Opið fyrirspurnabréf til Nýsis varðandi kenningar Helga Pjeturs
Inngangur
Helgi Pjeturs var að hætti vísindamanna þróunarsinni sem var ekki sjálfgefið á hans tímum. Helgi trúði ekki að andlegi heimurinn eins og við skiljum hann sé óskyldur eða ósamræmanlegur okkar efnisheimi og þeim vísindalegu gildum sem við höfum til að rannsaka hann.
Helgi gerði ekki ráð fyrir því að maðurinn hefði verið til í fyrri lífum og þróast sem slíkur í gegnum margar jarðvistir allt frá dýralífinu, og svo framvegis, líkt og austræn trúarbrögð boða. (Það er í samræmi við viðteknar gyðing-kristnar trúarsetningar sem fullyrða að maður hafi ekki verið til fyrir þetta líf svo langt sem það nær).
Kenning Helga gengur nefnilega út á að jarðvist okkar sé frumlíf en að við endufæðumst þó á öðrum plánetum í öðrum sólkerfum þar sem lífsskilyrði eru fyrir hendi. Hins vegar einkennist framhaldslíf okkar, eða framlífi eins og hann kallar það, af breytni okkar hér á jörðu. Þess vegna geti maður átt von á því að endurfæðast á plánetu við ömurlegar aðstæður ef maður hefði mest megnis komið illa fram við aðra. Það kallaði Helgi helstefnu. Hins vegar myndu aðrir endurfæðast við lífvænlegri skilyrði, þ.e. þeir sem hefðu aðhyllst lífsstefnu. Af þessu sést að kenningar Helga Pjeturs samræmast hugmyndum trúarbragðanna um himnaríki og helvíti svo langt sem það nær.
Fyrirspurnir:
Mér skilst að þetta sé megininntakið í kenningum Helga. Hefur þú eittvað við þennan inngang minn að bæta?
Hvaða ástæðu telur þú vera fyrir því að Helgi Pjeturss hafi ekki aðhylst endurholgunarkenninguna?
Er það ekki rétt skilið að Helgi hefði gert ráð fyrir að maður myndi endurfæðast eins og maður var upp á sitt besta hér á jörðinni í stað þess að fara í gegnum getnað og uppvöxt á öðrum hnetti? Á hverju byggði hann þá kenningu ef svo hafi verið?
Ég hef velt því fyrir mér hvort við gætum ekki endurfæðst, amk á milli jarðvista, á öðrum “efnissviðum” innan sólkerfis okkar sem vísindin hafa ekki nógu góð mælitæki til að nema í stað þess að maður þurfi að endurfæðast á fjarlægum plánetum í vetrarbrautinni sem hafa sams konar efnislegar aðstæður og við á jörðinni? Hver er þín skoðun á því?
Í síðasta lagi þætti mér fróðlegt að þú fræddir okkur um rannsóknaraðferðir Helga og hvaða rök eða sannanir hann færði fyrir kenningum sínum um framhaldslífið út frá sínu vísindalega sjónarmiði? Hvað rannsóknir og kannanir gerði Helgi í því sambandi, (sbr. draumakenningar hans og áhugi á spíritisma (andahyggju).
Helgi talar um að siðferðisleg breytni hafi áhrif á framlífið. Hvaða vísindaleg rök hafði hann fyrir því?
Hvernig taldi Helgi Pjeturs best að rækta samband sitt við aðra lífheima og hvað átti að nást með því?
Ég hvet að sjálfsögðu aðra lesendur til að láta sínar skoðanir fram ef við gefum okkur að til sé líf eftir dauðann með eða án guðlegrar forsjónar.