Áran og áhrif lita á orkublikið
Hafa litir áhrif á orkublikið?
Litir eru stöðugt að verða meira áberandi í klæðnaði og umhverfi fólks. Jafnvel hefðbundin grá og dökk jakkaföt karlmanna eru að víkja fyrir skærari og fjölbreyttari litum. Á sjúkrahúsum er farið að gæta þess að hressa daufgerða sjúklinga með því að skreyta umhverfi þeirra með skærum litum og róa niður of virka og æsta sjúklinga með alls konar bláum og grænum litbrigðum. Þetta gefur vísbendingu um að meiri bjartsýni, léttleiki og glaðværð einkenni mannfólkið í dag sem er einnig í samræmi við bættan efnahag og fleiri frístundir. Fólk sem er sagt vera smekklegt í klæðaburði hefur næmi á að velja liti og snið sem því líður vel í.
Áhrif lita á fólk eiga sér djúpar rætur í sálarlífinu. Í grundvallaratriðum er orsakanna að leita í því að maðurinn er hjúpaður orkulögum sem í daglegu tali eru kallaðar árur eða blik. Hægt er að greina daufa útgeislun bliksins með svokallaðri kirlian-ljósmyndatækni. Dulskyggnir skynja þessa orkjuhjúpi í ótal litbrigðum hvern innan um annan og eru þeir breytilegir frá manni til manns. Árurnar líta út eins og egglaga ský sem ná tvö til þrjú fet út fyrir líkamann.
Litir orkubliksins endurspegla hugarástand mannsins, tilfinningar, geðhræringar og hugsanir. Þannig samsvarar hver litur og litbrigði ákveðinni hugsun og tilfinningu. Í bliki mannsins eru ríkjandi þeir litir sem sýna þroskastig hans, skapgerð, tilhneigingar, smekk og önnur einkenni persónuleika hans. Flöktandi litir sýna geðsveiflur, tilfinningahræringar og hugsanir sem grípa hugann hverju sinni. Þegar sterkar tilfinningar, ástríður og geðshræringar ná valdi á huganum, tekur blikið á sig litbrigði þeirrar kenndar sem ríkjandi er. Liturinn fölnar þegar geðsveiflan líður hjá en endurtaki hún sig oft festist liturinn í árunni sem kemur fram sem ákveðið skapgerðareinkenni. Ríkjandi litir árunnar breytast smám saman eftir því hve maðurinn þroskast eða tekur breytingum.
Þótt flestir sjái ekki liti árunnar og neiti jafnvel tilvist hennar sem votti um hjátrú og kerlingafræði, nota men þó gjarnan litríkar lýsingar á ákveðnum skapbrigðum sem höfða beinlínis til litbreytinga í áru manna og eiga sér stað eftir skapferli og hugarástandi. Við segjum til dæmis að þeir sem verða fokvondir og sótbölva sjái rautt eða svart, “blá-tónlist” (blues) lýsir angurværri hugarstemmningu og maður getur orðið grænn og gulur af öfund og afbrýðisemi.
Ógeðfelldir liti sem eru þungir, dökkir daufir og grófir draga okkur niður og lýsa neikvæðum tilfinningum, eins og græðgi og nísku (brúnn), hatri og ringulreið (svartur), þunglyndi (grár), losta (móbrúnn) og reiði (gruggugur rauður). Fólk sem er þunglynt ætti til dæmis að reyna að klæðast ljósari fötum en það gerir venjulega. Svartur litur hefur þó vendandi áhrif þó hann sé einangrandi (sbr. klæðnaður nunna og presta).
Þeim sem eru lokaðir og hlédrægir er ráðlagt að nota rauðleita liti. Rauðleit blæbrigði eru hlýleg ef þau eru ekki of skær, samanber ímyndin um arineldinn sem tákn fyrir hlýlegan heimilisblæ. Skýrir, skærir og bjartir litir lýsa fögrum hugsunum og dyggðum. Ástúð er fagurrósrauð, trú og hollusta er skærblá og þjónusta, köllun og samkennd eru blágræn o.s.frv.
Sálrænar orkustöðvar og kirtlakerfið
Áran eða orkublikið samanstendur í rauninni af útgeislun frá örfínum eðlis-og vitundarþáttum sem stundum hafa verið nefndir innri líkamir mannsins. Þannig eru tilfinngarnar tengdar tilfinningalíkamanum og hugsanir huglíkamanum, innsæið innsæislíkamanum og svo framvegis.
Allir þessir innri líkamir hafa orkustöðvar sem tengjast innbyrðis alveg niður til kirtlanna í hinum jarðneska líkama. Orkustöðvarnar eru dyrnar inn á svið dulvitundarinnar. Á sama hátt og hærri orkustöðvar stjórna þeim lægri, stjórna hærri kirtlarnir þeim lægri. Kirtlarnir stjórna líkamsstafseminni með því að senda hormóna beint inn í blóðrás líkamans. Kirtlunum er aftur á móti stjórnað af orkustöðvunum. Þær helstu eru sjö af tölu og eru meðfram hryggjarsúlunni frá mænurót til hvirfils. Þær eru eins og hjól að lögun sem hvirflast í hringi.
Hver orkustöð stjórnar ákveðnu svæði á líkamanum og hefur samsvarandi grunnlit, grunntón og ilm.
Orkustöðvarnar draga til sín orku sem samsvarar grunnlitum þeirra og er nauðsynleg heilbrigðu jafnvægi hjá einstaklingnum. Þessi orka kemur frá ytra umhverfi eða frá hærri vitundarstigum.
