuð með löndum sem skynsamlegast var. Og hann átti raunar ekki annars úrkosti. Lára sjálf lagði ekki nægilega öll spilin á borðið varðandi aðdraganda “svikamálsins” sem svo var nefnt.
Ýmislegt kann þar að hafa komið til og henni ekki hægt um vik. Það var annar tíðarandi þá en nú. Í dag hefði hún hæglega leitað til DV eða segjum Mannlífs og “úttalað” sig í opinskáu opnuviðtali. Tilfinningar, fjölskyldu-flækjur og ung dóttir flækt í málið. Fyrrverandi sambýlismaður og tilfinningar í hans garð sem jafnan eru beggja blands í tilfellum sem þessum. Allt kerfið og læknaskýrslur henni í óhag. Hið “ómetanlega” handrit Páls (ef til er) sem knúið hefir verið fram undir þrýstingi og var í algerri mótsögn við hennar eigin frásögn og sannleikann í málinu.
Síðast en ekki síst: Lára sjálf var ekki – og gat ekki hafa verið – vitni að sínum eigin “svikum” – svo mótsagnakennt sem það kann að hljóma. Hún – miðillinn – var auðvitað í transi og gat ekkert vitað um hvað fram fór á meðan.
En nú er löngu tímabært að spilin séu lögð á borðið: Allt velviljað fólk má vita að þáverandi sambýlismaður Láru var að sveifla einhverjum dulum og misbeitti við það tiltæki sitt ungri dóttur þeirra. Já – auðvitað að Láru sjálfri forspurðri.
Lára hélt hundruðir velheppnaðara funda. Er sanngjarnt að eitt óhapp sem hún mun enga hlutdeild hafa átt í svipti hana ærunni þessa heims og annars? Svari páll.
Lára var örugglega í hópi færustu miðla hérlendra sem erlendra. Ýmsir hinna hæfileikaríkustu miðla – ekki bara Lára – hafa gegnum tíðina orðið flæktir í svikamál svokölluð. Það enkennir þessi “svik” – öll að ég hygg – að einkannlega hefir klaufalega verið að verki staðið. Auðvitað vegna þess að þeir hafa sjálfir ekki komið þar að. Öllum sem sitja trans-fund er í lófa lagið að hrista slík “svik” framúr ernminni.
Hvervegna léði Lára mér handrit sitt að ævisögu sinni? Kannski hefir hún séð fram? Aðsinn hlutur yrði bættur – þó síðar yrði. Vonandi er sú stund upprunnin. Og að gönuhlaupi Páls verði snúið til góðs. Tími tilkominn. Svo margt á ég henni upp að inna að hún eigi það margfaldlega inni.
Myndi hæfileikaríkur miðill láta hafa sig í svo auðrakin svik? Og hefði hann einhverjar ástæður eða þörf til slíks? Augljóslega ekki. En allt kann einhvern tímann að hafa gerst – líka það ótrúlegasta. En hverju myndi það breyta? Rafmagnið fór af sumum hverfum Reykjavíkur hérna um daginn. Sannar það að ekkert rafmagn sé til? Já vissulega – sé beitt sömu aðferðafræði og Páll og hans nótar beita: Einn frægur miðill er “tekinn” fyrir svindl. Ályktun: Hann er svikari í eitt skipti fyrir öll og allir aðrir miðlar og slík fyrirbæri í leiðinni. Framhaldslíf ekkert til. Ég hefi aldrei séð nein rök frá samherjum Páls nema þessi. Finnir þú eitt fölnað tré fordæmdu þá allan skóginn.
Ég fékk aftur miðilsfund hjá Láru. Sitthvað merkilegt kom nú fram: Bróðir minn sjódrukknaður kom fram. Haft var á því orð að ég sæi nú ekki mikið. Voru engar vöflur á. Það var umsvifalaust slegið þéttingsfast en jafnframt mjúklega á handarbak mitt. Viðkoman var ekki lík neinu af þessum heim – helst að líkja við lopakemmbu sem samt lét ekki undan. Rann “kemmban” viðstöðulaust gegnum handarbakið eins auðveldlega og vatn hripar gegnum sigti. Veit ég ekki hvaðan sú “kemmba” kom: frá miðlinum, stjórnendum (sem svo eru nefndir) eða frá bróður mínum (einna sennilegast). Ég var ekki dáleiddur – enda hygg ég að ég verði trauðla dáleiddur. Þarna er á ferðinni annarskonar “andefni” en vísindin bollaleggja um. En þetta efni hlýtur að vera af annarskonar þéttleika, bylgjulengd og/eða tíðni en jarðneskt efni.
