Kristsvitundin, sálin og starfstæki hennar

Veran á miðri skýringarmyndinni – http://www.tsl.org/presence/Default.asp – er meðalgöngumaður á milli Guðs og manns, talsmaður sálarinnar frammi fyrir Guði. Hún er alheims-Kristur, þ.e. heilög kristsvitund okkar eða kristsjálfið. Í dulrænum fræðum er hún einnig nefnd raunveran, æðri vitundin, æðri hugarlíkaminn, samviskan eða innri fræðarinn.

Kristsjálfið yfirskyggir lægra sjálfið sem er táknað með verunni neðst á myndinni. Það er sálin á þróunarbraut í gegnum fjögur lægri svið efnisins til að uppfylla guðdómlega áætlun sína. Starfstæki sálarinnar eru fjórir lægri líkamir (þ.e. ljósvakalíkami, huglíkami, geðlíkami og efnislíkaminn
(Prophet, 1993b, s. 374).

Kristur tengir andlega heiminn við efnisheiminn. Hann er tengiliður Guðs við mannssálina. Þar sem Jesús hafði náð æðstu fullkomnun mannlegrar tilveru varð hann Kristur, hrein birting Orðsins sem varð hold, og því sannur sonur Guðs og meðalgöngumaður Guðs og manna. Guð á aðeins einn eingetinn son sem er Kristur, Orðið sem streymdi frá hjarta hans (sbr. 1Jh 4.9; Jh 1.18). Mynd eingetna sonarins dvelur í hverju mannshjarta á sérstakan hátt. Allt líf streymir frá hjarta Guðs í Kristi sem er ljós mannanna (sjá Jh 1.4). Lífverurnar birta þetta eina líf í þeim mæli sem þroski þeirra leyfir. Kristur persónugerist sem lífsneistinn í brjósti sérhvers manns og myndar kristsjálf hans ásamt guðsandanum.
Hann er “hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann” (Jh 1.9). Ljós hans glæðir kristneistann í brjósti barna Guðs. Til þess að tendra kristlogann í brjósti manna þarf Kristi líka menn eins og Jesú, Krishna og Búddha uns maðurinn er fær um að viðhalda sjálfur lífsneistanum. Þegar neistinn sameinast eldinum hefur maðurinn (mannssonurinn) tekið á móti Kristi i hjarta sínu og öðlast kristfyllingu (endurfæðst sem guðssonur).

Ávöxtur kristsvitundarinnar var fullþroskaður í Jesú en við berum í okkur vaxtasprota Krists sem ber ávöxt á lífsins tré. Jesús hafði fullbirt kristeðli eingetna sonarins en aðrir menn hafa aðeins í litlum mæli þroskað kristeðli sitt. Í fyllingu tímans birtist kristsvitundin í allri sinni dýrð í mannssálinni sem Orðið holdi klætt, sbr. orð Jesú: “Þér eruð ljós heimsins… þannig lýsi ljós yðar [þ.e. ljós Krists í yður] á meðal mannanna” (Mt 2.16).

Verurnar þrjár á skýringarmyndinni samsvara heilagri þrenningu – http://www.tsl.org/presence/Default.asp – Veran efst á myndinni táknar föðurinn sem einnig felur í sér móðurímynd Guðs. Veran á miðri myndinni samsvarar syninum og neðsta veran samsvarar helögum anda. Síðast nefndu verunni er ætlað að vera musteri heilags anda. Kraftur heilags anda er merktur með fjólubláa loganum sem umlykur lægstu veruna. Hún táknar m.ö.o. sjálfan þig sem andlegan lærisvein. Sálinni er ætlað að jafna út karma sitt til að geta bundist kristsvitund sinni og runnið að lokum saman við lifandi nærveru Guðs þess sem nefndur er “Ég er sá sem ég er”. Sálin er forgengilegur þáttur veru þinnar sem ummyndast við upprisuna í varanlega [eilífa – innskot hbraga]eind í líkama Guðs. Myndin af guðlegu sjálfi þínu er sem sagt skýringarteikning af sjálfum þér – í fortíð, nútíð og framtíð (Prophet, 1993b, s. 374).


