Ræðuheimildirnar

Með nákvæmri textarýni á guðspjöllunum hefur greinst aldur þeirra og uppruni. Hin meintu frumrit sem eru týnd hafa verið nefnd Q-ræðuheimildirnar. Q stendur fyrir Quelle á þýsku sem þýðir uppspretta.

Ræðuheimildunum er skipt í þrjú tímaskeið, þ.e. Q1, Q2 og Q3. Fram kemur að samtals 62 tilvitnanir megi tileinka Jesú. Elsta ræðuheimildin Q1, inniheldur 21 tilvitnanir eftir Jesú sem nánustu fylgismenn hans höfðu væntanlega eftir honum. Það var líklega skrifað um 50 e.Kr. og inniheldur sennilega kjarnann í kenningu Jesú.

Í Q1 eru orðræður, líkingar, spakmæli, hvatningarorð og róttækar siðaboðanir. Þeim er fléttað inn í fjallræðuna og æðsta boðorðið (sjá Mt 5-7; 22.36-40). Q1 geymir engar tilvitnanir um dauða Jesú eða upprisu, ekki heldur er minnst á nýjan heim sem bíður hinna útvöldu, né frásagnir af yfirnáttúrulegri fæðingu hans.

Fylgismenn Jesú fundu staðfestingu í helgiritum Gamla testamentisins og í ritum Essena um að Jesús væri sá Messías sem spámennirnir boðuðu. Það kom fram í seinni tíma viðbótum Q2 og Q3 textanna við Q1 frumtextana. Þar má finna ævisagnaágrip Jesú, spásagnir, dómsdagsprédikanir, heimsendalýsingar og formælingar gegn hinum óguðlegu. Þar er guðlegu hlutverki Jesú lýst sem frelsara heimsins sem fórnaði sér fyrir syndir mannanna.

Þjóðernissinnaðir trúarhópar Gyðinga á meðal Farísea, Selóta, Essena túlkuðu endurkomu Messíasar á þá leið að hann myndi frelsa þá réttlátu og Guðs útvöldu undan oki og ánauð Rómverja og endurreisa stórveldi Gyðinga frá dögum Davíðs og Salómons (sjá grein um Essena eftir hbraga). Þar sem Jesús uppfyllti ekki þessar væntingar þeirra bíða Gyðingar enn komu Messíasar.


Tómasarguðspjallið

Q1 líkist einna mest apokrýfu guðspjalli Tómasar postula, efasemdamannsins, er nefndur var tvíburabróðir Jesú enda líktust þeir í útliti, segir sagan. Irenaus kirkjufaðir, ásamt fleirum rétttrúnaðarmönnum, dæmdu Tómasarguðspjall sem villutrúarrit um 180 e.Kr. Það hefst með orðunum: “Þetta eru leyndardómarnir sem Jesús mælti.” Tómas stofnaði kristna kirkju á Indlandi. Samkvæmt guðspjalli Tómasar virðast fylgjendur hans hafa litið á Jesú sem bódhisattva í anda búddhískrar trúarspeki, Jesús hafi verið birting guðdómlegrar visku til að opna augu fólks og vekja til sjálfsvitundar: “Viskan varð hold í myrkum og tilgangslausum heimi”, stendur þar skrifað. Gúrú, sem þýðir Guðs-maður sem hrekur myrkrið á brott, er annar titill sem Indverjar gefa holdtekjum guðdómsins (avatar) sem gegna stöðu heimsfræðara. Í Tómasarguðspjalli kennir Jesús gildi sjálfsþekkingar og hvarf frá veraldarvafstri, samanber “…ef þér þekkið ekki ykkur sjálfa, þá lifið þér í fátækt”.


Búddhískar hliðstæður guðspjallanna

Hliðstæðurnar í Q1 og Tómasarguðspjalli minna sláandi mikið á texta úr búddhískum helgiritum eins og Dhammapada (Dh) og Udanavarga (Ud). Þau gefa heimildum um meinta námsdvöl Jesú (Issa) á Austurlöndum einnig byr undir báða vængi. Jesús virðist hafa haft búddhískar tilvitnanir á hraðbergi sem hann gat lagað að frásagnahefð áheyrenda sinna á myndrænan og kjarnyrtan hátt. Þessar tilvitnanir gefa mynd af Jesú sem viskukennara og siðabótamanni sem boðar kærleik, frið, sátt og fyrirgefningu. Hann býður mönnum að leita sannleikans innra með sér í anda búddhastefnunnar. Hér koma nokkur hliðstæð dæmi um búddhísk áhrif í Q1-ræðuheimildinni:

1) Jesús sagði: “Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela” (Mt 6.20-21).
Búddha sagði: “Mennirnir verða að byggja á trúnni þar sem ekki er hægt að nema á brott sannar dyggðir og enginn þarf að óttast þjófa…” (Ud 10.11).
2) Jesús: “Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá…” (Mt 6.26)
Búddha: “Það er erfitt að feta í fótspor þeirra sem safna engu og lifa á réttu fæði… þeirra vegur er eins og hjá fuglum himinsins (Dh 7.3).
3) Jesús: ”Takið á yður mitt ok og lærið af mér… og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ (Mt 11.28).
Búddha: ”Þegar förumunkur, þótt ungur sé, tekur á sig ok kenninga Búddha uppljómast heimurinn…" (Dh 25.23).


Rit sem fundust við Nag Hammedi í Egyptalandi (þ.á.m. Tómasarguðspjallið) og við Kúmran hellana (Dauðahafsrullurnar) í Palestínu árið 1947 styðja kenningarnar um viðbæturnar við Q1-ræðuheimildina.

Eldri gerð ræðuheimildanna kom einnig fram í seinni tíma viðbótum guðspjallanna (Q2 og Q3). Viskuorðin í þessu safni eru eins að gerð og efnisinnihaldi og Q1-ræðuheimildin og Tómasarguðspjall (TG). Einnig má finna sláandi hliðstæður við búddhíska texta nema hvað orð Jesú eru myndrænni, meitlaðri og mergjaðri. Dæmi:

1) Jesús: “Þér getið ekki þjónað Guði og mammón” (Mt 6.24/Q2-55).
TG: “Ekki er hægt að stíga á bak tveimur hestum til að skjóta úr tveimur bogum í einu” (47.1). Þessa líkingu er að finna í indverskum goðsögnum um stríðsmenn.
Búddha: “Einn vegur leiðir til efnishyggju og annar vegur leiðir til Nirvana… (Dh 5.16).
2) Jesús: ”Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur…“ (Mt 6.22-23/Q2-33).
Búddha. ”Hver sá sem hlýðir á lögmál dyggða og lasta er eins og maður sem hefur augu og lampa og sér allt. Hann verður alvís“ (Ud 22.4).
3) Jesús: ”Vei yður, fræðimenn og Farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan, en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs“ (Mt 23.25/Q2-34).
Búddha sagði að brahmínarnir á Indlandi bæru hrein klæði en að innan væru þeir myrkvaðir (Ud 33.8).
4) Jesús: ”Sá sem sér mig, sér þann er sendi mig“ (Jh 12.45).
Búddha: ”Sá sem sér Dharma, sér mig".


Búddharitið Lalitavistara, sem hefur rætur frá 3. öld f.Kr., á sér margar hliðstæður við guðspjöllin:

1) Búddha: “Sá sem á hann trúir mun veitast mikill fögnuður”
Jesús: “Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf…” (Jh 3.36).
2) Búddha: “Ölmusugjöf er líkt og að sá fræjum í frjósaman jarðveg sem gefur ríkulega uppskeru”.
Jesús: “En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt” (Lk 8.8).
3) Búddha: “Matar sem neytt er eyðileggur ekki neinn…”
Jesús: “Ekki saurgar það manninn sem inn fer í munninn…” (Mt 15.11).
4) Búddha: “Jafnvel þó að himnarnir hrynji til jarðar, …munu orð Búddha haldast”.
Jesús: “Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða” (Lk 21.33). “En það er auðveldara, að himinn og jörð líði undir lok, en einn stafkrókur lögmálsins falli úr gildi” (Mt 16.17).
5) Búddha sagði að fjársjóður komi að engu gagni sem grafinn er í jörðu, samanber dæmisaga Jesú um talenturnar (sjá Mt 25.14-30).


Við þetta má bæta að ýmsar frásagnir guðspjallanna samsvara meira eða minna búddhískum sögnum.


HEIMILDASKRÁ

Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.

Elmar R. Gruber & Holger Kersten. The Original Jesus. The Buddhist Sources of Christianity. Element. Shaftesbury, Dorset, 1955.

Francis Potter, Árin þöglu í ævi Jesú, 1984.

Helstu trúarbrögð mannkynsins. AB, Reykjavík, 1962.

Holger Kersten. Jesu Lived in India. Element, Shaftesbury, Dorset, 1994.

Radhakrishnan, Eastern Religions and Western Thought. Oxford University press, Delhi, London, NY, 1989.