Mér dettur í hug lítið dæmi vestan af Fjörðum: Maður nokkur var nýlega látinn vestur á Bíldudal fyrir einu eða tveimur dægrum. Eiginmaður föðursystur minnar kom gangandi utanfrá Ketildölum – nánar tiltekið Hóli í Bakkadal. Ekki var sími á bænum og mér til efs hvort búið var að leggja nokkurn síma þangað á þeim tíma. Nema greindur bóndi kemur heim til okkar. Hann segir þá að maður sem hann tilgreindi með nafni hljóti nu að vera látinn því hann hafi gengið í gegnum hann útá Bana – stað rétt utanvið Bíldudal.
Miðillinn sjálfur hefir “fjarvistar-sönnun” einsog sagt væri ef um réttarrannsókn væri að ræða. Hann er í raunverulegu dái líktog sjúklingursem hefir verið svæfður og bíður á skurðarborði. Miðillinn er skilinn frá sinni eigin meðvitund og veit ekki hvað fram fer. Hann hefir lánað líkama sinn og starfstæki um sinn einhverfjum handanað-öflum. Hann getur ekkert framkvæmt af sjálfum sér meðvitað og af yfirlögðu ráði. Hann er því raunverulegur miðill þe einskonar millistykki og kallast því miðill. Hann er alger þolandi þess sem gerist á fundinum (passífur). Þessvegna verður hann ekki gerður ábyrgur hvaðþá sóttur til saka – ekki nota bene með réttu. Slíkt væri hrein fáviska – og það jafnt þótt slík fáviska hafi átt sér stað og það td illu heilli í tilviki Láru.
Miðillinn hefir fjarvistarsönnun meðan hann er í miðilsástandi. Þetta ætti að vera ljóst og skýrt hverju heilvita mannsbarni. En hversvegna þá ekki sumum persónum? Tvennt gæti einkumm komið til: Annarsvegar ofstækistrú afneitarans og hins “naífa” materíalista eða sem er enn verra hrein illgirni.
Mér dettur oft í hug sagan af hrúta-bóndanum: Menn deildu í haustréttum um dilklamb. Hvors kyns það væri. Sumir sögðu gimbur, aðrir hrútlamb. Gekk svo lengi. Þá sagði einn viðstaddur. Nú, hví í ósköpum þuklið þið eigi undir lambið svo við getum haldið áfram drætti? Var þá svo gert. Reyndist vera um gimbur að ræða. Þá gall víð í ákafasta “hrútistanum”: “Nú, mér er andskotans sama – það skal vera helvítis hrútur samt.”
Páll Ásgeir er nákvæmlega í hlutverki “hrútistans” og aðrir afneitarar honum líkir.
“Hún (þe Lára) fór til Englands (rétt er það; SM) í heimsókn (til að gangast undir rannsókn; SM) … en var fljótt send heim enda talin beita blekkingum”. Þetta fullyrðir Páll.
Þetta er einfaldlega lýgi. Hún reyndist vera einhver traustasti miðill sem um getur. Hugsið ykkur nú um eitt andartak: Páll hefir staðhæft að Lára sjálf hafi viðurkennt að hún hefði aldrei haft nokkra miðilshæfileika. Það hefði þurft ekki lítinn kjark til og fífldirfsku að gefa sig undir rannsókn, hafandi verið staðin af svikum, hafandi enga hæfileika sjálf, til þess eins og láta sanna á sig blekkingar og algeran skort allra miðilshæfileika. Heldur Páll að Lára hafi verið svona heimsk? Og er hann svo lélegur rannsakandi að honum komi slíkt til hugar? Eða dettur honum eitt andartak í hug að fólk upptil hópa sé svo skyni skroppið að það sjái ekki í gegnum slíka vitleysu? Hann er meira en lítið fífldjarfur að ætla sér að fara með aðra eins rugl-bók á markað.