Þegar gríman fellur

Jesús skildi að maðurinn er tvískipt vera. Sálin myndar lægra sjálf mannsins, persónuleikann “ ég er vitundina” – með litlum staf , og líkamann sem er ytri umbúnaður og klæði sálarinnar á jörðinni. Þetta eru skinnkyrtlarnir sem Guð gjörði manninum og konu hans og lét þau klæðast eftir syndafallið (sjá 1M 3.17-24 og grein hbraga um sköpunasöguna). Sálin er forgengileg skuggamynd á leikbrúðutjaldi, samanber hellislíkingarsaga Platóns. Á grísku þýðir “persona” gríma – enda er persónu-leiki mannsins og líkami ekki samur frá vöggu til grafar og frá einni jarðvist til annarrar eins og Gautama Búddha lagði áherslu á. Tálsýn þessa heims, sem búddhamenn og hindúar kalla Maya, sundra manninn frá guðlegri kristsvitund sinni þar eð hann samkennir sig við sýndarveruleika sálarinnar og heldur að hann sé líkaminn og lægri hugurinn, samanber orð Páls: “Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft” (2Kor 4.18). Descartes sem sá í gegnum grímuna fann sér borgið þar sem hann gat efast um allt annað en að hann hugsaði; “Cogito, ergo sum” – ÉG ER (til) því ég hugsa.

Þegar skýlunni er brugðið frá (þ.e. gríman fellur) og ljós Krists skín í hjörtu manna sjáum við okkur í ásjónu Jesú sem sköpun hins eingetna sonar. Til þess að sjá hann eins og hann er verðum við fyrst að verða eins og hann. Þegar andinn í okkur er birtur munum við sjá og þekkja Guð eins og hann er og eins og hann þekkir okkur í beinni sýn: “Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn” (1Kor 13.12; sjá 1Jh 1.1-3). “Þér elskaðir, nú þegar erum vér Guðs börn, og það er enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Vér vitum, að þegar hann birtist, þá munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er” (1Jh 3.2). “Og sá sem sér mig, sér þann er sendi mig” (Jh 23.44). “Þegar einhver snýr sér til Drottins, verður skýlan burtu tekin. Drottinn er andinn, og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi. En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar frá dýrð [mannssonarins] til dýrðar [guðssonarins]. Þetta gjörir andi Drottins” (2Kor 3.16-18)… “Þar ummyndaðist Jesús fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól” (Mt 17.2)… “Ljós skal skína fram úr myrkri! – hann lét það skína í hjörtu vor til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists” (2Kor 4.6).

Leiðin til frelsunar kemur með upplýsingunni/uppljómuninni (þ.e. gnósis hjá gnóstíkum, búddhi, nirvana og satori hjá búddhamönnum, gnani eða samadhi hjá jógum), með því að taka burt skýluna. Með því að þekkja sjálfan sig mun hann einnig þekkja guð og með því að þekkja Guð mun hann verða myndaður í hans mynd, sagði Clement kirkjufaðir.


Niðurlag

Á endurreisnartímanum komst los á hefðbundna trú, siðareglur og félagskerfi. Frjáls hugsun og mannhyggja (húmanismi) hins forn-gríska anda óx jafnframt ásmegin. Þrátt fyrir það lifir enn í gömlum glæðum frá því að kirkjan hafði einokunarrétt á sannleikanum. Það endurspeglast meðal annars í misskildum og rangfærðum tilvitnunum úr Biblíunni þar sem tíundað er að aðeins trúin á Jesú Krist, einkason Guðs, geti frelsað manninn frá glötun og að menn skyldu eigi aðra Guði hafa (sjá undirstrikaðar tilvitnanir í I. grein; Jh 3.16; Jh 14.6; P 4.12; Kól 1.15-23; 2M 20.1-17; Jes 45.5).