Líkamlegt heilbrigði og sálrænt jafnvægi mannsins er mikið undir því komið að kirtlakerfið starfi vel. Þar sem orkustövarnar stjórna líkamsstarfseminni í gegnum kirtlakerfið er mikilvægt að þær séu í góðu starfhæfu ástandi. Tilfinngalegt ójafnvægi endurspeglast í truflunum á starsemi orkustöðvanna.
Áhrif lita á heilsu
Sjáendur með þjálfaða skyggnigáfu geta lesið hugarfar fólks eins og opna bók eftir litunum. Einnig geta þeir sjúkdómsgreint fólk eftir árunni. Jafnvel venjulegt fólk getur séð vottra fyrir árunni með því að biðja einhvern um að standa með ljós fyrir aftan sig upp við ljósan vegg. Þá er best að horfa út undan sér með því að einblína á nefbroddinn á viðkomandi eða annað álíka. Í fyrstu sjá menn einhvers konar daufa hvíta tíbrá nokkra þumlunga út frá útlínum líkamans en með æfingunni fara menn að greina liti.
Heilbrigði felst í því að litirnir séu samsettir í réttum hlutföllum í blikinu. Þegar jafnvægið raskast koma sjúkdómar fram í orku- og litatruflunum í blikinu áður en þeir birtast í líkamanum. Þegar jafnvægisleysið er algjört á milli litanna getur það leitt til dauða. Lækning felst í því að endurreisa jafnvægi litaorkunnar í manninum.
Ósamræmi í þessum orkustraumum gefur til kynna að annað hvort of mikið eða of lítið sé af þeim hjá manninum sem getur komið til vegna ytri þátta eins og slysa eða sjúkdóma. Einnig getur þetta ósamræmi komið vegna innri þátta eins og tilfinningalegs og hugræns ójafnvægis.
Geðshræringar og tilfinningasveiflur hafa áhrif á líkamann, sérstaklega innkirtlakerfið. Ofsafengin sorg eða ótti getur jafnvel leitt til dauða. Þessar geðshræringar verka eins og höggbylgjur á taugakerfið sem skaðar innkirtlakerfið.
Skyggnir huglæknar og græðarar sjá dökka eða aflitaða bletti yfir sýktu líffæri. Þar sem hvert líffæri og litur hefur sína orkutíðni er hægt a nota mismunandi liti til að lækna mismunandi sjúkdóma. Græðarinn sendir ósýnilega orku (prönu) sem liti í huganum til svæða þar sem skortur er á þeim eða mótverkandi liti þar sem of mikið er af ákveðnum litum. Græðarinn getur notað ljóslampa af ákveðinni gerð. Einnig er hægt að stjórna litaorkunni sem inn um líkamann fer með neyslu matvæla sem innihalda litaorku af ákveðnu tagi sem er venjulega í samræmi við litarhátt matvælanna (oftast grænmeti og ávestir). Einnig má drekka vatn sem hefur verið hlaðið á sérstakan hátt með orku litanna. Það má gera með því að setja vatn í krukku sem hefur viðkomandi lit og láta hana standa úti í sólinni í um eina til tvær klukkustudir og þá er hægt að drekka í sig litaorkuna. Gott er að drekka vatnið jafnframt því sem notuð er heilunaræfing með sama lit. Óhætt er að drekka litaorkuhlaðið vatn á tveggja klukkustunda fresti.
Breski sjáandinn Alice Bailey sem starfaði á fyrri hluta síðustu aldar boðaði að í framtíðnni muni maðurinn nota liti, tónlist og ilmefni í ríkum mæli til líkamlegra og andlegra lækninga. Nú á tímum er þessi spá að koma fram því að menn eru að uppgötva þessa lækningagrein sem þó hvílir á gömlum meiði. Dæmi um það má finna innan listrænnar meðferðar (art therapy) þar sem tónar og litir eru mikið notaðir. Einnig eru ýmsir nuddarar farnir að nota smyrsl með margs konar ilmefnum við störf sín. Lækninga með kristöllum og orkusteinum byggir á eiginleikum þessara efna að geisla frá sér ljósi (litum) á háu orkustigi sem orkustöðvar líkamans geta dregið til sín eftir þörfum. Aðrar heildrænar lækningaaðferðir sem vinna beinlínis á orkubliki mannsins má nefna hómópatíu, þ.e. smáskammtalækningar, nálarstunguaðferðina, segulorkulækningar, tónlistar- og myndlistameðferð svo dæmi séu nefnd.
Niðurlag
Þessi grein er styttur fyrri hluti greinar sem höfundur birti í Ganglera, tímariti Guðspekifélagsins, haustið 1992. Síðari hluti greinarinnar fjallar nánar og starfsemi orkustöðvanna og kirtlakerfisins og þá einkum hvaða orkuliti megi nota til að heilsueflingar og leiðréttingar á ójafnvægi í starfsemi þessara kerfa. Ef undirtektir við þessa grein verða góðar mun koma til greina að birta seinni hlutann líka.
Heimildir:
Mary Anderson. Colour healing. Chromotherapy and how it works. The Acquarian Press, 1979.
W.E. Butler. How to read the Aura. Its character and function in everyday life, The Acquarian Press, 1979.
Bæklingur um Asanas (Hatha yoga). Gefinn út af jógasamtökunum Ananda Marga á Íslandi (Fjallar einkum um tengsl kirtlakerfisins og orkustöðvanna).