Lítum á málið frá öðru sjónarhorni: Þetta sárasaklausa orð “talin”. Hafi hún undir rannsókn – og það gerði hún og hafi hún verið með öllu hæfileikalaus á þessu sviði, hefði hún þá ekki auðveldlega afhjúpast sem slík (með öllum þeim varúðarreglum sem fylgt var og síðar verður að komið)? Væri þá nokkuð “talin” í dæminu? Myndi þá Páll skirrast við að fullyrða (eins andsnúinn og hann annars er í garð Láru): Afhjúpaðist þá að hún BEITTI blekkingum. Þetta þorir Páll augljóslega ekki, dregur því í landi og segir “talin” og dettur um leið um tærnar á sjálfum sér.
Já – Lára fór til Englands mállaus á annað tungumál en íslensku, févana og með miður-góðan túlk með sér. Til að láta afhjúpa sig? Hún var afklædd, látin skipta um föt amk að hluta, leitað á henni, meira að segja leitað í leggöngum ef þar skyldu finnast einhverjar “græjur” – eins niðurlægjandi og slíkt hlýtur að vera fyrir konu og á þeim tímum og óþarft með öllu, síðan klædd í spennitreyju – þe. einhverskonar mussu með framlengdar ermar sem síðan voru knýttar saman og kirfilega festar afturfyrir bak, síðan óluð niðrí stól. Allur skyldi varinn góður. Samt virðast slíkar varúðarreglur ekki slá á vantrúar-þvermóðsku “dogmatískra” og “fundamentalískra” vantrúaðra í sauðahúsi Páls Ásgeirs. Hvernig hefði átt að standa að “svikum” eða blekkingum? Vill Páll útskýra það? Já – hún stóðst öll próf. Ég veit ekki hvort heldur Páll sé að tyggja uppeftir öðrum (meira en nóg var til af illum röddum eftirað “svikamálið” kom til) eða hvort hann býr það sjálfur til að Lára hafi verið “talin” eitthvað (eins traustvekjandi og sú framsetning er).
Það er nú orðið meira en tímabært að víkja að aðförinni illræmdu sem Lára varð að þola í kjölfar hinna meintu “svika”: Lára var færð til yfirheyrslu, síðan lokuð inni á Kleppi. Hun var grunuð um að hafa fé af fólki með prettum. Önnur gat sökin ekki verið. Nu mætti spyrja: Er það venjubundin framgangur í smávægilegum auðgunarbrotum að senda menn á Klepp og halda manni þar föngnum? Og í skjóli hvaða lagabókstafar? Leysa síðan upp heimili manns og senda börnin tvist og bast? Ég veit ekki um neitt annað dæmi. Veit Páll um þau? Getur einhverjum dulist að hér var um hreina aðför að ræða og grófustu tegund ofsóknar og það af völdum yfirvaldanna?
Já – heimilið leyst upp. Börnunum sundrað, þeim komið fyrir hér og þar, útum hvippinn og hvappinn í mis-illt fóstur. Allmennt farið illa með þau, auðvitað misjafnlega – hvergi vel. Það fór auðvitað eftir því hjá hverjum fóstrið var, Pétri eða Páli, Gunnu eða Siggu. Að Láru eigin sögn, sem ég hefi ekki ástæðu til að draga í efa, var svo illa farið með einn dreng að hann beið þess aldrei bætur. Ekki hefir eftirlit barnaverndar-yfirvalda verið beysið.
Þetta lítur allt út einsog samantekin ráð lögreglu og geðlæknis (samþykki hans hlýtur að hafa komið til að vista Láru í þeim húsakynnum sem hann einn var húsbóndi yfir) og jafnvel barnaverndar-yfirvald? En kannski hafa þau bara verið óheppin með fóstur – vonandi. Er þetta ekki nokkuð einstakt? Hvað segir Páll við því. En eitt er víst: Honum finnst ekki nóg að gert – Lára skuli rægð jafnt lífs sem liðin. Samt lítur aumingja maðurinn ekki illa út á mynd – ekkert illmannlegur. Hvað þá? Spyr sá er ekki skilur.
Við tölum nú ekki lengur um “svikamál” Láru miðils. Við nefnum hlutina réttum nöfnum: Aðförina að Láru miðli.