Í austurlenskum trúarbrögðum er álitið að allar leiðir sem veki menn til vitundar um guðdómlegt eðli þeirra séu jafnréttháar. Í “Biblíu” hindúasiðar Bhagavad gita, tekur Guð (Krishna) manninum eins og hann er án tillits til hvernig hann nálgast guðdóminn því að allar leiðir liggi til hans. Hinir ýmsu guðir lúti að endingu hinum eina sanna æðsta Drottni. Andinn er frjáls og brýtur á bak allar hefðir og kennisetningar (kreddur). Hindúadýrlingurinn Sri Ramakrishna (1836-1886) kvaðst hafa uppljómast fyrir öll helstu trúarbrögð mannkynsins sem hann hafði stundað. Hann hélt því fram að allir menn væru birting guðdómsins og við tilbiðjum sama andann sem birtist í mörgum myndum sem við gefum mörg nöfn. Menningarlegur bakgrunnur, uppeldi og tilhneigingar segði til um trúarlegt innræti.

Jesús og Búddha ásamt öðrum upprisnum dýrlingum, vitringum og meisturum sem trúarbragðasagan kann frá að greina, fundu Guð vegna einlægrar trúar og sannleiksástar, göfugs og grandvars lífernis. Með fordæmi sínu og eftirbreytni sýndu þessir eldri bræður okkar að öllum væri unnt að feta í fótspor þeirra og öðlast eilíft líf. Þeir vísa týndum sonum og dætrum Guðs veginn aftur heim til föðurhúsanna með því að vekja okkur til vitundar um guðlegan uppruna okkar (sbr. Jh 14.20).

Englar, tívar (háþróaðir náttúruandar) ásamt uppstignum dýrlingum, vitringum og meisturum allra trúarbragða eru einnig meðalgöngumenn Guðs og manna. Jarðneskir meðbræður þeirra geta í nafni Guðs síns og alheimskrists (sbr. Vishnú og Dharma) ákallað og heitið á þessar himnesku hersveitir sjálfum sér og öllu lífi til blessunar og endurlausnar – enda brýndi Jesús Kristur fyrir mönnum að biðja hver fyrir öðrum (sjá Jk 5.16). Sálin er eftir atvikum krýnd Jesú, Krishna eða Búddha, og þeirra líkum, þar sem þeir eru allir eitt með alheimssálinni Kristi í Guði.

Þyki kristnu fólki lítilmótlegt að skipa Jesú á bekk með öðrum trúarleiðtogum mannkynsins má minnast orða frelsarans um að sá sem vill drottna verður fyrst að þjóna (sjá Mt 20.26,27; 23.11,12; Mk 9.35; Lk 22.26.27; Jh 13.4,5; Fl 2.7-9). Það breytir þó ekki því að Jesús var og er endurlausnari mannkynsins innan marka lögmálsins eins og greint er frá í grein minni sem nefnist “Upprisan, friðþægingarfórnin og efstu dagar”.


Heimildir

Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.

Elizabeth Clare Prophet. The Lost Teachings of Jesus 1-4. Summit University Press, 1993a. http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Jesus&strType=Detail&strCode=2157&mo=bs&epag=
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Jesus&strType=Detail&strCode=2158&mo=bs&epag=
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Jesus&strType=Detail&strCode=2159&mo=bs&epag=
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Jesus&strType=Detail&strCode=2160&mo=bs&epag=

Mark L. Prophet & Elizabeth Clare Prophet. Saint Germain on Alchemy. Formulas for Self-Transformation (Glossary). Summit University Press. Box 5000, Livingston, MT, 59047-5000, 1993b.
http://naropa.cut.org/supress/open/base_open.asp?strSub=Books&strType=Detail&strCode=1835&mo=bs&epag=

Radhakrishnan, Eastern Religions and Western Thought. Oxford University press, Delhi, London, NY, 1989.