Það má til sanns vegar færa að arísk-germönsk-norræn trúarbrögð hafi ólíkt gyðing-kristnum-arabísk-trúarbrögðum verið laus við að vera fastnjörvuð og bundin í klafa staðnaðs, lífvana og fastmótaðs kennikerfis, enda staðhættir og siðir ólíkir á öllu því víðfeðma svæði sem aríarnir lögðu undir sig eða settust að.
Hins vegar er lítið til af skriflegum heimildum um norræn trúarbrögð nema helst í Snorra-Eddu, Hávamálum og það sem lesa má á milli línanna í fornsögunum. Því er ekki hægt að segja með vissu hversu formfastir helgisiðir heiðinna manna voru eða hvernig helgihald þeirra fór fram.
“Ný-ásatrúarmenn” hafa legið undir ámæli fyrir að hafa mengað siðinn með kristnum tvíhyggjuskilningi. Það má benda á að kristinna áhrifa var farið að gæta innan ásatrúar á síðustu tímum hennar fyrir kristintöku, ekki síst vegna árangurs stríðsmanna hvíta-krists við að berja undir sig lönd heiðinna manna með þeirra eigin vopnum. Auk þess þurftu heiðnir menn að laga sig að samskiptaháttum kristinna þjóða, og láta prímsignast, til þess að vera gjaldgengir í viðskiptum við þá. Þess vegna urðu til menn eins og Helgi magri sem sagður var vera blendinn í trúnni.
Einnig hafa verið færð rök fyrir því að Íslendingasögurnar og Eddurnar séu að vissu marki brenndar fyrir að hafa verið skrifaðar af kristnum munkum þrátt fyrir að þeir hafi verið afburðagóðir sagnaritarar og fræðimenn sem áttu sér ekki líka í hinum kristna menningarheimi. Ragnarök og tíminn fram að þeim á sér t.d hliðstæður við heimsendaspádóma Biblíunnar, en etv. er hér einnig um að ræða goðfræðileg minni sem finna má í sameiginlegri dulvitund mannkynsins eins og sálkönnuðurinn Jung hefði orðað það.
Einnig verð ég að segja vinum mínum í ásatrúarfélaginu sem þetta á við að ég er katólskari en páfinn í þeim skilningi að ég trúi á persónugervinga náttúruaflanna í mynd Þórs og Óðins og annarra góðra hálsa goðsagnanna, þó ég hafi ekki verið viðriðinn hið ágæta félag þeirra. Samt tek ég undir með þeirri skoðun að goðin eiga sér hliðstæður í táknmyndum undirvitundarinnar svo vitnað sé aftur í kenningar Jungs og Campbels. Þetta samsvarar dulspekilegu lögmáli; “svo á jörðu sem á himni” (e. as above so below). Það þýðir á mannamáli að kraftar náttúrunnar eigi sér samsvörun í sálargerð okkar.
Ég hef aðeins ýgjað að þessari hreinræktuðu náttúrutrú minni í greinum mínum og á eftir að gefa því efni betur skil. Það skal að vísu viðurkennast að ný-ásatrúarmönnum er vorkunn því þeir eru undir áhrifum kristinna fræðimanna sem sýndu goðin stundum í skoplegu ljósi eins og Þrymskviða er hvað besta dæmið um.
Svo er ekki ólíklegt að hinir heiðnu ásatrúarmenn hafi undir það síðasta verið farnir að bila í trúnni á goðmögnin þegar siður þeirra og menning fór hallloka fyrir kristna yfirtökuliðinu. Því er ekki óeðlilegt að farið hafi að gæta meinhæðni í garð goðanna á meðal ásatrúarmanna. Það má finna hliðstæður í menningu forn-Grikkja og Rómverja að þegar menning þeirra var farin að líða undir lok þá mátti sjá merki úrkynjunar á því m.a. að menn voru orðnir kaldhæðnir gagnvart goðunum og skopuðust óspart af veikleikum þeirra. Sé litið á bjartari hliðina þá var það ágætur eiginleiki hjá fornmönnunum að taka sig ekki allt of alvarlega og geta hlegið af sjálfum sér og mannanna verkum.
En þegar vegið var að sæmd norrænna manna þá var engu eirt né neinum gefin grið. Þetta gaf af sér hefndarskylduna sem hin kristna menning erfði frá heiðnum mönnum á fyrstu öldum kristintökunnar. Hefndarskyldan ásamt skorti á framkvæmdarvaldi og drottnunargirni höfðingjastéttanna leiddi til falls þjóðveldisins á Sturlungaöld og þess að þjóðin varð undirokað leppríki Noregs og síðar Dana. Ef Íslendingar hefðu kunnað að finna fótum sínum forráð á viðsjártímum er aldrei að vita nema þjóðin hefði getað haldið sjálfstæði sínu og kristin trú og heiðinn áhrif hefðu getað blandast giftusamlega án þess að á hvorugan væri hallað. Þjóðtrúin sem er ávöxtur heiðins siðar og írskra áhrifa hefur þó ávallt kraumað undir niðri og orðið hluti af hinni kristnu þjóðarmenningu í gegnum aldirnar, stundum í góðu sambýli við kristnina en þó oftar olnbogabarn hennar. Sérstaklega er til þess tekið að heiðin áhrif hafa gætt í jólahaldi Íslendinga í gegnum aldirnar þó þau hafi á síðari tímum mengast af amerísku gervijólahaldi.
Ég hef gluggað í tímarit ásatrúarmanna í Bandaríkjunum og heillast af því hvað ásatrúin eru lifandi trúarbrögð á meðal þeirra og hversu einlæg aðdáun þeirra er á íslenskri fornmenningu og íslenskum ásatrúarmönnum (sérstaklega gagnvart Sveinbirni Beinteinssyni) sem haldið hafa við hinum heiðna þjóðararfi. Þeim hefur tekist að endurlífga hinn forna norræna sið með því að draga fram hliðstæður sem enn má finna á meðal núverandi náttúrutrúarbraðga (shamanista) ýmissa frumbyggja sem nú eiga undir högg að sækja, s.s. hvað snertir indíana, inúíta og sama.
Ég er ekki endilega að segja að náttúrutrúarbrögðin svari kalli nútímans, frekar en ásatrúarmenn trúa í raun og veru, en þau mynda þann grunn sem andlegar þarfir mannkynsins þarf að hvíla á, ekki síst hvað virðingu fyrir lífríkinu og náttúrunni og þjóðararfinum snertir. Því miður fyrir kristna stofnanatrú og hennar líka hefur hún skotið sig í fótinn og hoggið á rætur þessarar frummenningar okkar með afdrifaríkum afleiðingum.