Var nú kyn þótt Lára hefði lagt nafn sitt við hvaða þvætting sem vera skyldi til að losna úr prísundinni með allt kerfið á móti sér til að safna tvístruðu börnum sínum undir sinn kærleiksríka móðurvæng og væri það eitt efst í huga? Hvort hún undirritaði einhvern þvætting eða ekki og þá hvern veit ég ekki um. Eitthvað hlýtur hún að hafa undirritað hjá rannsóknalögreglu.
Dæmd? Vissulega. En hvaða jarðneskur dómstóll getur dæmt í máli þarsem megin-grunurinn snýst um hinstu rök lífs og dauða? Eitt er ég viss um: Í dag hefði málinu verið vísað frá vegna þess að ákærða naut ekki neinna réttinda sakbornings. Meðal annars að láta börn sakbornings líða miklar þrautir fyrir smávægilegt meint auðgunarbrots hins ákærða. Hvað var virkilega á seyði? Þess mætti enn spyrja.
Þá mætti spyrja: Hvað gengur Páli Ásgeiri Ásgeirssyni til? Að höggva í sama knérunn. Að slá sig til riddara með níðskrifum og krækja sér í leiðinni í nokkra skítuga skildinga. Er það svo stórmannlegt? Væri ekki mál að linni?
“Saga Láru er okkar saga”, segir Páll spekingslega: Hvað á maðurinn við? Býst hann til sóknar og vill hefja nýjar nornaveiðar? Það er það sem mér í fljótu bragði virðist liggja í orðunum. Greinilega vill hann allan “spíritisma”, alla miðlastarfsemi dauða, allar lækningarnar. Nei – þvert á móti – við höfum aldrei góðu heilli lent í álíka hremmingum og Lára miðill. Hvað er maðurinn þá að fara?
“Saga spíritismans er saga hefðarfólks (sic) fremur en allt annað”, heldur maðurinn áfram. Nei, alls-ekki – ekki amk hér á landi: Hverskonar þegar alvaran knýr dyra. Páll lifir og hrærist í eigin ímyndunarheimi. Ekki hér á Íslandi amk – ekki hér og nú. Hefir Páll aldrei heyrt Einars á Einarsstöðum eða Margrétar á Öxnafelli getið – svo nefndir séu tveir víðfrægir læknamiðlar. Að vísu báðir látnir, en ennþá starfa fjölmargir og engin endalok framaundan.
Lára miðill var ekki dæmd fyrir að vera “falsmiðill” – dómstóllinn hafði vit fyrir ofsækjendum hennar. En hún var dæmd fyrir auðgunarbrot. Ég hygg að ég geti fullyrt að í dag hefði máli hennar verið vísað frá dómi á þeirri forsendu að aðfarirnar hefðu ekki verið forsvaranlegar og sakborningur ekki notið löghelgaðra réttinda, dæmd áðuren dómur var uppkveðinn fyrir rétti. Lára verður því að teljast saklaus að skilningi nútíðarmanna.
Þegar Lára kom út loksins “frjáls” manneskja voru aðstæður hennar svo slæmar að maður getur ekki hugsað sér þær enn erfiðari: Mannorðslaus, heimilislaus, börnum svift, peningalaus, vina- og stuðningsmannalaus. Hún var á leiðinni í sjónn þegar einhver óþekktur verndarandi kippti henni til baka og sneri við. Hún sneri við og hélt til lands og til lífisns á ný – Guði sé lof fyrir það.
Enn er spurt: Er nú ástæða til að rífa upp þessa sáru und og eiga afkomendur hennar engan rétt hvorki lagalega eða siðferðilegan?
Hið raunverulega mál – “svikamálið” sjálft tilefni allra þessara hörmunga, var ofur-lítilfjörlegt: Einhver varð til þess að veifa dulum meðan hún var í miðilsdái að henni sjálfri forspurðri. Það var allt og sumt: Það er deginum ljósara.
Var Lára einnig lækningamiðill? Hún hlýtur að hafa verið það, einsog mín eigin persónulega reynsla er skýrast dæmið um – eða öllu heldur hefði getað orðið. Vegna hins illa orðspors sem komið hafði verið á hana, mun ekki hafa verið leitað til hennar – amk ekki sem skyldi. Hvað eiga tilræðismenn hennar þá hugsanlega mörg mannslíf á samviskunni óbeint? Mætti líka velta fyrir sér, því getur enginn svarað.
Enn Lára var ennfremur mikill sjáandi. Skal það nú skýrt hvað við er átt. Ég er staddur á Patreksfirði, hún á Akureyri. Ég tapaði fingurgulli (hring). Hún segir mér í óspurðum fréttum að hringurinn sé tapaður. Í framhaldinu skýrir hún mér freá því að á Akureyri sé iðulega verið að hringja í sig útaf töpuðum gripum. Þá gátu menn notfært sér hæfileika hennar þótt mannorðslaus væri. “Það er meira að segja verið að hringja í mig til að njósna um samdrátt unglinga. Með hvaða stelpu er strákurinn minn? Auðvitað svara ég ekki slíkum beiðnum.” Þetta tjáði hún mér. Þessi hæfileiki mun kallast “fjarskyggni”.
Páll Ásgeir og sálufélagar hans kalla ég einfeldnings (naíva) materíalista eða “fundamental” (ofstækissinnaða) vantrúar-trúarmenn. Það eru menn sem líta framhjá staðreyndum þegar þær samrýmast ekki fordómum þeirra og óskhyggju. Ég er hinsvegar skynsemistrúarmaður og þarf ekki aðra trú að mér finnst. Skynsemistrúarmenn “feisa” staðreyndir og hverjar þær sannanir sem yfirgnæfandi líkindi benda til. Miðilsfyirbæri hverskonar, annað líf og meira að segja fyrra líf (svo ég gangi frammaf einhverjum) eru slíkar staðreyndir. Líkindin eru einn á móti einhverri stjarnfræðilegri tölu að um tilviljanir geti verið að ræða. Þá kyngir maður staðreyndunum – jafnvel þótt manni hafi einhvern tímann verið kennt eitthvað allt annað. Það mælir heldur ekkert á móti öllu slíku í nútíma eðlisfræði. Vantrúartrúmennin verða að styðjast við þrönga túlkun á eðlisfræði fyrri alda (materíalisma). Myndi æra óstöðugan að tína til nægilegt magn af dæmum og ekki samt sannfæra hina fordómafullu trúmenn einsog Pál. Páll og hans líkar búa með “steinbarn í maga” svo gripið sé til snjallrar líkingar nóbelsverðlauna-skáldsins.
Nú fer að verða mál að linni – í bili – þessu alltof-langa tilskrifi. En undir lokin skaðar ekki að ég tilfæri eitt slíkt úr eigin reynsluheimi. Undirritaður staddur í Peking í Kína fær bréf að heiman þar sem spurt er hvort ég hafi reykjapípu hangandi uppá vegg. Svo var mál með vexti að ég hafði þá ferðast til Chengdu höfuðborgar fylkisins Sichuan sem er staðsett beint austuraf Tíbet. Þar hafði ég keypt mér sem minjagrip bambuspípu með festi ætlaðri einmitt til að hengja uppá vegg. Nu hafði faðir minn látist í millitíðinni. Aðstandendur farið á miðilsfund hjá Hafsteini. Þar hafði faðir minn skýrt frá þessari skrýtnu pípu. Af hverju gerði hann það? Vegna þess einfaldlega að það var það sérkennilegasta sem hann sá í herbergi mínu og hefði því mest sönnunargildi.
Ég heyri nú lausar skrúfur hringla í höfði Páls Ásgeirs. Verði honum að góðu sem til er stofnað.
Þetta er allt sannað: “Jafnvel Xenoglossy (úr grískku Xenos = gestur, ókunnugur, erlendur + Glossa = tunga, tungumál; SM) hæfileiki sumra (fárra) verandi í transmiðils-ástandi til að mæla á tungumálum, sem þeir annars þekkja ekkert til í vökuástandi, hefir nú verið staðfest sem “supernormal” fyrirbæri og sem raunverulega hafa verið færðar sönnur á.” (Francis Story: The Belief in Survival. Francis þessi Story er (eða var) vinur og samstafsmaður Ian Stevenson M.D. sem ritaði inngang að bók FS sem þessi tilvitnun er tekin úr og sem einnig var samstarfsmaður Erlendar Haraldssonar, prófessors. Allt eru þetta vísindamenn og rannsakendur “supernormal” fyrirbæra eða “dulrænna”; SM). Svo dæmi sé tekið, það víðfrægasta: Miðill í Svíþjóð talaði löngu týnda sænska mállýsku (skipti einhverjum hundruðum ára) sem hann þekkti ekki í vöku-ástandi en sem málfræðingar þekktu til. Hvað segja menn?
Að síðustu: Ævinlega áðuren Lára hélt sína miðilsfundi sá hun fyrir sér hvíta hönd á lofti – merki þess að öllu væri óhætt. Hönd sem hún þekkti frá barnæsku sinni.
Í eitt einasta skipti brá hún útaf þessari reglu sinni. Hvað henni þá gekk til það veit ég ekkert um. Þrýstingur eða auraleysi? Í þetta eina skipti – og þá fór sem fór.
Morguninn eftir að Lára var öll lét hún mig strax vita. Gerði dálítið kraftaverk svo ekki varð um villst. Við erum ekki sambandslaus.
Sannleikurinn og réttlætið munu ríkja þegar öll kurl koma til grafar.
Höndin mun sjá til þess.
Skúli Magnússon, yogakennari
Sími: 5623785
Post scriptum: Morguninn eftir ég lauk við þessi skrif kom ný sending frá Páli í Blaðinu, þriðjudaginn 18da okt, bls 28 [sjá http://bladid.net/?PageID=136 ] Bókin kemur út á morgunn. “Konan sem lífið tróð niður í skítinn” heitir greinin. En Lára stóð uppúr þeim skít – nota bene.
En ekki vænkast nú hagur strympu: Ævisagan er ekki handrit Láru sjálfrar heldur Sigurðar nokkurs Benediktssonar (“með hans hendi”) sunnanúr Hafnarfirði. Hvernig hann tengist Láru er ekki ljóst né hvar hann kemur inní þetta dæmi. “En Guðrún (Vilmundardóttir, landlæknis) sem hafði annað eintak þessa sama handrits í sinni vörslu, “vildi ekki rjúfa trúnað”, þrátt fyrir að Páll ætti í “nokkrum samningaviðræðum”. Handrit Láru sem hún ætlaði sjálf að fá útgefið hjá Víkingsprentsmiðju (en varð ekki af og þótt búið væri að gefa út hennar eigin ævisögu í búningi Sveins Víkings var nú orðið að handiti Sigurðar Bendediktssonar og algert trúnaðarmál, en samt “kopíerað” í fimm eða kannski fleiri eintökum.
Og drjúgum meira en það: “Handrit hennar (var vesalings maðurinn ekki nýbúinn að segja að handritið væri Sigurðar?) er fullt af mótsögnum og sumt er SENNILEGA LYGI”.
En þessar mótsagnir og … “lygi” að mati höfundar “er sameign þjóðarinar”. Þessvegna verður að brjóta trúnað og særa heiður afkomenda viðkomandi.
Sögu sem er lygi “getum við ekki stungið … undir stól”. Já – auðvitað, það er ekki torskilið.
Höfundur, sagnfræðigrúskari, sem byggir á mótsögnum og lygi og tekur gögnin í óþökk eða heimildarleysi, er maður með mönnum. Sagnfræðingur sem byggir á meintu handriti manneskju sem ekkert verður hafandi eftir. Handriti sem samt sem áður er henn óviðkomandi, amk sem ekki verður rakið að hún eigi hlutdeild í að séð verður. Manneskju sem var “talhlýðin (sic) (ætti að vera “talhlýðinn; SM) vingull”, sem “lífið breytti í ófreskju”. Þetta er einhver allt önnur Lára. Og allt annað handrit.
Þessi snjalli sagnfræðingur mátar sjálfan sig við ekki minni höfund en Dan Brown – heimsþekktan metsöluhöfund “Da Vinci lykilsins”: “Það er ýmislegt í aðdraganda þessa máls sem minnir á Da Vinci lykilinn”. Ekki kemur samt í framhaldinu hvað þetta “ýmislegt” er.
Bók Dan Browns er fantasíu-skáldsaga (og ekki dregin yfir það nein dul), en jafnframt byggt á gulltryggðum staðreyndum. Sjá: CRACKING THE DA VINCI CODE – The Unauthorized Guide to the Facts Behind the fiction eftir Simon Com í amk 60 liðum. Berist saman við heimildaöflun Páls Ásgeirs. Mætti benda manninum á að verða sér útum sálfræði-aðstoð?
19da okt. 2005